30.11.1934
Neðri deild: 49. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (4009)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Finnur Jónsson:

Þessi heimild, sem tveir bæir, Akureyri og Siglufjörður, fara nú fram á að fá og áður hefir verið gefin Vestmannaeyjakaupstað, er með nokkuð sérstökum hætti. Eftir hafnarlögunum má leggja vörugjald á vörur, sem fluttar eru frá eða til hafnarinnar, en því gjaldi ber eingöngu að verja í þágu hafnarinnar sjálfrar. Hér er hinsvegar farið fram á heimild til gjaldaálagningar, sem renna á í bæjarsjóð. Þetta kemur nokkuð undarlega fyrir og stappar nærri því að vera gagnstætt hafnarlögunum, sem í gildi eru. Auk þess er bæjarstjórnum hér gefin nær því ótakmörkuð heimild til þess að leggja á tolla, því að í 1. gr. segir, að leggja megi á „allar vörur, sem fluttar eru til eða frá Akureyri, sérstakt vörugjald, er nemi allt að tvöföldu vörugjaldi til Akureyrarhafnar eins og það nú er eða verður á hverjum tíma“. Heimildin er því nær ótakmörkuð og ekki loku fyrir það skotið, ef þeir eru í meiri hluta bæjarstjórnar, sem illa er við há útsvör, að þessi heimild verði notuð til þess að lækka útsvörin, en þetta óbeina gjald lagt á í þeirra stað. Ég verð að segja, að ég er algerlega á móti frv., sem fer fram á að veita þessum kaupstað sérréttindi í álagningu skatta fram yfir aðra kaupstaði. Það má benda á, að sú stefna er nú uppi að létta tollum af sjávarafurðum, en jafnframt því, sem ríkissjóður gengur inn á að aflétta þessum gjöldum, á að gefa kaupstöðunum heimild til að leggja slíkt vörugjald á, nær því svo hátt sem þeim sýnist. Mér finnst líka óviðkunnanlegt að gefa einum kaupstað slíka heimild nema aðrir kaupstaðir fái hana líka. (JakM: Velkomið!). Hv. þm. segir, að það til sé velkomið. Það er auðvitað í samræmi við stefnu hans flokks, sem vill helzt taka allar tekjur með óbeinum sköttum, eða neyzlusköttum. En ég vona, að meiri hl. þingsins verði á móti þeirri skattamálastefnu og felli frv.