24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (3992)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Páll Þorbjörnsson:

Þetta vörugjald, sem hér er farið fram á að heimila bæjarstjórn Akureyrar að leggja á vörur samkv. frv., kemur til með að verka þannig, að það kemur mest niður á þungavöru, svo sem matvöru, af því að það er miðað við þunga eða stykkjatal, en miðast ekki við verðmæti. Þetta kemur því mest niður á brýnustu nauðsynjum almennings, en það efast ég um, að Akureyrarbúar hafi gert sér ljóst þegar þeir óskuðu eftir þessu. Þetta vildi ég taka fram, af því að mér er kunnugt um, hvernig áhrif slíkt vörugjald hefir í Vestmannaeyjum.

Ég vil í þessu sambandi taka það fram, út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að veltugjald hefir önnur áhrif en þetta gjald. Það kemur öðruvísi niður en vörugjald, af því að með veltugjaldi leggst á umsetningu verzlana og kemur því misjafnt niður á vöruna eftir verði, og leggst mest á luksusvörur.