04.12.1934
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (4093)

50. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Nefnd þeirri, sem um þetta mál hefir fjallað, hefir verið fundið það til foráttu, að hún hafi legið nokkuð lengi á afgreiðslu þess. Ástæðan fyrir því, að þetta mál hefir ekki fengið fyrr afgreiðslu frá n., var sú, að um svipað leyti og þetta frv. barst til n. barst henni einnig annað frv. sem fjallaði um sömu mál og frv. það, sem n. hefir haft til meðferðar og athugunar síðan og gert nokkrar breyt. á frá því sem áður var, og reynt að komst að samkomulagi um þetta mál og um leið reynt að fá vissu fyrir því, að þessu máli væri tryggður framgangur hér á þingi. Á meðan ekki er hægt að fá örugga vissu fyrir því, að afstaða manna. sérstaklega hv. nm., til þessa máls tryggi því framgang, fannst okkur ekki hægt að afgreiða hitt málið, því að mál hv. þm. V.-Húnv. er, eins og hv. þdm. er kunnugt um, að nokkru leyti innifalið í máli því, sem n. ber fram.

Eins og tekið er fram í nál., hefir n. aðallega haft það að athuga við þetta, að til þess að samþ. það, þurfi fyrst og fremst að sjá ríkissjóði fyrir allmiklum tekjum, til þess að standa straum af þeim gjöldum, sem frv. hefir í för með sér.

Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja þessu viðvíkjandi, má gera ráð fyrir, að þetta hafi í för með sér um 300 þús. kr. árleg útgjöld fyrir ríkissjóð, ef heimildin er notuð út í yztu æsar.

Eins og hv. þm. veit, er erfitt að koma fjárl. þannig fyrir, að hægt verði að sýna fram á, að þau standi undir þeim útgjöldum, sem frv. gerir ráð fyrir. En á meðan ekki er séð fyrir sérstökum tekjum móti þessum stóra lið, óttaðist n., að jafnvel þótt þessi heimild yrði samþ., þá kæmi að því, þegar ætti að framkvæma þetta, að hæstv. ríkisstj. gæti ekki komið þessu í framkvæmd, svo að lögin yrðu aðeins á pappírnum. Hinsvegar viðurkennir öll n., að mikil þörf sé á því að létta fasteignaveðsvextina. Þegar lögin um Kreppulánasjóð voru afgr., urðu þessir vextir útundan. Kreppulánasjóðslögin náðu aðeins til lausaskulda, sem nú eru komnar í fast horf með 4%. En fasteignaveðslánin hvíla enn á bændum og sum þeirra með fyllstu víxilvöxtum. Því meiri ástæða er til að lagfæra þetta, sem afurðir hafa lækkað mjög í verði síðan mörg þessara lána voru tekin, en vextirnir hvíla enn á lántakendum með fullum þunga. En n. lagði áherzlu á það, að afgreiða málið þannig, að tillögur hennar kæmu að raunverulegum notum, en yrðu ekki aðeins pappírsgagn.

Í frv. því, sem landbn. ber fram, er lagt til, að vextir af lánum Ræktunarsjóðs lækki niður í 5%. Þessa lækkun á sjóðurinn að greiða sjálfur að nokkru leyti eða öllu, með því að n. leggur til, að sjóðurinn leggi eftirleiðis í varasjóð 2½% ársvexti af höfuðstól ásamt tekjuafgangi sjóðsins, í stað 3½% áður.

Þá er og lagt til að lengja lánstímann og létta þannig afborgunarþungann um 1%. Samtals verður lækkunin þá 1,7% á ársgreiðslum til sjóðsins.

Þá eru vextir af lánum í Söfnunarsjóði færðir niður úr 6% í 5%. Þessi lækkun er í okkar frv. færð yfir á Söfnunarsjóð sjálfan, en átti samkv. frv. hv. þm. V.-Húnv. að lenda á ríkissjóði.

Þá er gert ráð fyrir, að hægt sé að breyta lánum í sparisjóðum og sparisjóðsdeildum bankanna, en þau lán eru öll með háum vöxtum og veitt til skamms tíma. Er lagt til að „konvertera“ þessum lánum með stofnun nýrra veðdeildarflokka við Búnaðarbankann.

Tillögur okkar eru allar raunhæfari en frv. þeirra hv. þm. V.-Húnv. og hv. 2. landsk., því að í till. okkar er jafnframt bent á tekjur til að koma þeim í framkvæmd. Þótt við hefðum að sumu leyti haft tilhneigingu til að aðhyllast tillögur þeirra, sjáum við þess engan kost, að hægt verði á þessu þingi að afla tekna til að standast þann kostnað, sem af þeim leiðir.

Nefndin leggur því til, að frv. verði afgr. með svo hljóðandi rökst. dagskrá: [sjá þskj. 624].