04.12.1934
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (4095)

50. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Jón Pálmason:

Ég hefi skrifað undir nál. landbn. með fyrirvara, og vil ég því gera grein fyrir afstöðu minni til málsins.

Ég er ekki allskostar ánægður með frv. landbn., þótt ég fylgi því vegna þess, að eftir þá rannsókn, sem fram hefir farið, er ekki líklegt, að frekari ívilnanir fáist en þær, sem farið er fram á í frv. landbn.

En þörfin er mikil, og enn hefir ekki verið séð nógu vel fyrir henni. Í fyrra var öll áherzlan lögð á það, að fá skuldaskil fyrir lausaskuldir bænda. Mun nú vera búið að gefa eftir af þeim skuldum um 4 millj. króna. Mestur hluti þessara eftirgjafa kemur niður á þeim hluta bændastéttarinnar, sem ekki fær lán úr Kreppulánasjóði. Sveitamenn eiga margir hver hjá öðrum og eru í ábyrgðum hverjir fyrir aðra, og auk þess koma eftirgjafirnar að miklu leyti niður á sjóðum kaupfélaganna, en það eru í raun og veru sjóðir bænda.

Útkoman verður því sú, að þeir, sem hafa hag að fjármálum sínum gáleysislegast undanfarin ár og tekið mikið af lausum lánum tryggingalaust, sleppa miklu betur en þeir, sem tekið hafa föst lán.

Tökum til dæmis tvo bændur, sem skulda 10 þús. kr. hvor um sig. Annar skuldar 8 þús. kr. í fasteignaveðslánum og 2 þús. kr. í lausaskuldum. en hinn 2 þús. kr. í fasteignaveðlánum og 8 þús. kr. í lausaskuldum. Annar fær eftirgjöf á mestum hluta skulda sinna, en hinn enga. Þeir, sem skulda tryggð lán, standa því verst að vígi allra manna, þegar búið er að afgreiða lánin úr Kreppulánasjóði.

Ég held, að rétta aðferðin í þessum efnum sé sú, að lækka vextina sem mest, en fara ekki inn á eftirgjafabrautina. Ef þessa hefði verið gætt í upphafi, þegar lögin um Kreppulánasjóð voru sett, hefðu þeir, sem skulda fasteignaveðslánin, ekki orðið svo afskiptir sem raun hefir á orðið. En fyrir slæman frágang á lögum Kreppulánasjóðs hefir ekki verið séð fyrir því. Eðlilegast hefði verið, að lækkun fasteignaveðvaxtanna hefði verið greidd úr Kreppulánasjóði. En í stað þess voru samin sérstök lög um ýmsar ráðstafanir vegna fjárkreppunnar, sem eru hin leiðinlegustu lög með hinum mesta ölmususvip.

Þetta eru bráðabirgðalög, sem eiga að falla úr gildi um næstu áramót. En kostnað við vaxtatillagið er ekki hægt að greiða úr ríkissjóði til lengdar, og því verður Kreppulánasjóður að vera þar milliliður.

Í landbn. vildu sumir ekki taka eyri úr ríkissjóði í þessu skyni, og það var þegar augljóst, að þingið var svo klofið í þessu máli, að þótt sumir okkar hefðu viljað koma frv. hv. þm. Húnv. og hv. 2. landsk. fram, hefði það ekki tekizt. — Þó að þetta frv. verði samþ., þá mun það koma að litlu gagni, því að frá mínu sjónarmiði a. m. k. eru ekki neinar líkur til, að þetta verði framkvæmt á næsta ári, eins og hv. þm. verði ráð fyrir. Þess vegna hefi ég í þessu máli gengið inn á þá braut, sem mér er þó að sönnu ógeðfelld, að taka hið minna heldur en að fá ekkert — heldur en að halda kröfunum fullum fram og eiga það jafnvel víst að fá þá ekkert í því efni, sem hér um ræðir.

Ég verð að segja það, að þótt þetta frv., sem landbn. stendur að, gangi ekki langt að því er snertir niðurfærslu á vöxtum, þá er að því talsverður léttir frá því, sem ekkert væri gert í þessu efni. Og ég verð að taka undir það, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, að þótt á frv. séu nokkur smíðalýti, sem þurfi að laga, og n. hefir nú þegar flutt brtt. því til lagfæringar, að þá er það ekkert aðalatriði, heldur er hitt aðalatriði, að n. er með þessu frv. að gera ráðstafanir til þess, að fasteignaveðslán landbúnaðarins verði ekki á næsta ári með hærri vöxtum en 5%. Það er svo ástatt í okkar atvinnugrein, að hún þolir illa þá vexti, en þó er hitt, eins og ég hefi þegar vikið að, öllu óeðlilegra, að mönnum er mjög mismunað með þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið á þessu sviði, og einkum á þann hátt, að þeir, sem gætilegast hafa farið á undanförnum árum, eru útilokaðir frá þeim hjálparráðstöfunum, sem gerðar hafa verið.

Með þessum skýringum vænti ég, að þeim hv. dm., sem mál mitt heyra, sé það ljóst, hvað því veldur, að ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara. Það er mín skoðun, að það verði að vísa þessu máli frá — frv. hv. þm. V.-Húnv. — til þess að geta náð einhverju til lagfæringar á þessu sviði. — Um þetta skal ég svo ekki að sinni fara fleiri orðum, en þykir það ekki óeðlilegt, að bæði þessi mál séu að nokkru leyti rædd saman.