04.12.1934
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (4094)

50. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Hannes Jónsson:

Ég skal taka það fram, að það var óþarfi fyrir hv. frsm. að vera að fjölyrða um það, að í frv. mínu fælist engin framtíðarlausn. Ég tók það einmitt fram við 1. umr., að ekki væri unnt að koma með framtíðalausn á þessum málum eins og stendur. Þetta væri aðeins bráðabirgðalausn, vegna aðkallandi nauðsynjar.

En það er auðsætt á till. landbn., að þær eru heldur engin framtíðarlausn. Ég get ekki skilið, að hv. n. geti ætlað, að bændur þoli að standa undir 5% vöxtum framvegis. Eitt af úrræðum landbn. er það, að ríkissjóður taki 5 millj. króna lán til að greiða fyrir konverteringu, og er sagt, að líkur séu til þess, að ríkissjóður sleppi skaðlaus. Nú má telja það alveg víst, að ekkert lán fáist undir 5%, þegar afföll eru reiknuð með, og vitanlega er ekki hægt, sér að skaðlausu, að lána féð út með alveg sömu vöxtum. Í þessu máli þarf að fara allt aðrar leiðir til framtíðarúrlausnar, en ég efast um, að þær leiðir séu opnar nú. Þess vegna þarf þetta mál bráðabirgðaúrlausn, og hún felst einmitt í frv. okkar.

Hv. frsm. gerði mikið úr því, hvílíkur baggi vaxlatillagið yrði fyrir ríkissjóð. Samkv. útreikningi Búnaðarbankans nemur það þó ekki meiru en 228 þús. kr., þótt allar okkar kröfur séu teknar til greina.

Landbn. virtist leggja of mikla áherzlu á það, að till. okkar fælu enga tryggingu í sér, vegna þess, að óvíst væri, að stj. hefði fé til þess að fullnægja þeim. En því er þá 3. kaflinn í frv. n. tekinn úr frv. okkar og settur inn í hitt frv., að vísu í afskræmdri mynd? Er það gert með það fyrir augum, að stj. noti ekki heimildina, sem í honum felst?

Það má undrun sæta, ef ekki er hægt að fullnægja okkar kröfum sökum féleysis, þótt þær séu á annað hundrað þús. kr. hærri en till. n. Það gegnir mikilli furðu, ef ekki er hægt að greiða þetta eins og margt annað, þegar þess er gætt, að á þessu ári hafa verið greiddar miklu hærri upphæðir úr ríkissjóði alveg að ástæðulausu.

Hv. frsm. fór að afsaka það, að n. skyldi hafa legið á þessu frv. okkar í tvo mánuði, en bar það fyrir sig, að fyrir n. hefði legið annað frv., samið af nefndarmönnum sjálfum. Hefði nú mátt ætla, að þeir hefðu verið svo kunnugir sínu eigin frv., að þeir hefðu ekki þurft að vera í tvo mánuði að endurskoða sjálfa sig. En endurskoðun væri þó ekki óþörf á frv. ennþá, því að ómögulegt er að samþ. það óbreytt í þeirri mynd, sem það kemur frá nefndinni.

Í kaflanum „Ákvæði til bráðabirgða“, sem er inni í miðju frv., er lagt til að fella þessi lög inn í meginmál laga um Ræktunarsjóð, ef frv. verði samþ., þrátt fyrir það, þótt langflest ákvæðin komi Ræktunarsjóði alls ekkert við!

En ástæðan til þess, hve lengi n. hefir legið á frv. okkar, er alls ekki sú, sem hv. frsm. lét í veðri vaka. Ég leyfi mér líka að efast mikið um, að frv. nefndarinnar hafi orðið til fyrr en nokkru eftir að okkar frv. kom fram. En ástæðan til þess, að n. lagðist á frv., var sú, að bandamenn Framsóknar, sósíalistar, vildu ekkert í þessu máli gera. Þess vegna hefir Framsókn í hvoruga löppina þorað að stíga.

Ég vil benda á það enn, að n. hefir tekið heimildarákvæði upp úr frv. okkar, sem hún þó segir, að sé einskis virði. Hefir stj. fremur til peninga, ef ákvæðin verða að lögum fyrir tilstilli hv. frsm., en ekki okkar? Eða er hann að bera á stj., að hún fari eftir því, hver ber málin fram? Ég setti þetta sem heimildarákvæði í frv., af því að ég var sannfærður um, að fjmrh. myndi nota heimildina.

Tilraunir n. til að finna framtíðarlausn á málinu eru einskis virði. Allar vaxtalækkanir eru teknar frá lánastofnununum sjálfum og þær þar með rýrðar. Þetta er með öllu óforsvaranlegt. Þessar ráðstafanir eiga ekki að verða til þess að veikja lánsstofnanir landbúnaðarins, heldur koma lánunum fyrir á hagkvæmari hátt en áður.

Ég legg áherzlu á, að hin „rökstudda“ dagskrá verði ekki samþ., því að þetta mál þarf að leysa á allt öðrum grundvelli en þeim, sem nefndin leggur til.