24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (3997)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Jónas Guðmundsson:

Ég vil benda á, að þetta mál snertir öll bæjarfélög landsins mikið. Ef þetta frv. verður að lögum, þá eru tveir kaupstaðir, Akureyri og Vestmannaeyjar, búnir að fá tekjustofn, sem aðrir kaupstaðir hafa ekki. Ef þetta verður ekki lagað með því að láta þá hafa svipaða tekjustofna, þá verður að hafa útsvörin miklu hærri í þeim kaupstöðum, en þeim er nærri því öllum stjórnað af jafnaðarmönnum. Ég vil benda á það, að þetta mál og önnur tekjuöflunarfrv. má ekki afgreiða, nema hafa alla kaupstaðina í huga. Það hefir verið minnzt á það af hæstv. fjmrh., að láta rekstrarútsvör koma í stað þessa gjalds. En þau útsvör eru nú í raun og veru orðin aðalútsvörin í bæjunum. Það er ekki hægt að leggja á tekju- og eignarskatt svo háan sem þarf. Þess vegna hafa verið lögð á rekstrarútsvör. En það eru ein fyrirtæki undanþegin þeim, og það eru samvinnufélögin. Samvinnufélögin hafa í þessu efni séraðstöðu samkv. sérstökum lögum. Það er því engin furða, að þetta frv. kemur frá hv. þm. Ak. Þar er sem sé öflugt samvinnufélag, sem hefir náð undir sig miklum hluta verzlunarinnar þar. En þetta félag er undanþegið rekstrarútsvari. Þegar þetta frv. verður afgr., er full átæða til þess að afgreiða það með aðra kaupstaði fyrir augum, sem ekki hafa gert neinar sérstakar kröfur. Það verður að gerast nú eða seinna, að löggjöfin tryggi kaupstöðunum tekjustofna.