02.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (4047)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Gísli Guðmundsson:

Ég þarf ekki margt að segja, en vil aðeins láta í ljós vonbrigði mín yfir því, að hv. þm. Snæf. hefir skilið lögfræðina eftir heima. Reyndar efast ég ekki um, að hann sem lögfræðingur hljóti að vita, að það er ég, sem rétt hefi fyrir mér, en ekki hann. Myndi hann viðurkenna þetta, ef hann talaði við mig einslega.

Þá var hv. 8. landsk. að hnýta í mig, og verð ég að kalla það nokkuð mikla viðkvæmni hjá honum að geta ekki stillt sig um að geta þess hér á þingi, sem ég sagði um hann í blöðunum. En þó að þau orð hafi verið höfð um þennan hv. þm., að hann hafi sýnt kaupfélögunum fjandskap, þá get ég ekki fallizt á, að það sé ofmælt, og ætla ég hér með að endurtaka þau ummæli á Alþingi. Get ég ekki kallað það annað en fjandskap í garð kaupfélaganna, þegar hv. þm. er með dylgjur um, að þau okri á vörum sínum og opinberum styrk, eins og hann gerði við 1. umr. Því berari er þessi fjandskapur sem hann getur ekki bent á tölur, máli sínu til sönnunar, því að tölur þær, sem hann var með áðan, voru út í loftið. Hv. frsm. landbn. skýrði málið nú fyrir skömmu.

Hv. 8. landsk. bar sakir á samvinnufélögin, sagði, að þau okruðu á frystri síld, án þess að geta nefnt tölur eða gert grein fyrir, hver kostnaður væri við frystingu síldar, og ekki heldur um verð síldar í innkaupi til frystingar. Hv. form. landbn. hefir bent á, að útsöluverð K. E. A. á frystri síld er mjög lágt eftir því sem tíðkast hér í Rvík. Skal ég svo ekki taka lengri tíma að sinni.