20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (4020)

152. mál, trjáplöntur

Flm. (Jón Pálmason):

Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta, að verða stuttorður, enda er það þægilegt, því að hér er um lítið mál að ræða og einfalt.

Frv. þetta fer fram á, að þær trjáplöntur, sem fluttar eru til landsins, séu fluttar inn þannig, að ríkisstjórnin feli skógrækt ríkisins að hafa fullt eftirlit með innkaupi og sölu og afhendingu þeirra. Frv. fer og fram á, að ríkisstj. feli einnig skógrækt ríkisins að hafa eftirlit með innflutningi á trjáfræi.

Í sjálfu sér er hér að ræða um lítið mál frá sjónarmiði verzlunar eða fjárhags, því að hér er um vöru að ræða, sem er verðlítil og tiltölulega lítill innflutningur er af. En þýðing þessa frv. liggur á öðru sviði. Frv. er komið fram af því, að á undanförnum árum hefir það sýnt sig, að flutt hefir verið inn nokkuð af trjáplöntum, sem ekki eru líkur til, að þrifizt geti hér á landi, og aðrar trjáplöntur, sem tæplega eru líkur til að þrífist hér. Svona mistök hljóta að skapa ótrú á þeirri umbótastarfsemi, sem trjáræktin í landinu er. Það hefir líka dálítið komið í ljós, að með innflutningi slíkra plantna hafa sjúkdómar borizt hingað, sem gætu gert tjón, ef þeir yrðu í stórum stíl. Því verður ekki neitað, að meðferð skógræktarmálsins af hálfu hins opinbera hér á landi að undanförnu hefir ekki verið í því lagi sem skyldi. En nú mun vera hafinn allmikill undirbúningur undir það að koma þessu í betra horf heldur en verið hefir, og þetta skipulag, sem hér er stungið upp á, á ekki að vera annað en bráðabirgðaskipulag, því að vitanlega á að stefna að því, að þær tilraunastöðvar og skógræktarstöðvar, sem hér á landi eru reknar, hafi allar þær trjáplöntur, sem þróazt geta hér á landi, á boðstólum. En á meðan þetta er ekki, þá þykir okkur flm. frv. rétt að beina málinu inn á þessa braut, sérstaklega með tilliti til þess, að skógræktarstjóri hefir tækifæri samkv. frv. til þess að hafa glöggt eftirlit með því, að þær trjáplöntur séu fluttar inn, sem mestar líkur eru til, að geti þrifizt hér á landi.

Í grg. frv. er vikið að því, að af innflutningsskýrslum verði ekki séð, hve mikið hefir verið flutt inn af trjáplöntum á síðustu árum, vegna þess að allar lifandi plöntur eru þar taldar í einum lið. En síðan grg. var samin hefi ég fengið þær upplýsingar, að aðrar lifandi plöntur en trjáplöntur hafi að verðgildi verið meiri hl. af þessum innflutningi á síðustu árum.

Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni. En ég óska, að málinu verði vísað til annarar umr., og af því að það er fyrst og fremst ræktunarmál, óska ég, að því verði vísað til landbúnaðarnefndar.