24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (3987)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Með frv. því, er hér liggur fyrir, er farið fram á heimild til handa bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar til þess að leggja sérstakt vörugjald á vörur, sem fluttar eru til eða frá Akureyri, og að gjöld þessi renni í bæjarsjóð.

Ástæðan til þess, að farið er fram á þetta, er sú, að bæjarstjórn Akureyrar telur ógerlegt að jafna niður í beinum útsvörum því, sem þarf til bæjargjalda. Það, sem einkum veldur þessu, er aukin framlög til atvinnubóta, og það, sem rýrt hefir gjaldþol bæjarmanna, er einkum það, að útgerðin hefir færzt saman á síðustu árum. Og enn má nefna eitt atriði, sem ég nefni þó ekki í þeim tilgangi að vekja deilur, að verzlunin hefir á síðustu árum færzt mjög á ein, hönd, til Kaupfélags Eyfirðinga, sem er orðið mjög voldugt félag, en af gengi þess hefir leitt, að þær verzlanir, sem áður báru mikið af byrðum bæjarins, hafa nú orðið að færa saman kvíarnar að miklum mun. Bæjarstjórn Akureyrar hefir því ekki séð aðra leið færa til þess að ná inn fé, sem þarf til þess að standa straum af gjöldum bæjarins. en þá, sem hér er lagt til að farin verði, og er það að tilhlutun bæjarstj., að þetta frv. er flutt.

Það liggur í hlutarins eðli, að það er ekki farið inn á þessa leið að gamni sínu. Vitanlega hefði bæjarstjórnin helzt kosið að halda sig við þá tekjustofna, sem hún hefir áður haft, en hún hefir ekki séð aðra leið færa en þá, sem hér er farið fram á.

Ég vil aðeins bæta því við, að hér er ekki um tilfinnanleg gjöld að ræða, vegna þess að vörutollur til hafnarinnar á Akureyri er ákaflega lágur. Ég hefi því miður ekki ennþá fengið uppgefið, hvað miklu hann hefir numið á síðustu árum, en með því að fá það er auðvelt að sjá, hverju því gjaldi, sem hér um ræðir, er ætlað að nema.

Ég vil leyfa mér að mælast til þess, að frv. fái að ganga til 2. umr. og til hv. allshn. til athugunar þar, og til leiðbeiningar fyrir n. vil ég geta þess, að í 3. gr. frv. er ákveðið, að lögin öðlist gildi l. jan. 1935. Það hefi ég sett í frv. vegna þess, að ég tel æskilegt, að lögin kæmu til framkvæmda í ársbyrjun. Hinsvegar kann að vera örðugleikum bundið að fá lögin staðfest svo snemma. en það verður væntanlega athugað í n.

Ég þarf svo ekki að hafa fleiri orð um frv. og vil verða við tilmælum hæstv. forseta, að lengja ekki umr., og vænti, að málinu verði vísað til 2. umr. og nefndar.