20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2807 í B-deild Alþingistíðinda. (3952)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég vil minnast dálítið á 1. gr. frv. í sambandi við þær brtt., sem fram hafa komið.

Í 1. mgr. 1. gr. er tekið fram, að fólksflutningar í bifreiðum, sem taka færri en 6 farþega, falli ekki undir ákvæði laganna. Í 2. mgr. l. gr. segir, að bifreiðar, sem skráðar eru til vöruflutninga, megi flytja fólk „endrum og sinnum“, án þess að sérleyfi þurfi til, þótt þær flytji fleiri en 6 farþega. Slíkir flutningar tíðkast hér í Reykjavík á sumrin, á laugardagskvöldum og sunnudögum. Jafnframt er svo ákveðið, að þær bifreiðar, sem flytja að staðaldri framleiðsluvörur bænda, þurfi ekki sérleyfi, þótt þær flytji fleiri en 6 farþega. Slíkir flutningar tíðkast allmjög til sveita, einkum á Austurlandi, að bifreiðar flytji fólk jafnframt vörum. (PHalld: Því var þetta ekki sett inn í frv. strax?). Ég áleit, að frv. í sinni upphaflegu mynd næði ekki til þessara bifreiða, þótt ég væri því samþ., að þetta væri tekið skýrar fram.

Frv. nær því aðeins til mannflutningabifreiða, sem taka yfir 6 farþega. Við erum með frv. að reyna að koma skipulagi á mannflutningana með stóru bifreiðunum, sem svara til járnbrautanna erlendis.

Ég vil benda á dæmi, sem mér er vel kunnugt úr lögreglustjóratíð minni til sönnunar því, hvílík þörf er orðin á slíkri löggjöf sem þessari. Á veginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur er samkeppnin orðin svo mikil, að hvað eftir annað hafa borizt kvartanir og kærur yfir því, að ekið hefði verið með það fyrir augum af ásettu ráði að tefja fyrir keppinautum. Fólk á Hafnarfjarðargötum hafði ekki frið fyrir bílstjórum, sem rifust um að fá það upp í bíla sína. Og þó hefi ég sannfrétt, að nú um langan tíma hafi ekkert verið upp úr þessum ferðum að hafa og vagnarnir skrölt hálftómir eða alveg tómir á milli.

Hér er alveg sama þörf á skipulagi á mannflutningum með stórum bifreiðum og með járnbrautum erlendis.

Verði sú brtt. hv. 8. landsk. samþ., að fella niður orðin „endrum og sinnum“ í 2. mgr. 1. gr., er þar með allt skipulagið fallið, því að vandinn að fara kringum lögin er þá ekki annar en sá, að láta skrá bifreið sína sem vörubifreið. Sama er að segja um bifreiðir sem notaðar eru til skemmtiferða. Skemmtiferðir eru svo teygjanlegt orð, að flestar ferðir mætti með brögðum telja undir þær. Ég legg því áherzlu á það, að þessar brtt. verði felldar, því að þær miða að því að spilla skipulagi, sem gæti komið að miklu gagni, ef vel tekst um framkvæmd á því, en slíkt er auðvitað erfiðleikum bundið.