02.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (4046)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Garðar Þorsteinsson:

Aðeins nokkur orð viðvíkjandi því, sem hv. frsm. sagði um það, sem ég tók fram við 1. umr. Ég gat þess þá, að óviðfelldið væri, ef rétt reyndist, að samvinnufélög, sem fengið hefðu úr ríkissjóði miklar upphæðir til greiðslu stofnkostnaðar frystihúsa, notuðu þennan styrk, sem þeim er veittur umfram aðra frystihúsarekendur, til þess að auðgast á frystri beitusíld.

Ég vil nota tækifærið til að reka ofan í ritstjóra nýja dagblaðsins, hv. þm. N.-Þ., það, sem hann sagði, sem sé, að ég væri að fjandskapast við kaupfélögin. Ég get ekki séð, að það sýni nokkurn fjandskap, þótt Alþingi ræði um það af sanngirni, hvernig kaupfélögin verji þeim tugum þúsunda, er þau fá í styrk úr ríkissjóði. Það er því ekki rétt, sem hv. þm. sagði utan þings, að ég hefði sýnt kaupfélögunum fjandskap, þó að ég minntist á þetta.

Þá vil ég geta þess, að ég er ekki viss um, að hv. frsm. hafi farið rétt með þær tölur, er gilda um frysta síld. Hann kvað frystihúsið í Ólafsfirði taka 22 aura fyrir hvert kg. Ég skal ekkert um þetta fullyrða. Í Ólafsfirði munu allir útvegsmenn vera saman um frystihús. Ég veit nú, að frystingin kostar ekki meira en 4 aura á kg., en geymslukostnaður er 1 eyrir fyrir hvert kg. á mánuði. Ef þessar tölur eru réttar, held ég, að það séu sæmileg kjör, ef kaupfélög þau, sem hv. frsm. minntist á, taka síldin, á 5 aura kg. og selja hana síðan á 25 aura. Veit ég ekki, hvað sagt yrði um einstakling, sem ávaxtaði svo vel sitt pund. Og þetta er víst ekki eins dæmi um kaupfélögin.

Frystihús eru dýr í rekstri, en það veldur því, að samkeppni sú hlýtur að verða lítil, sem annars gæti ef til vill leitt til lægra verðlags. Fer ég ef til vill síðar nánar inn á þetta í sambandi við annað mál.

Mér finnst ekki óeðlilegt, að Alþingi vilji hafa íhlutunarrétt um þau frystihús, sem fengið hafa hjá því 1/4 hluta stofnkostnaðar, upphæð, sem skiptir hundruðum þúsunda kr. Er ekki undarlegt, þótt ríkissjóður vilji hlúa að því, að útgerðarmenn, sem þurfa að láta frysta síld, njóti þessa að einhverju.