18.12.1934
Efri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2796 í B-deild Alþingistíðinda. (3937)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. S.-Þ. hefir nú gert sig svo hátíðlegan að lesa upp af blaði yfirlýsingu þess efnis, að brtt. hans eigi að skilja öðruvísi en hún hljóðar, og frv. eigi líka að merkja ýmislegt annað en það, sem þar í stendur. Ég býst við, að menn hafi tekið eftir því, að ráðherrar hafa haft þann sið, að lesa slíkar yfirlýsingar í þýðingarmiklum málum, til þess að vera vissir um, að það, sem þeir segðu, kæmist orðrétt í þingtíðindin. En þarna er þó þess að gæta, að yfirlýsing ráðh. getur varðað miklu um framkvæmd l., og því gott að hafa hana orðrétt skjalfesta. Og hvað þessari yfirlýsing viðvíkur, þá hefir ekki verið tilkynnt opinberlega, eftir því sem ég bezt veit, að hv. þm. S.-Þ. eigi að taka við ráðherraembætti svo bráðlega, að hann komi til með að framkvæma þessi l. Ég býst því við, að flestum sé sama um það, hverju þessi hv. þm. lýsir yfir um brtt. sínar og frv. sjálft. Líklega væri réttast fyrir hann að bera þessa löngu ræðu sína fram sem brtt. við frv. Till. segir ekkert annað en það, að ráðh. geti einnig látið sérstök ákvæði gilda um mannflutninga samkv. þessum l., á bifreiðum, sem hafa fasta flutninga á framleiðsluvörum bænda að aðalstarfi. Nú segir hv. þm., að þetta eigi við Skagafjörð, Eyjafjörð, Þingeyjarsýslur og önnur héruð, sem líkt sé ástatt um, en ekki við langleiðirnar, þar sem komin sé greinileg verkaskipting milli fólks- og vöruflutninga. En við skulum taka til dæmis Norðurlandsveginn. Samkv. till. má ráðh. láta sérstök ákvæði gilda um mannflutninga með vörubílum á þessum leiðum, hvað sem yfirlýsingu hv. þm. líður. Þetta er, að ég held, einstakt atriði í l., að ráðh. sé gefið svona víðtækt vald til þess að haga framkvæmd l. eftir sínum geðþótta. Það má vel vera, að hv. 1. þm. Eyf., sem komið hefir þessari brtt. af stað, treysti núv. atvmrh. til þess að setja heppileg ákvæði um þetta efni, en það geta komið ráðherrar á eftir honum, sem hv. þm. treystir ekki eins vel, og að því er vert að gæta nú, þegar á að leggja þetta vald í hendur ráðh. Mér skildist það á hv. 1. flm. brtt. á þskj. 811, að hann teldi sig una við till. eins og hún verður með breyt., sem felst í till. á þskj. 834. Ég á bágt með að trúa því, að hv. flm. láti sér lynda þá afgreiðslu á till. sinni. Í brtt. þeirra, 1. brtt. á þskj. 811, eru ákvæðin um þetta alveg skýr; þar stendur, að þær bifreiðar, sem hér um ræðir, skuli vera undanþegnar ákvæðum l. En það er aðeins önnur hliðin á till. hv. þm. S.-Þ. Hin er sú, að ráðh. er gefin heimild til þess að setja önnur ákvæði í staðinn. Mér finnst ákvæðin í 1. brtt. á þskj. 811 vera eðlileg; þetta eru víða einu samgöngurnar, ekki bara í Skagafirði, Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, heldur líka hér í nágrenni Reykjavíkur. Og fyrir tillögumönnum vakir það, að ekki verði hægt að banna slíka mannflutninga með vörubifreiðum. Ég er því með þessari brtt. og tel hana til bóta. Og ég vona, að hv. flm. gerist ekki svo lítilþægir að láta sér nægja þá meðferð, sem hér hefir verið stungið upp á.

Mér skildist á hv. fyrri flm. brtt. á þskj. 792, að hann hefði tekið aftur 2. brtt. á því þskj., um að þeim félögum og einstaklingum, sem haldið hafa uppi föstum áætlunarferðum á ákveðnum leiðum áður en lögin gengu í gildi, skuli veitt sérleyfi til flutninga á þessum sömu leiðum. Ef það er rétt, að hv. flm. hafi tekið þessa till. aftur, vil ég leyfa mér að taka hana upp sem mína till., því að ég tel hana sjálfsagða. Þeir eru svo hættulegir víða, okkar íslenzku vegir, að miklu varðar, að kunnugir menn aki þá. Enda er það svo, að þessar áætlunarbifreiðar verða að fara allra ferða sinna hvernig sem viðrar, á degi sem nóttu. Það er því sjálfsagt, að þær bílstöðvar og þeir bílstjórar, sem orðnir eru þaulkunnugir þessum langleiðum, fái sérleyfi á þeim leiðum. Það er ekki sambærilegt, hvað miklu meira veltur á bílstjóra, sem stjórnar bíl um langleiðirnar hér á landi, en lestarstjóra á eimvagni, sem rennur eftir sléttum teinum. Og þó þykir svo mikið undir því koma, að vagnstjórarnir séu kunnugir leiðinni, að sami maðurinn er alltaf látinn aka sama spölinn. Þetta sér maður, þegar ferðazt er lengri leið með járnbrautarlest, þá er alltaf verið að skipta um vagnstjóra. Svo mikið, er gert til þess, að vagnstjórinn verði þaulkunnugur leið sinni. Enda er sjálfsagt að raska sem minnst atvinnurekstri landsmanna með l. sem þessum. Og það er hreinasta gerræði, ef félögum eða einstaklingum er bægt út af leiðum, sem þeir hafa lengi ekið á og eru orðnir nákunnugir. Það er miklu óákveðnara að segja, að ráðh. skuli veita þetta sérleyfi svo að jafnaði. Með því móti er ekkert hægt að segja við því, þótt ráðh. veiti allt öðrum þetta sérleyfi; hann gæti borið það fram sem rök, að viðkomandi keypti ekki sitt benzín og smurolíu á réttum stað, en eins og við vitum, er það mikið atriði, að þessar vörur séu keyptar á vissum stöðum. Hæstv. ráðh. sagði í sambandi við þessa brtt., að sérleyfunum yrði úthlutað á svipaðan hátt og útflutningsleyfum væri nú. Ég skil ekki, hvað hann á við með þessu; mér finnst hér svo ólíku saman jafnað. Ennfremur tók hæstv. ráðh. það fram, að þegar margir sæktu um sérleyfi á einni leið, yrði þeim, sem bægt verður frá, veitt sérleyfi á einhverri annari leið. En þá skilst mér, að einhver þurfi að víkja af henni, og svo getur það gengið koll af kolli, og hvar á að láta þann síðasta? Enda er ekkert vit í því að taka kunnuga bílstjóra af leiðum þeirra og skella þeim á aðrar ókunnugar. Þegar bílstjóri er búinn að aka nokkuð lengi á sömu leiðinni, fer hann að þekkja fólkið, sem aðallega þarf að nota flutningana, og getur af því leitt mikil þægindi fyrir fólkið, sem það yrði að vera án, ef bílstjórinn væri ókunnugur.

Þá hefir verið sett í frv. ákvæði, sem miðar að því að útiloka gersamlega alla heilbrigða samkeppni milli bílstöðva á þeim leiðum, sem fleiri en ein má aka á, og það er ákvæðið um, að úthluta skuli fargjöldunum milli sérleyfishafa eftir tölu sætakílómetra bifreiða þeirra, sem þar eru í förum. Það er m. ö. o. verið að taka alla hvöt af stöðvunum til þess að vanda bíla sína og viðurgerning við farþega, svo að þeir taki einmitt þá bíla fram yfir aðra. Þetta ákvæði 6. gr. er að vísu í heimildarformi, og þarf n. sú, sem gert er ráð fyrir í 3. gr., að samþ. það áður en framkvæmt verður, en ég get vel trúað því, að sérleyfishafar vildu láta samþ. þetta, svo að ekki þurfi að vanda eins bíla og viðurgerning.

Hv. 4. þm. Reykv. var að kvarta yfir því, að bílarnir væru yfirleitt of góðir. Honum er þá ekki eins annt um öryggið á landi eins og sjó, ef honum þykir að því, að hér skuli yfirleitt vera í förum nýlegir bílar. Skraf hans um lúksusbíla var hrein og bein vitleysa; verksmiðjurnar útbúa flestar bíla sína snoturlega, þeir kosta ekkert meira fyrir það, þó haft sé nikkel á luktum o. s. frv. Lúksusbílar sjást hér varla. Ég geri ráð fyrir því, að ef pantaðir væru sérstaklega ómálaðir bílar, þá fengjust þeir. Og vel má vera, að hin fyrirhugaða einkasala panti slíka bíla til þess að fróa augum hv. 4. þm. Reykv., sem þykir bílarnir, sem algengastir eru nú, of fínir og fallegir.

Eini ljósi punkturinn í þessu máli er nú sá, ef líkindi væru til, að brtt. mín um að fella niður 7. gr. yrði samþ., þá næðu ákvæði l. ekki til 7 manna bifreiða eða smærri. Það eina, sem gæti haldið aðbúðinni við þessa flutninga á sómasamlegu stigi, væri samkeppnin frá frjálsu bifreiðunum. Að öðrum kosti mundi þetta skipulag leiða af sér meira öryggisleysi og verri viðurgerning en áður hefir þekkzt.

Auk brtt. á þskj. 698, sem ég áður hefi mælt fyrir, flyt ég nú 3 brtt. við frv., á þskj. 848, ásamt hv. þm. Dal. Fyrsta brtt. er við 1. gr. frv., en í henni felst sem kunnugt er aðalefni frv., nefnilega, að enginn megi hafa með höndum fólksflutninga með þeim bifreiðum, er þar um ræðir, án þess að hafa sérleyfi. Brtt. mín fer fram á það, að þetta sérleyfi þurfi ekki til fólksflutninga með bifreiðum til skemmtiferða eingöngu. Þar sem því hefir verið lýst yfir, að blessun þessa skipulags eigi einkum að falla þeim í skaut, sem þurfa að nota bilferðir á langleiðum, sé ég enga ástæðu til þess, að skemmtiferðalög séu dregin undir ákvæði l. T. d. koma hér á sumrum stóreflis skemmtiferðaskip með þetta 400—600 farþega, og allir vilja þeir komast sem víðast um landið á þeim stutta tíma, sem skipið stendur við. Og það getur verið, að þetta fólk vilji fara eftir einhverjum sérleyfisleiðunum. Og þá er eftirspurnin eftir farartækjum svo mikil, að það verður að taka alla fáanlega bíla í bænum til þess að mæta henni. Í svoleiðis tilfelli nær það ekki nokkurri átt, að fjöldi bíla verði að liggja ónotaðir vegna skipulagshaftanna. Eða ef við tækjum dæmi eins og þegar Markarfljótsbrúin var vígð, þegar þarf að grípa til allra fáanlegra flutningstækja. Mér finnst því ótækt að láta ákvæði l. ná til þessara flutninga, og brtt. mín fer fram á, að þeir verði undanþegnir. Og eftir því sem tilgangi l. hefir verið lýst, skil ég ekki, að sú breyt. geti farið í bág við hann. Mætti ákveða nánar í reglugerð, hvað átt er við með skemmtiferð. Ég geri ráð fyrir, að leiðin hér austur yrði seld á leigu samkv. l., en það er dæmalaus fjarstæða, sem ekki nær nokkurri átt, að ætla að banna öllum öðrum að aka á þeim leiðum stærri bifreiðum en 7 manna. Við skulum bara taka t. d., að það hefði átt að banna öllum nema ákveðnum sérleyfishafa að aka austur að Markarfljótsbrúnni í sumar. Mér skilst, að slík skemmtiferðalög þurfi að vera undanþegin í l. En þegar við hv. 4. landsk. leigjum okkur bifreið saman til þess að skemmta okkur, erum við ekki svo ríkir, að við tökum nema 4 manna bifreið, og þá ná lögin ekki til okkar.

2. brtt. er við 5. gr. a., þar sem stendur, að sérleyfið gildi um 3 ár og sé óframseljanlegt. Ég sé ekki ástæðu til að binda þetta svo fast, að leyfið sé óframseljanlegt undir öllum kringumstæðum. Það getur vel staðið svo á, að mikil ástæða sé fyrir þann, sem fengið hefir sérleyfi, að framselja það. Við skulum taka t. d., að einhver bifreiðastöð hafi fengið sérleyfi. Nú vill einhver bifreiðarstjóri, sem ekið hefir á þeim leiðum, setja upp sjálfstæðan rekstur, og er þá ekki óeðlilegt, að hann geti gengið inn í leyfið með samkomulagi. Og þegar bifreiðarstjórinn er sá sami, sé ég ekkert athugavert, þó sérleyfið sé framseljanlegt, og er því farið fram á að heimila þetta í samráði við póstmálastj. Þetta er einnig hagræði fyrir ráðh., að losna við fólksstraum og erfiði, og ekki sé verið að ónáða hæstv. stj. og hún þurfi að bjóða þetta út oftar en þörf er á. Það er því eins hentugt, að þetta fari fram í samráði við póstmálastj. án þess til ríkisstj. þurfi að koma. Vitanlega getur enginn framselt leyfið til lengri tíma en hann hefir sérleyfið fyrir.

Þá er 3. brtt., við 8. gr. frv., viðvíkjandi strætisvögnum og sérleyfum til þeirra. Það getur vel verið, að það sé ekki að öllu leyti óhentugt að veita sérleyfi til aksturs um bæi. Ég veit ekki nema það sé þörf að hafa þar nokkurt eftirlit, þó það verði sennilega til að útiloka samkeppni, og verði því dýrara og að því leyti óhentugt fyrir notendur. En ef sérleyfið er veitt, verður að takmarka skýrt það svæði, sem þeim er heimilt að aka um, og hvað heyrir undir strætisvagnaakstur. Ég hefi heyrt orðað, að það væri rétt að binda sérleyfið við það, að strætisvagn mætti ekki fara út fyrir lögsagnarumdæmið. Ég held, að þetta sé ekki rétt og það gæti oft verið mjög eðlilegt, að þeir fari út fyrir lögsagnarumdæmið. Ég skal taka t. d. Rvík, sem ég er kunnugastur. Það er mjög eðlilegt, að strætisvagnar aki út á Nes og upp að Rauðhólum eða annað um næsta nágrenni, sem tilheyrir bæjarumferð, enda jafneðlilegt eins og fara suður í Öskjuhlíð, og strætisvagnarnir hafa alltaf ekið á þessum leiðum, þó þær séu utan lögsagnarumdæmis bæjarins. Þó væri e. t. v. enn meiri ástæða í sumum öðrum bæjum, t. d. Akureyri, sem má segja, að sé ein lengja og því mjög vel fallin fyrir strætisvagna, og líklegt, að farið verði að nota þá þar, en þá eðlilegt og nauðsynlegt, að þeir mættu fara lengra en um lögsagnarumdæmið. Ég hefi því orðað till. svo: „Skal í sérleyfi skýrt afmarkað það svæði, sem strætisvögnum er heimilt að aka um, enda miðist það við umferð í bænum og næsta umhverfi“. Það verður að taka það skýrt fram, hvert strætisvagnarnir mega fara, til þess að ganga ekki inn á rétt annara sérleyfishafa á langleiðum, og er þá eðlilegast að takmarka svæðið við venjulega bæjarumferð.

Ég hefi þá mælt fyrir þessum brtt., og hefi ekki borið fram fleiri, enda þótt ástæða væri til. En ég vil taka það fram, að þó ég telji þessar till. til bóta og þó að þær verði samþ., þá tel ég frv. í heild engan veginn til bóta. Að vísu er það stórt atriði, ef 7. gr. verður felld niður samkv. brtt. minni á þskj. 698. Hitt er annað mál, ef mínir spádómar rætast ekki, en vel reyndist með stóru bifreiðarnar, að fara þess þá á flot við Alþ., að það bætti við. Það hefði verið sérstök ástæða að bera fram brtt. við 6. gr., og satt að segja láðist mér það. Það ákvæði er eins óheppilegt og það getur verið og útilokar alveg samkeppni á þeim leiðum. Mætti í þess stað setja, að ráðh. ákvæði einhver verksvið fyrir hvern leyfishafa á sömu leið. En ég treysti því, að erfitt verði að fá þetta leyfi hjá póstmálastjóra, og að menn sjái, að með því er stefnt að því að spilla samgöngunum.