02.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (4049)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Garðar Þorateinsson:

Mér þykir vænt um, að hv. þm. N.-Þ. skuli vilja standa við orð sín innan þings, eða þau ummæli, sem hann hefir viðhaft um mig utan þings í blaði því, sem hann nefnist ritstjóri við. Ég hélt, að það væri fátt af því, sem hann segði og þyrði að standa við, nema svo sé, að hann sé öruggur um að verða ekki látinn bera ábyrgð orða sinna. Hann sagði, að ég hefði orðið ber að fjandskap við samvinnufélögin. Ég játa að, að ég hefi aldrei skilið þá menn, sem stunda að samvinnufélagsskapnum og þora hvorki né þola að heyra sannleikann um sína stofnun. Ég fæ ekki skilið þessa menn, sem bera utan á sér helgislepju samvinnustefnunnar, og þola helzt ekki að neinn líti í áttina til Sambandshússins án þess að taka ofan. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að það sé almenningi fyrir beztu að þegja um það, sem miður fer, og tel ókarlmannlegt og ódrengilegt að þola ekki gagnrýni á gerðir stofnunarinnar. Ég tel hugmyndina um samvinnu vera til heilla, en svo bezt, að félagsskapurinn þoli og þori að standa reikningsskap af gerðum sínum.

Ég sagði, að þau félög, sem kaupa síld fyrir 5 aura kr. og seldu eftir nokkra daga fyrir 25 aura, þau okruðu. Ég fæ ekki séð, að þessi félagsskapur frekar en aðrar verzlanir eigi að taka margfalt verð fyrir vöruna eða megi okra þannig. — Hv. þm. N.-Þ. sagði, að ég hefði talað út í loftið og slegið þessu fram án þess að nefna tölur. Ég hefi ekki hingað til í umr. nefnt nema tvær tölur: keypta síld fyrir 5 aur. pr. kg. og selda fyrir 25 aur. Það vill nú svo vel til, að hv. frsm., form. landbn., hefir staðfest, að þessi ummæli eru rétt, að ákveðið kaupfélag hefði gert þetta. Hv. frsm. landbn., flokksbróðir þessa hv. þm., hefir því staðfest, að þessar tölur voru ekki út í loftið. Hvaða aðrar tölur hefi ég nefnt?

Ég sagði, að kaupfélögin hefðu fengið í ríkisstyrk fleiri tugi þúsunda króna, og skal ég þá nefna nokkur dæmi:

Verzl.fél. Hrútfirðinga hefir fengið í

styrk ............

kr.

18179,80

Kaupfél. Svalbarðseyrar.

—

15736,46

— V.-Húnv.

—

26678,95

— Þingeyinga

—

43642,22

— Stykkishólms

—

21104,65

— Eyfirðinga

—

50481,10

— Héraðsbúa

—

23310,65

— N.-Þing.

—

26842,50

— Vopnafirð.

—

15477,65

— Skagf.

—

30058,28

Sláturfél. A.-Húnv.

—

30625,20

— Skagf.

—

115260,20

— Suðurlands.

—

56711,40

Ég þykist því ekki hafa farið með fleipur, að kaupfélögin hafi fengið hundruð þús. kr. styrk til þessarar starfsemi. Ég er ekki að segja, að þetta sé of mikið. Það eina, sem ég hefi sagt, er, að úr því ríkið hefir greitt þennan styrk, á þingið íhlutunarrétt um, að þessi félög okri ekki á smáútvegsmönnum með frysta síld. En það kalla ég okur að kaupa síld á 5 aura kg., en selja hana aftur á 25 aura. (PZ: En hvað þá ef hún er seld á 40 aura?). Það er auðvitað ennþá meira okur. Ég sagði heldur ekki, að þetta væri eins dæmi, eða kaupfél. væru verri en aðrir. Ég benti aðeins á, að þau eiga að vera betri, vegna þess styrks, er þau hafa notið.

Ég veit, að enginn maður getur láð Alþingi, þó það vilji hlynna að smáútveginum, með því að láta hann njóta þeirra hlunninda að einhverju, sem ríkið hefir veitt kaupfélögunum í þessu skyni. Ég geri líka ráð fyrir, að smáútvegsmennirnir hafi greitt sinn hluta af þessum ríkisstyrk með gjöldum sínum í ríkissjóð, eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins.

Bæði hv. þm. V.-Húnv. og hv. þm. N.-Þ. hafa farið rangt með, hver kostnaður væri við frystingu síldar. Ég var svo heppinn að hitta mann frá Ólafsfirði, sem er staddur hér í þinginu og hefir einhverja meðgerð með frystihúsið í Ólafsfirði. Hann skýrði mér frá því, að þeir hefðu fryst síld fyrir Þorstein Jónsson, Dalvík, fyrir 5 aura pr. kg. Hann upplýsti mig ennfremur um það, að Ásgeir Pétursson, sem engan styrk hefir fengið, frystir síld fyrir 15—16 aura pr. kg. og geymir hana. (HannJ: Hvaða kostnaður er það?). Sá, að frysta síldina og afhenda úr pönnu og geyma hana. Ég þykist því hafa sannað, að ég hafi ekki farið með neinar tölur út í loftið. En það er hv. þm. N.-Þ., sem fálmar út í loftið. Hann heldur, að unnt sé að breyta lögum með dagskrártillögu. (HannJ: Hvað kostar þá að geyma síldina?). Kunnugir menn hafa sagt mér, að það kosti 1 eyri pr. mán. Og það eru menn, sem vita eins vel um þetta og hv. þm. V.-Húnv., og miklu meira en hv. þm. N.-Þ., sem segir, að menn vilji læða inn tortryggni gegn félagsskapnum, ef menn vilja ekki koma fleðulega fram eða breyta eins og þessir hræsnarar, sem ekki þora að heyra sannleikann og kalla það fjandskap að benda á það, sem miður fer. Mér er alveg sama, þó hann tyggi það í Nýja dagbl. daglega, að ég sé fjandsamlegur samvinnufélögunum; hann getur aldrei hrakið það, sem ég sagði. Og tölurnar, sem ég las upp áðan, hefi ég fengið úr fjármálaráðuneytinu. Ég hefi sannað ummæli mín, að síldin er tekin til frystingar fyrir 5 aura kg. á Ólafsfirði og Ásgeir Pétursson frystir og geymir síld fyrir 15 aur. kg. Ég hefi því fært óyggjandi sannanir fyrir mínum tölum, og hefi betri rök en þeir, sem tala um fjandskap minn við samvinnufélögin.