24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (3994)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Þetta frv. hefir nú fengið heldur kaldar viðtökur hér í þessari hv. d. Vonandi er, að betur rætist úr en á horfist. Ég vildi drepa á örfá atriði.

Fyrst er þá það, að bæjarstjórn Akureyrar stendur svo að segja öll óskipt um að fá frv. lögfest.

Í öðru lagi vil ég benda á það, að það er fordæmi fyrir þessu. Að vísu hefir verið sagt, að þetta hafi gefizt illa í Vestmannaeyjum, en ég er ekki alveg viss um það, a. m. k. var það meiri hl. bæjarstjórnar, sem stóð að þessu þar, og mun ekki vilja sleppa heimildinni aftur.

Þá vil ég einnig benda á það, að frv. gerir ráð fyrir þessu gjaldi aðeins stuttan tíma sem bráðabirgðalausn þess vandamáls, að afla bænum nægilegra tekna, og er alls ekki hugsað sem framtíðarskipulag. Ég mótmæli því, að með því að samþ. þetta frv. sé því slegið föstu, að þetta muni verða haft svona til frambúðar. Slík fullyrðing hefir ekki við nein rök að styðjast. Það virðist því mæla öll sanngirni með því að fara þessa leið um stundarsakir, að láta þetta vörugjald, eða óbeina hafnargjald, renna í bæjarsjóðinn.

Eins og ég hefi tekið fram, er Akureyrarhöfn einhver allra ódýrasta höfn á landinu með tilliti til upp- og útskipunarkostnaðar. Þó bætt yrði við því vörugjaldi, sem hér um ræðir, verður uppskipunarkostnaður á Akureyri mjög lágur eftir sem áður, og kemst ekki neitt í námunda við samskonar kostnað á mörgum öðrum stöðum á landinu. Á Blönduósi t. d. er uppskipunargjaldið 1.80 kr. fyrir hver 100 kg., og mun það vera þrefalt hærra en á Akureyri að hafnar- og vörugjaldi meðtöldu.

Þetta vil ég taka fram vegna ummæla hv. 2. þm. N.-M., er hann minntist á, að vörugjaldið mundi koma niður á nærliggjandi sveitum.

Að endingu vil ég vænta þess, að menn athugi þetta mál með sanngirni, og ég vona, að n. sannfærist um, að hér er aðeins um bráðabirgðaúrræði að ræða, sem eigi er rétt að leggjast á móti.