03.10.1934
Sameinað þing: 1. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

Minning látinna manna

Á sama fundi, 3. okt., mælti forseti (JBald):

Áður en fundarstörf hefjast, vil ég minnast nokkrum orðum látins manns, Magnúsar Jónssonar prófessors, sem að vísu hafði ekki verið þingmaður, en þó haft náið samstarf við þingið um rúmlega eins árs skeið, með því að hann var fjármálaráðherra í ráðuneyti Sigurðar Eggerz frá 7. marz 1922 til 18. apríl 1923.

Magnús Jónsson fæddist að Úlfljótsvatni í Grafningi 17. júlí 1878, var sonur Jóns Þórðarsonar bónda þar og konu hans, Þórunnar Magnúsdóttur, prests að Sandfelli Jónssonar. Hann útskrifaðist úr lærða skólanum í Reykjavík 1898, lauk lagaprófi í Kaupmannahöfn 1904 og hagfræðiprófi 1907, enda var hann hinn mesti námsmaður. Frá því að hann lauk lagaprófi 1904 dvaldi hann í Kaupmannahöfn í næstu 16 ár og gegndi þar ýmsum störfum, en aðalstarf hans var í fjármálastjórn Kaupmannahafnar. Þar var hann aðstoðarmaður 1904 til 1916, en fulltrúi 1916 til 1920. Jafnframt var hann ritari í skattaráðinu 1908 til 1920, og forstöðumaður dýrtíðar- og matvælaskrifstofu Kaupmannahafnar 1916 til 1920. Hann var annar ritari nefndar þeirrar, sem hingað kom frá Danmörku 1918 til þess að semja um samband Íslands og Danmerkur, og fulltrúi í sendisveit Dana á þjóðabandalagsfundinum í Genf 1920. Sama ár var hann skipaður prófessor í lagadeild Háskóla Íslands og dvaldi síðan hér á landi til æfiloka. Eins og áður er getið var hann hér fjármálaráðherra í rúma 13 mánuði á árunum 1922—1923, en fékk lausn úr ráðuneytinu og tók þá aftur við prófessorsembætti sínu. Vegna heilsubilunar fékk hann lausn frá kennsluskyldu frá 1. jan. 1934, og hafði hann beiðzt lausnar að fullu frá embætti sínu frá næstu áramótum.

Rektor háskólans var hann skólaárið 1925—1926 og samdi þá ritgerð í Árbók háskólans um almannatryggingar.

Hann andaðist á landsspítalanum í gær, 2. okt. Magnús Jónsson var áhugasamur um landbúnaðarmál og rak sjálfur búskap lengst af, jafnhliða embætti sínu, eftir að hann var heim kominn, á eignarjörð sinni Úlfljótsvatni og fleiri jörðum austan fjalls. Hann var glaðvær maður og vinsæll, en naut sín ekki sem skyldi á síðari árum sakir heilsubrests.

Ég vil biðja háttv. þingmenn að votta þessum látna manni virðingu sína með því að standa upp.

[Allir þm. stóðu upp úr sætum sínum.]