20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2822 í B-deild Alþingistíðinda. (3964)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég geri ráð fyrir, að flestir, sem lesa Alþt., hugsi sem svo, að þarna geti ekki talað maður með öllum mjalla. Hér er verið að ræða um fólksflutninga á landi, og undrar mig, að nokkur þm. skuli geta fengið af sér að flytja slíkar ræður, sem ekki koma málinu hið minnsta við. Vitanlega dettur mér ekki í hug að virða svona orð svars. Ég vil aðeins taka upp orð hv. þm., ef hann skyldi sjálfur strika þau út úr ræðu sinni. Ég á að hafa tekið mann neðan af bæjarskrifstofum, farið með hann upp á mína skrifstofu, tekið um kverkar hans, ætlað að kyrkja hann og barið höfði hans upp við vegg. (JakM: Ég sagði ekki, að hæstv. ráðh. hefði ætlað að kyrkja manninn). Ég skora á hv. þm. að nefna nafn þessa manns. Minna er ekki hægt að krefjast af honum, er hann ber fram slíkar slúðursögur og lygasögur, því að öðru nafni get ég ekki kallað þetta. Ég get sagt það hér í d., að ég hefi aldrei, síðan ég fór af unglingsárum, síðustu 10 árin a. m. k., tekið á manni að fyrra bragði. Það hefir verið regla mín. Hitt eru tilhæfulausustu ósannindi. Ég hefi ekki notað mér það í íþróttum, þótt ég væri vaskari en sumir aðrir. Ég get játað, að ég hefi e. t. v. stundum verið harðleikinn og óvæginn í íþróttum, en ég hefi ekki síður orðið að sæta því sama, þegar ég hefi átt við menn, sem mér voru stórum knárri.

Ég skora hér með á hv. þm. að koma með nafn þessa manns, sem hann átti við, og skal ég þá samstundis útvega yfirlýsingu hans um, að þetta séu uppspunnin ósannindi, því að ég skil varla, að til sé sá ódrengur hér í bæ, sem hægt væri að fá til að bera hitt.