11.10.1934
Neðri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (4079)

50. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hygg, að flestum sé ljóst, að að því beri að stefna, að ekki þurfi að greiða úr ríkissjóði vaxtamismun á almennum lánum, hvorki til landbúnaðarins né til annara atvinnuvega. Hitt er annað mál, að það getur vitanlega komið til mála, og hefir verið tíðkað, að styrkja vissar framkvæmdir, eins og t. d. byggingar, með framlagi úr ríkissjóði, sem komi fram m. a. í vægari vaxtakjörum. Nú er áreiðanlegt, að l., sem nú gilda um greiðslu á nokkrum hluta vaxta af fasteignalánum bænda, eru hugsuð sem bráðabirgðaráðstöfun, þannig að mismunur skyldi greiddur 1933 og 1934. Er það miðað við það tímabil, þegar verið var að koma kreppumálum landbúnaðarins í horf. Nú er, eins og menn sjá í stjfrv., ekki gert ráð fyrir neinum útgjöldum til að greiða vaxtamismun af slíkum lánum, með tilliti til þess, að stj. lítur svo á, að þetta mál verði að leysa sem fyrst til frambúðar, og sú lausn komi í framkvæmd á næsta ári. Að tilhlutun stj. hefir þetta mál verið athugað, og vonandi koma till. úr hv. landbn. frá þeim, sem hafa málið með höndum fyrir stj.

Ég vil benda á það, að það eru náttúrlega margháttaðir örðugleikar í vegi þess, að hægt sé að ná hæfilegum vaxtakjörum á almennum lánum. — og fyrst og fremst fólgnir í því, að við störfum hér á landi með svo miklu af erlendu lánsfé með háum vöxtum. Búnaðarbankinn starfar með 6% fé að verulegu leyti. Lánardrottnar eru erlendir, sem ekki er auðvelt að fá til að breyta lánakjörum sínum, bráðlega að minnsta kosti. Það eru því allmiklir örðugleikar á því að færa vextina niður. Ef við störfuðum að mestu leyti með okkar eigin fé, þyrftum við ekki annað en skipa til um útláns- og innlánsvexti svo sem hæfilegt væri. En það er ekki því að heilsa, og þess vegna verða vextirnir hærri en við óskum.

En ég er ekkert á móti því, að þessu frv. sé vísað til landbn. til athugunar, og vildi þó taka fram, að stj. hefir hugsað sér, að hjá slíkri ráðstöfun yrði ekki komizt, en að hún gæti komið bráðlega til framkvæmda á þann hátt, sem ég áður benti á. Hvort stj. getur náð því marki með sínum till., sem hv. þm. V.-Húnv. gerir sig ánægðan með, skal ég ekki segja. En það er ekki nema eðlilegt fyrirbrigði, að þeir, sem eru í minni hlutanum, geri sig óánægða með það, sem meiri hlutinn gerir. — eðlileg afleiðing af því fyrirkomulagi, sem við eigum að búa við í stjórnmálunum. Ég geri ráð fyrir, að hvað sem við gerðum í þessu máli, sem nú sitjum við völd, yrði hv. þm. V.-Húnv. ekki ánægður.

En ég vil ekki láta hjá líða að benda á að stj. hefir veitt þessu sérstaka athygli, eins og líka kemur fram í samningunum við stjórnarmyndunina, sem gerðir voru opinberlega.