04.12.1934
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (4016)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Guðbrandur Ísberg:

Hv. 1. landsk. fjölyrti mjög um það, að ekki mundu liggja fyrir neinar sannanir eða líkur fyrir því, að þörf væri á því að leggja þetta gjald á, sem hér er farið fram á að samþ. verði. Hann talaði um, að það lægi ekkert fyrir um það, að bæjarstjórn Akureyrar hefði notað sér þá möguleika til þess að hækka útsvör í bænum, sem fyrir hendi væru. Ég vil upplýsa það í þessu sambandi, að það dylst engum, sem til þekkir, að útsvör eru t. d. miklu hærri á Akureyri en í Rvík. Það er erfitt að gefa um þetta beinar upplýsingar, vegna þess, að niðurjöfnunarn. Akureyrar hefir ekki birt reglur sínar fyrir niðurjöfnun útsvara á sama hátt og gert hefir verið í Reykjavík. En ég vil leyfa mér að benda á það, að nauðsynin að afla tekna og möguleikar til tekjuöflunar hafa verið athugaðir af niðurjöfnunarn. Akureyrar og sömuleiðis af bæjarstjórn Akureyrar, og þá sérstaklega hvort möguleikar væru til þess að hækka útsvörin, svo að sú hækkun gæti mætt þeim auknu útgjöldum, sem fyrirsjáanleg eru. Þetta hefir því einmitt verið athugað alveg sérstaklega, bæði af fulltrúa jafnaðarmanna og fulltrúum framsóknarmanna í bæjarstjórn Akureyrar.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. 1. landsk. á því, að með því að vera hér að heimta þá athugun, sem hann er að tala um, þá setur hann sig sem dómara yfir flokksbróður sinn í bæjarstjórn Akureyrar, sem hefir margfalt betri skilyrði til þess að athuga þetta mál og dæma út frá þeirri athugun, og hefir þegar gert það. Ég vil líka benda framsóknarmönnum hér á Alþ. á það, að fulltrúar þeirra í bæjarstjórn Akureyrar hafa tekið þetta allt upp til rannsóknar, og að þeir hafa áreiðanlega miklu betri skilyrði til þess að glöggva sig á þessu máli heldur en þeir, sem hér sitja og lítið þekkja til á Akureyri, og þeir gera sig einnig að dómurum yfir þessum mönnum, þar á meðal yfir Vilhjálmi Þór, sem er talinn einn hinna skýrustu manna, er í bæjarstjórn Akureyrar eiga sæti, og eru þar þó margir ágætir menn. Hann leggur ákveðið til, að þessi leið verði farin, vegna þess, að hann telur ógerlegt að hækka útsvörin til nokkurra muna, og sem fulltrúi nærliggjandi sveita telur hann fullkomlega forsvaranlegt að fara þá leið, sem hér er lagt til að farin verði til tekjuöflunar.

Viðvíkjandi því, hvað það sé ósanngjarnt, óeðlilegt og tilfinnanlegt að leggja þetta gjald á, þá vil ég segja það, að Akureyri er fyrir ýmsra hluta sakir einhver ódýrasti verzlunarbær á öllu landinu. Það gerir mest hin ágæta, ódýra höfn, sem þar er. Hafnarmannvirkin, sem þar eru notuð, eru miklu ódýrari en samskonar mannvirki í nokkrum hinna kaupstaðanna. Þau hafa verið byggð smátt og smátt. Aldrei lagt mjög mikið fé fram til þeirra í einu, en verið borin uppi af mikilli verzlun og því auðvelt að láta höfnina bera sig með lágum gjöldum. Af þessum ástæðum þolir verzlunin á Akureyri, alveg án þess að finna nokkurn skapaðan hlut til þess, sem um munar, að þetta litla viðbótargjald sé lagt á. Öll hafnargjöld Akureyrar eru svo lág, að þó að örfáir aurar á hver 100 kg. bætist við, þá er það alveg hverfandi lítið, og það er blátt áfram hlægilegt að vera að tala um, að gengið sé á hagsmuni nærliggjandi sveita með lítilfjörlegri aukningu á þessu gjaldi. Þó að hér geti verið um nokkra upphæð að ræða — það er gert ráð fyrir, að vörugjaldið nemi 50 þús. kr. —, þá verður maður að taka tillit til þess, að hér er um svo stórt verzlunarsvæði að ræða. Á Akureyri eru ca. 4500 íbúar, og þar við bætist öll Eyjafjarðarsýsla og nokkur hluti Þingeyjarsýslu. Þar að auki er nokkuð mikið af vörum, sem ganga gegnum Akureyri og eru seldar þaðan út um landið. Þess vegna fæ ég ekki séð, að verzlunin geti ekki borið þessa fáu aura, og a. m. k. ef mönnum þykir sér ofboðið með þessu, þá geta þeir fengið vörurnar beint annarsstaðar frá. En Akureyringar eru ekkert hræddir um, að þessi ráðstöfun muni leiða til þess, og hafa þess vegna alls ekki tekið slíkt með í reikninginn.

Ég vil aðeins bæta því við, viðvíkjandi framkominni brtt. við frv. til hafnarl. fyrir Siglufjarðarkaupstað, að ég er út af fyrir sig ekkert á móti því, að eitthvað svipað yrði samþ. fyrir Siglufjörð eins og hér er farið fram á fyrir Aureyri. Mér er þó ljóst, að þar er farið fram á hlutfallslega miklu hærra hundraðsgjald. Hitt er annað mál, sem hreyft hefir verið í því sambandi að því er snertir síldarbræðsluverksmiðjur ríkisins, að þær, að þeim till. óbreyttum, sem komið hafa fram, mundu falla undir gjaldið, þannig, að þær yrðu að borga tugi þús. til Siglufjarðar, — þá hefir frá byrjun aldrei verið til þess ætlazt, að síldarbræðsluverksmiðjurnar yrðu bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar að féþúfu, beinlínis með því að reyta af þeim gjöld. Það verður að teljast nægjanlegt, að ríkissjóður hefir lagt fram millj. kr. til að auka atvinnu í bænum, með byggingu síldarbræðsluverksmiðju, þó þessu sé ekki bætt ofan á. Virðist mér því full ástæða til að girða fyrir það, að Siglufj. nái til síldarverksmiðjanna að því er vörugjaldið snertir.

Að endingu vil ég svo segja það, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er borið fram sem bráðabirgðalausn á brýnni þörf bæjarsjóðs Akureyrar til tekjuöflunar og að mjög vel athuguðu máli.

Allir flokkar, sem eiga sæti í bæjarstj., alveg án tillits til pólitískra skoðana, hafa lagt til, að sú tekjuöflunarleið yrði farin, sem frv. gerir ráð fyrir. Og ég treysti því, að hv. þm. líti á þessa nauðsyn Akureyrar, þessa bráðabirgðanauðsyn, á meðan ekki er ráðið fram úr þessum vandamálum sveitar- og bæjarfélaga almennt með l., sem sé, að auka möguleika þeirra til tekjuöflunar. Ég legg áherzlu á það, að þangað til slík löggjöf kemur, eru einhver slík úrræði alveg nauðsynleg. Og eins og hv. 3. þm. Reykv. tók fram, þá er það alveg óforsvaranlegt, þegar bæjarfélag kemur til Alþingis og krefst slíkra ráðstafana, sem hér um ræðir, að daufheyrast við slíkri beiðni, á meðan Alþ. hefir ekki gert skyldu sína í því efni að ráða fram úr þeirri almennu þörf, sem fyrir liggur, um að auka tekjumöguleika bæjanna.