15.12.1934
Efri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2788 í B-deild Alþingistíðinda. (3926)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Bernharð Stefánsson [óyfirl.]:

Þegar þetta mál var hér til 2. umr., hreyfði ég nokkrum aths. út af sumum ákvæðum frv., sem okkur þm. Eyf. fannst reka sig á hið daglega líf í okkar héraði, og við vissum ennfremur til, að þannig var ástatt í mörgum öðrum héruðum, en það er viðvíkjandi þeim fólksflutningum, sem nú fara fram á vörubifreiðum og eru orðnir afarmiklir. Ég lét þess þá getið, að ég vildi gjarnan eiga tal við n., sem hafði þetta mál til meðferðar, og ræða við hana um nauðsynlegar breyt. í þessu efni, og a. m. k. fá hjá henni fullnægjandi skýringu á þessum ákvæðum, sem við þm. Eyf. gerðum aths. við. Hv. frsm. n. tók vel í þetta og bjóst við, að við mundum auðveldlega geta fengið að ræða við n. um þessi efni. Við þm. Eyf. biðum því talsvert með það að gera brtt. við frv. En af þessu samtali okkar við n. varð þó ekki neitt. Ég get því ekki ásakað okkur þm. Eyf., þó að við höfum borið fram brtt. án þess að það væri í samráði við n. Með þessu er ég þó ekki að ásaka n. eða frsm. hennar fyrir það, að ekkert varð af þessu samtali, því að ég býst við, að ástæðan til þess, að þetta samtal fórst fyrir, hafi eingöngu verið hið mikla annríki, sem verið hefir. Ég man það, að daginn áður en frv. var tekið á dagskrá hér til 3. umr. kom hv. frsm. til mín og sagði mér, að nú mundi málið verða tekið á dagskrá daginn eftir og að nú skyldi ég koma með brtt. við það. Niðurstaðan varð því sú, að við þm. Eyf. fluttum brtt. við frv., sem eru á þskj. 792, og svo aftur síðar brtt. á þskj. 811. Hvað snertir brtt. á þskj. 792, þá mun ég ekki ræða hina fyrri þeirra, því að við tökum hana aftur, jafnframt því sem við berum fram fyrri brtt. á þskj. 811, því að hún er um sama efni. Við nánari athugun sáum við það, að fyrri brtt. á þskj. 792 náði ekki fyllilega þeim tilgangi, sem við vildum ná, og við gerðum því ýtarlegri till. um þetta efni.

En hin brtt. okkar á þskj. 792, sem er við 10. gr. frv., er um efni, sem ég hafði ekki gert neinar aths. við, þegar málið var hér til 2. umr., sem sé um það, að í staðinn fyrir, að í 10. gr. frv. er kveðið svo á, að þeir, sem hafa haldið uppi föstum áætlunarferðum á ákveðnum leiðum áður en l. gengu í gildi, skuli, að öðru jöfnu, ganga fyrir um veitingu sérleyfa, þá viljum við með þessari brtt. okkar við 10. gr. frv. kveða svo á, að þeim skuli veitt sérleyfi á sömu leiðum. ef þeir að öðru leyti fullnægja ákvæðum l. Ferðalög eru orðin og hafa æfinlega verið svo mikill þáttur í lífi hvers manns, að fyrir okkur vakir það yfirleitt, að þegar sett eru ákvæði um fólksflutninga með bifreiðum, — og fólksflutningar hér á landi fara, eins og allir vita, að mestu leyti fram með bifreiðum [Eyða í handr.].

Ég skal játa, að eftir að hafa heyrt ræðu hæstv. atvmrh. tel ég ekki eins mikla nauðsyn á þeim breyt. við 10. gr., sem farið er fram á í þskj. 792. Hann sagðist álíta rétt, að þegar til veitingar sérleyfa kæmi, yrði miðað við það hlutfall, sem verið hefði um fólksflutninga, og að menn fengju sérleyfi í hlutfalli við þá flutninga, sem þeir hefðu haft, svo að mér sýnist, að þá yrði ekki beinlínis gengið á rétt manna. Hann sagði ennfremur, að ef ekki væri hægt að fullnægja þessu, þá teldi hann rétt að bæta hlutaðeigendum það upp með því að veita þeim sérleyfi á öðrum leiðum. Ég væni hæstv. ráðh. ekki um, að hann muni ekki framfylgja því, sem hann felur rétt. En það er þó ekki alveg það sama að telja eitthvað rétt og að segjast ætla að framkvæma það. Ég er ekkert að tortryggja ráðh., en ef hann lýsir því yfir, að hann ætli að framkvæma 10. gr. á þann hátt, sem hann taldi rétt vera, þá getum við fallið frá till. og tekið hana aftur. (PM: Það kunna nú að koma ráðh. eftir þennan!). Rétt er það, en það koma líka önnur þing og aðrir menn, sem kynnu að vilja breyta þessum lögum. En ég tel tilgangi okkar fullnægt, ef hið sama næst gegnum stjórnarráðstöfun, sem við ætluðum að ná með till. okkar.

Þá eru brtt. okkar á þskj. 811. Ég þarf ekki að skýra fyrri till. Hún er um það, sem ég talaði um við 2. umr., að undanþiggja þær bifreiðar, sem gegna vöruflutningum fyrir bændur, en flytja jafnframt fólk. Mér skildist á hæstv. ráðh., að hann teldi þessa till. alveg óþarfa. Mér skildist hann viðurkenna ástæður okkar fyrir því, að þessir fólksflutningar væru nauðsynlegir, en till. væri hinsvegar óþörf, af því að þessar bifreiðar kæmu ekki undir lögin. Ef hann getur sannfært mig um, að svo sé, þá getum við vitanlega tekið till. aftur. En það var nú gerð tilraun til að sannfæra okkur um þetta við 2. umr., og hæstv. ráðh. reyndi það líka í ræðu sinni áðan, en við erum ekki sannfærðir enn. Það stendur í 1. gr. frv., að engum sé heimilt að hafa með höndum fólksflutninga með bifreiðum, sem stærri séu en svo, að þær rúmi 6 farþega, nema hafa fengið til þess sérleyfi frá ríkisstj. Það er alls ekki talað þar um, að átt sé við bifreiðar, sem hafa sæti fyrir fleiri en 6 farþega. Þeir, sem ferðast með vöruflutningabifreiðum, eru óneitanlega farþegar bifreiðarinnar, þó að þeir kunni að sitja á mjólkurdunkum. Það hefir því ekki enn tekizt að sannfæra mig um, að till. okkar sé óþörf. Ég held þvert á móti, að hún nauðsynleg, ef á annað borð á að undanþiggja þessa fólksflutninga, sem hafa mikla þýðingu fyrir héruðin. Það mundi valda mikilli truflun um allt daglegt líf í sveitunum, ef settar væru hömlur á þessar samgöngur. Hv. þm. S.-Þ. hefir flutt skrifl. brtt. við okkar till., þess efnis, að það, sem við viljum, að sé ákveðið í l., vill hann heimila ráðh. að gera. Okkur má nú standa nokkuð á sama, hvort þetta er beinlínis löggjafaratriði eða framkvæmdaratriði, ef það er tryggt, að löggjöfin verði ekki til þess að trufla þessa flutninga, sem við teljum mjög nauðsynlega fyrir sveitirnar. Við flm. till. höfum ekki borið okkur saman, en við værum kannske tilleiðanlegir að taka till. aftur, ef hæstv. ráðh. lýsti því skýrt yfir, að hann ætlaði að nota till. hv. þm. S.-Þ. til þess að heimila þá flutninga, sem ég hefi lýst, eftir sem áður. Ég skal bera það undir meðflm. minn, hvort hann vill taka till. aftur, ef hæstv. ráðh. gefur slíka yfirlýsingu.

Síðari brtt. á þskj. 811 fer fram á það, að fresta heimild 7. gr. til að taka minni bifreiðar undir þetta ákvæði. Þetta er sprottið af sömu hugsun og aðrar brtt. okkar, að æskilegt sé, að þessar fyrirhuguðu breyt. komi sem hægast og valdi sem minnstum truflunum í venjum og atvinnuháttum. Vitanlega er betra, ef á að skipuleggja þetta líka, að á því verði nokkur frestur, heldur en að því verði skellt á öllu í einu, svo að bifreiðaeigendur og almenningur geti vitað um þetta fyrirfram og búið sig undir þær afleiðingar, sem slík skipulagning hefir. Af þessum ástæðum er till. fram komin. Ég býst við, að ég gangi nokkru lengra í þessu efni en till. beinlínis ber vott um og greiði atkv. með brtt. á þskj. 698, um að þessi 7. gr. falli niður. Þessi gr. var ekki í frv. upphaflega, og ég tel, að vel mætti a. m. k. byrja þannig, að undanskilja þessar litlu bifreiðar. Ef mönnum sýndist nauðsynlegt, mætti breyta þessu og setja ákvæðið inn síðar. En ég skal geta þess, að hv. meðflm. minn er algerlega óbundinn af þessum orðum mínum um till. hv. 1. þm. Reykv. á þskj. 698.