06.12.1934
Efri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2761 í B-deild Alþingistíðinda. (3900)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Jón Auðunn Jónsson:

Ég get ekki fallizt á það, sem hv. frsm. sagði, að það þurfi að verða frv. að falli, þó breyt. séu gerðar á því. Vissulega eru frv. send í báðar deildir til þess að þau séu athuguð og gerðar breytingar á þeim í báðum d., ef svo sýnist. Annars væri það þýðingarlaust að láta frv. ganga gegnum báðar þingd. Ég get ekki heldur fallizt á, að brtt. mínar séu óþarfar, enda finn ég ekki, að hann hafi bent á neitt, sem mæli gegn þeim. Í fyrsta lagi fara brtt. mínar fram á að veita vöruflutningabifreiðum undanþágu í einstökum tilfellum til fólksflutninga, þó að þær flytji fleiri en 6 farþega. Vil ég hafa sömu undanþágu hvað snertir fólksflutningsbifreiðar. Það gæti hugsazt, að yfirbyggingu þeirra væri breytt svo, að þær gætu flutt fleira fólk í einstökum ferðum en 6 farþega.

Brtt. mín við 5. gr. er sú, að í stað orðanna: „og er ráðh. þá heimilt“ komi: póstmálastjórn er heimilt. — Er það í samræmi við fyrri gr. frv. Þá er og gert ráð fyrir í mínum brtt., að sérleyfishafar fái að kjósa 3 manna n., til að vera í ráðum með póstmálastj. um veitingu sérleyfa. Mér finnst sjálfsagt, að leitað sé ráða þeirra, og að ráðh. leiti einnig álits og ráða póstmálastjórnar. En aðalbreytingarnar í till. mínum eru þær, að þeir, sem halda póstflutningum nú og hafa annazt þá undanfarin ár; fái þá flutninga áfram, ef þeir fullnægja settum skilyrðum. Mér þykir dálítið hart, ef þeir, sem ekkert er upp á að klaga og staðið hafa vel í stöðu sinni, fá ekki flutningana eftirleiðis.

Það hefir verið venja áður um atvinnurekstur, sem breytt hefir verið með löggjöf, að þeir menn hafa fengið að halda stöðu sinni eða atvinnu, sem stunduðu áður, og mér finnst sjálfsagt að halda þeirri reglu í þessu tilfelli eins og öðrum hliðstæðum. Náttúrlega er sjálfsagt, að sett séu skilyrði eins og ráð er fyrir gert í 5. gr. frv. fyrir því, að leyfið sé veitt. Það má vel vera, að með auknum samgöngum fái fleiri menn leyfi til að starfa á sömu leið. En fyrst og fremst á stefnan að vera sú, að þeir, sem lagt hafa fé í bifreiðir og haldið uppi ferðum í 2—3 ár, fái leyfi til að reka þá atvinnu áfram, ef þeir hafa að öllu staðið vel í starfinu og geta boðið farþegum engu lakari kosti í fargjöldum og farkosti en aðrir. Það eru mörg dæmi í löggjöfinni hliðstæð þessu, að þegar breytt löggjöf hefir verið sett, hefir verið farið þannig að.