18.12.1934
Efri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2802 í B-deild Alþingistíðinda. (3940)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Magnús Guðmundsson:

Mér skilst, að fyrst brtt. 811 er tekin aftur, þá falli niður af sjálfu sér brtt. á þskj. 834, því að hún er brtt. við brtt., sem aftur hefir verið tekin. Þarf ég því ekki að tala neitt um brtt. á þskj. 834.

Ég vil benda á, að frv. þetta, eins og það kom fram í byrjun, sýndi, að sú n., sem stendur að því, virðist hafa athugað það mjög lítið, því að það er alveg vist, að um þá flutninga, sem hér hefir verið rætt svo mikið, hefir ekkert verið hugsað, og hv. þm. S.-Þ., sem er einn af feðrum þessa frv., lýsti því yfir fyrir sitt leyti, að hann áliti, að þessir flutningar um sveitir ættu alls ekki að falla undir frv., en eins og frv. kom til d. var ómögulegt að skilja það svo, enda fann n. það og bætti því við 2. málsgr. 1. gr.

Ég verð að segja það um upplestur hv. þm. S.-Þ., að þó að hann skoði hann sem páfaúrskurð, þá býst ég ekki við, að hann hafi mikla þýðingu, þegar á að fara að skýra þessi l. Þess vegna er nauðsynlegt að samþ. brtt. eins og hv. þm. Eyf. hafa stungið upp á, og ég get lýst því yfir, að mér lízt í fljótu bragði vel á hina framkomnu skrifl. brtt., og ég álít, að hún geti komið í staðinn fyrir brtt. á þskj. 811. Ég sé því ekki ástæðu til að taka hana upp, en það er önnur brtt., sem tekin hefir verið upp af hv. 1. þm. Reykv., sem sé brtt. á þskj. 792.

Ég hjó eftir því, að hæstv. atvmrh. vildi alls engu lofa um framkvæmd laganna viðvíkjandi þeim bifreiðum, sem ræðir um á þskj. 834, en það er þá því nauðsynlegra að fá inn í frv. greinileg ákvæði, og ég vona, að þau ákvæði, sem felast í skrifl. brtt., séu nægileg í þessu efni, þó að ég hefði heldur kosið ákveðnara orðalag. Hitt er rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að venjulega mun það vera svo, að sömu bifreiðar flytja að og frá bændum, og þess vegna muni þetta ekki koma verulega að sök. En það getur eigi að síður farið þannig, að ákvæði þessa frv. verði öðrum mönnum að tjóni heldur en þeim, sem bjarga á með þessari brtt., þó hún verði samþ. Þetta gæti borið við fyrir þá sök, að frv. er í heild vanhugsað og óþarft, að því er séð verður.

Það hefir rækilega verið á það bent við fyrri umr. í þessu máli, að bifreiðaflutningur hefir gengið mjög vel undanfarið. Það hefir mjög lítið borið á slysum, og fargjöldunum hefir mjög verið í hóf stillt, og þó hv. þm. S.-Þ. lofi því, að fargjöldin lækki allt að því um 1/3, þá hef ég enga trú á því, að slíkt verði. Ég hygg, að gjöldin séu alls ekki ósanngjörn nú, meðan vegir eru jafnslæmir og þeir eru enn hér á landi. Þess vegna hefi ég ekki trú á því, að gjöld þessi verði lækkuð nema með því að það gangi út yfir öryggi farþeganna, eða þá að það dragist þangað til vegunum hefir miðað betur áfram, því það er vitanlegt, að bifreiðarnar slitna miklu fyrr hér en annarsstaðar, fyrir það hve vegirnir eru slæmir. Einnig þurfa bifreiðar hér meira benzín af þessum ástæðum en annarsstaðar.