10.11.1934
Neðri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (4086)

50. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Hannes Jónsson:

Ég vil einungis leyfa mér að spyrja hæstv. forseta, hvort þetta séu gildar ástæður fyrir því, að n. haldi málinu hjá sér. Það er hægt að halda áfram að bera því við þingtímann út, að n. sé að hugsa um eitthvað annað og meira heldur en í frv. felst. Vona ég, að hæstv. forseti reki eftir afgreiðslu málsins, ef hann telur n. ekki hafa rétt til að sitja á því allan þingtímann.

Fjárlögin eiga nú að koma til umr. eftir fáa daga; virðast litlar líkur til, að þetta mál eigi að fá að koma fyrir áður, og sjá þá allir, hvernig fara mun um það, jafnvel þó það komi í einhverjum betri búningi, að áliti hv. form. n., heldur en frv. er nú í.