11.10.1934
Neðri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (4078)

50. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Flm. (Hannes Jónsson):

Með lögum nr. 79 19. júní 1933 var stjórn Búnaðarbanka Íslands heimilað að veita greiðslufrest á afborgunum af lánum úr Ræktunarsjóði, Byggingar- og landsnámssjóði og veðdeild bankans um allt að 5 ára tímabil í hverri stofnun. Á sama hátt var stjórn Landsbanka Íslands heimilað að veita greiðslufrest í 3 ár á afborgunum af landbúnaðarlánum úr veðdeild bankans.

Jafnframt þessari heimild til bankanna um frest á greiðslu afborgana, var ríkisstjórninni heimilað að greiða úr ríkissjóði allt að 1½% af vöxtum fasteignalána þeirra manna, er landbúnað stunda sem aðalatvinnuveg, á gjalddaga lánanna árin 1933 og l934, en þó ekki meira en svo að lántakandi greiddi sjálfur 4½% á ári.

Með yfirfærslu á skuldum bænda í Kreppulánasjóð er létt af þeim að verulegum hluta vaxtaþunganum, sem á þeim hvíldi, af þeim skuldum, sem ekki voru veðtryggðar. Vaxtakjör Kreppulánasjóðs eru 4%, og má því segja, að vaxtakjör þeirra bænda, sem hafa getað fært skuldir sínar í Kreppulánasjóð, séu nú komin í viðunandi horf. En þær veðskuldir, sem ekki var hægt að yfirfæra í Kreppulánasjóð, hvíla enn með óeðlilegum þunga á bændum vegna óhagstæðra vaxtakjara.

Við flm. þessa frv. leggjum því til, að ákvæði gildandi laga um framlög ríkissjóðs til vaxtahækkunar á veðskuldum bænda verði ekki látin falla niður á þessu ári, heldur framlengd um óákveðinn tíma, með nokkrum breytingum, sem ég skal nú koma að.

1. Af venjulegum fasteignalánum leggjum við til, að vaxtatillagið verði allt að 2% í stað 1½%, sem gildandi lög ákveða, þó aldrei meira en svo, að lántakendur greiði 4%. Vextir af þessum lánum munu vera allt að 6% og greiðslufrestur þeirra, flestra, skemmri en hliðstæðra lána í Kreppulánasjóði. Lánskjör þessara manna eru því til muna verri en þeirra, sem höfðu óveðbundnar, eða lítt veðbundnar, fasteignir að láta til tryggingar lánum úr Kreppulánasjóði. Hér er því aðeins um að ræða að samræma stuðning hins opinbera gagnvart þessum mönnum.

2. Af lánum frá Byggingar- og landnámssjóði leggjum við til, að vaxtatillagið verði allt að 1%, þó þannig, að lántakendur greiði af lánum til endurbygginga íbúðarhúsa 3% og 2% af lánum til nýbýla. Þrátt fyrir það, þó lán þessi hafi verið með tiltölulegu vægum vaxtakjörum, þá hafa þau orðið mörgum erfið í eftirdragi, sérstaklega fyrir það, að ekki var gætt nægilega hófs í stærð húsanna, og urðu því lánin hærri en menn þoldu. Það hefir og ætíð verið viðurkennt, að lán þessi þyrftu að vera með lægri vöxtum en önnur lán bænda. Af þessum ástæðum berum við fram þetta nýmæli og teljum það nauðsynlegt til samræmis við aðrar tillögur okkar. Ég skal taka það strax fram, til leiðbeiningar fyrir þá nefnd, sem væntanlega fær málið til meðferðar, að við flm. erum fúsir til að ganga talsvert lengra í vaxtalækkun nýbýlalána en hér er lagt til. Væri jafnvel álitamál, hvort nokkra vexti ætti að greiða af þeim lánum, enda mun ekki hafa verið til þess ætlazt í upphafi, því byrjað var með því að veita vaxtalaus nýbýlalán og til þess varið 70 þús. kr. Síðan hafa nýbýlalán verið veitt að upphæð samtals kr. 175 þús., og þó að þau 2%, sem við flm. gerum ráð fyrir, að lántakendur greiði í vexti, yrðu felld niður, mundi það ekki auka vaxtabyrði ríkissjóðs vegna þessara ráðstafana um meira en k r. 3300.110.

Árleg útgjöld ríkissjóðs vegna ákvæða frv. þessa, ef að lögum verða, munu nema 50—60 þús. kr. fram yfir það, sem núgildandi lög heimila, en það varð á árinu 1933 rúml. 100 þús. kr.

Að lokum vil ég taka það fram, að frv. þetta er flutt sem bráðabirgðaráðstöfun, enda þótt ekkert tímatakmark sé sett. Við flm. lítum svo á, að ekki verði hjá því komizt að vinda bráðan bug að því að endurskoða og færa í hagkvæmara skipulag lánakjör landbúnaðarins. — Alstaðar hjá öðrum þjóðum, þar sem ég hefi til spurt, er lögð áherzla á það, að lán landbúnaðarins séu með sem vægustum vaxtakjörum. Bæði vegna þess, að undantekningarlítið eru þessi lán mjög vel tryggð og tryggari en flest önnur lán, og þar að auki er það þjóðhagsleg nauðsyn að tryggja sem bezt þennan atvinnuveg, svo jafnvægi haldist milli sveita og kaupstaða.

Ég er reiðubúinn til samvinnu við alla góða menn um frekari lagfæringu á þessum málum en hér er farið fram á. Legg ég svo til, að frv. verði vísað til landbn. að lokinni þessari umr. og vænti skjótrar og góðrar afgreiðslu frá hennar hendi.