02.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (4050)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Hv. 8. landsk. hefir lesið upp lista yfir styrk þann, sem samvinnufélögin hafa fengið úr ríkissjóði til frystihúsabygginga. Ég sé nú ekki, hvað þetta kemur málinu við. (GÞ: Má ég grípa fram í? Þm. N.-Þ. hélt því fram, að ég hefði farið með tölur út í loftið, og ég vildi sanna, að svo væri ekki). En það, sem er aðalatriðið í þessu máli, er, hvort kaupfélögin hafa notað þá aðstöðu, sem þau hafa haft, til að okra á meðbræðrum sínum í þjóðfélaginu. Og að gefa það í skyn er að segja vitandi eða óvitandi ósatt, svo maður ekki segi, að það sé hreinn fjandskapur, sem felst á bak við. Hv. 8. landk. heldur því fram, að það sé okur að kaupa síld á 5 au. og selja aftur á 25 aura. En það vill nú svo einkennilega til, að kaupfélögin hafa fengið orð fyrir það hjá hinum frystihúsunum, að þau noti styrkinn til að undirbjóða aðra. Hefir þessi orðrómur gengið svo langt, að komið hefir fram í grein, sem birtist í tímariti Fiskifélagsins, „Ægi“. Þetta fer dálítið í bága við það, sem hv. 8. landsk. hélt fram. Sannleikurinn er sá, að síðan kaupfélögin fóru að fást við að frysta síld, hefir síldarverðið lækkað. Og sennilega hefir Ásgeir Pétursson ekki selt frystinguna dýrari en l5 au. vegna þess, að Kaupfél. Eyf. selur eins lágt og unnt er. Ég er líka sannfærður um, að það er betra að taka síld til frystingar fyrir 15—16 au. kg., eins og Ásgeir Pétursson, heldur en að kaupa hana, frysta og reyna, og bera þannig alla áhættuna. Ég er viss um, að það er betra að fá fyrir frystinguna 15 au. heldur en geyma síld og selja fyrir 25 au. Þegar Ólafsfirðingar koma sér upp frystihúsi og selja sjálfum sér fyrir 25 aura, þá dettur engum í hug, að þeir okri á sjálfum sér.

Ef það er okur að selja síldina á 25 aura, hvað má þá segja um 40 aura verðið? Þá má segja, að okrið sé gífurlegt hér við Faxaflóa. Sannast að segja er útkoma frystihúsanna ekkert glæsileg, og þeir, sem reka þau, berjast flestir í bökkum og eru ekki of vel haldnir. Það getur því ekki verið satt, að kostnaðurinn við frystinguna sé ekki nema 4 aurar pr. kg., enda hefir hv. þm. V.-Húnv. borið þetta ofan í hv. 8. landsk., og hann er kunnugur þessu, því hann hefir fengizt við stjórn frystihúss.

Ég held því, að allt tal um okur kaupfélaganna sé hjal út í bláinn, og stafar annaðhvort af þekkingarleysi eða óvild til samvinnufélaganna. Ef hv. 8. landsk. vill véfengja þær tölur, sem ég hefi farið með, og efast um réttar heimildir, get ég sagt hvaðan þær eru. Tölur þær, sem ég nefndi að norðan, hefi ég frá Vilhjálmi Þór, og ég ætla að halda því fram og trúa því, að þær séu réttar. En tölur þær, sem ég nefndi um verðið hér við Faxaflóa, hefi ég frá Óskari Halldórssyni útgerðarmanni, og ég ætla að halda því fram, að þær séu réttar, þar til annað er sannað af hv. 8. landsk. eða einhverjum öðrum.