02.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (4052)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Thor Thors:

Ég skal vera mjög stuttorður. En mér þykir leiðinlegt, hvað hv. þm. N.-Þ. á bágt með að skilja lög eða gildi laga. Hann virðist gersneyddur allri þekkingu um, hvert gildi laga er. Hann heldur því fram, að lögin breytist, ef samþ. er rökst. dagskrártill. Og hann ber fram frv., sem bæði ég og hv. landbn. virðist sammála um, að sé nú í lögum. Hann segir svo grg. sinni fyrir frv.:

„En í lögunum er eingöngu heimilað að greiða styrkinn til frystihúsa, sem lán höfðu verið tekin til áður en lögin gengu í gildi. Þetta er bersýnilega ranglátt. Þau héruð, sem nú á næstunni myndu vilja koma sér upp frystihúsum, hljóta að gera kröfu um sömu aðstoð frá ríkinu og áður hefir verið veitt. Væri það hróplegt ranglæti, ef slík héruð ættu að gjalda þess, að þau hafa sætt sig við saltkjötsmarkaðinn.“

Ég get fyllilega viðurkennt, að þetta væri hróplegt ranglæti, en ég held því fram, að það sé ákveðið í lögum, að þau njóti sömu réttinda. En hann heldur fram því gagnstæða og vill nú álíta, að rökst. dagskrártill. frá annari d. þingsins breyti gildandi lögum. En þeir, sem dæma eftir lögunum, geta vissulega ekki farið eftir því, hvað Nd. Alþ. eða einstakir þm. segja með dagskrártill. Þeir verða að dæma eftir lögunum sjálfum eins og þau eru. Hv. þm. getur því ekki greitt atkv. með rökst. dagskránni, nema játa að frv. hafi verið byggt á röngum skilningi. Ef hann gerir það, skal ég játa, að hann er farinn að öðlast örlítinn skilning á lögum. Hann hélt því fram, að ég hefði skilið lögfræðinginn eftir heima. Ég hygg, að þm. geti séð af þessu, að svo er ekki. Hinsvegar hefir þessi hv. þm. ekki skilið lögfræðinginn eftir heima, af þeirri einföldu ástæðu, að hann hefir engan að geyma.