05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (4103)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Þetta mál hefir fengið sérstakan undirbúning í milliþn., og tel ég mér skylt að skýra nokkuð frá þeim undirbúningi.

Aðdragandi málsins er sá, eins og kunnugt er, að þessi hv. d. samþ. á reglulegu þingi 1933 þáltill. um að skora á ríkisstj. að láta rannsaka og safna skýrslum um fjárhagsástæður og afkomuhorfur sjávarútvegsmanna um allt land, og gera till. til úrlausnar vandamálum sjávarútvegsins vegna yfirstandandi krepputíma. Till. var í 6 liðum, en þetta var aðalatriði hennar.

Flm. till. gerðu þá grein fyrir henni, að sjávarútvegurinn væri svo hart leikinn eftir hin erfiðu verðfallsár, sem yfir hann höfðu gengið, að það lægi við borð, að þessi mikli atvinnuvegur stöðvaðist að meira eða minna leyti. Þá voru til meðferðar í þinginu ráðstafanir til viðréttingar landbúnaðinum, en þm. töldu ekki fært að taka sjávarútveginn þar með, af því þá rannsókn skorti, sem þáltill. gerði ráð fyrir.

Ríkisstj. skipaði síðan milliþn. til þess að leysa þetta verk að hendi. Ég mun ekki skýra frá starfi þeirrar n. nema að því er snertir þann lið þáltill., sem hér er um að ræða. N. var skipuð haustið 1933 og hefir starfað síðan. Í hana voru skipaðir þeir Jón A. Jónsson alþm., Jóhann Þ. Jósefsson alþm. og Kristján Jónsson erindreki Fiskifélags Íslands. En mannaskipti urðu í n. á síðastl. vori; Jón A. Jónsson lagði af sér starfinu, en ég var skipaður í hans stað.

Ég skal svo leyfa mér að skýra nokkuð frá, hvernig n. hagaði störfum sínum, og svo hver hefir orðið árangur af rannsóknum hennar. N. hóf að sjálfsögðu störf sín með því að safna þeim skýrslum, sem fyrir hana var lagt að afla. Ég skal þegar taka fram, að hún hafði í upphafi sett sér það mark, að fá áreiðanlegar skýrslur um fjárhag allra útgerðarmanna á landinu, sem hafa sjávarútveg að aðalatvinnu sinni, og jafnframt fá glöggt yfirlit yfir, hvernig útgerðin hafði borið sig síðustu árin. Ástand útgerðarmanna fjárhagslega var miðað við áramótin 1932—1933, eða næstu áramót áður en nefndin tók til starfa. Nefndinni virtist hún ekki geta fengið glöggt yfirlit um rekstrarafkomu útgerðarinnar nema með því að fá upplýsingar um fleiri ár, og varð niðurstaðan sú, að safna skýrslum um fjögur næstu ár á undan, sem voru árin 1929—1932, að báðum meðtöldum. Ég skal geta þess í þessu sambandi, að samskonar rannsókn, sem farið hafði fram á hag landbúnaðarins, var að því leyti frábrugðin, að þar var ekki rannsökuð rekstrarafkoma landbúnaðarins, enda hafa fæstir bændur þannig reikningsfærslu, að það sé hægt. En langmestu fyrirhöfnin fyrir sjútvn. var við að safna skýrslum um rekstrarafkomu útgerðarinnar. Það var vitanlega mjög miklum erfiðleikum bundið, sérstaklega að því er smærri útgerðarfyrirtæki snerti. N. byrjaði á því að snúa sér til allra hreppstjóra og lögreglustjóra á landinu og fá hjá þeim skýrslur yfir öll skip, sem gerð voru út á fiskveiðar, allt frá opnum vélbátum og upp í togara, og alla útgerðarmenn á landinu. Að fengnum þeim skýrslum sendi n. öllum hreppstjórum og öllum þeim embættismönnum, sem skrá á skip, eyðublöð til útfyllingar, og fól þeim að koma þeim til réttra hlutaðeigenda og safna þeim síðan saman aftur. Þessi skýrsluform voru send milli 80—90 hreppstjórum og sýslumönnum til útbýtingur. Það kom auðvitað brátt í ljós, að menn voru ekki einfærir um að útfylla þessar skýrslur, og því varð n. að gera ýmsar ráðstafanir til þess að fá þær rétt útfylltar. Ég skal taka það fram, að skýrslunum um rekstrarafkomu útgerðarinnar áttu að fylgja svör við ýmsum spurningum, sem n. taldi sér þörf á að fá leyst úr, svo sem um það, hvað skipunum hefði verið haldið lengi úti, á hverskonar veiðar, hvað hlutir höfðu verið háir, hvaða kaup þeir hefðu borið úr býtum, sem ráðnir voru upp á fast kaup, o. s. frv.

Eins og ég sagði, komst n. fljótt að raun um, að ekki höfðu nema sumir af úgerðarmönnum tök á að útfylla þessar skýrslur; sumpart vegna þess, að þeir voru slíku óvanir, og sumpart vegna þess, hvað bókfærsla smærri útgerðarfyrirtækja er ófullkomin. Hreppstjórar hjálpuðu mörgum í þessu efni, en í stærri útgerðarplássum varð n. að fá sérstaka menn til þess að fara um og leiðbeina mönnum um skýrslugerðina. N. taldi óviðunandi annað en að fá tæmandi skýrslur um efnahagsástæður útvegsmanna, og lagði því mjög mikið erfiði í þessa skýrslusöfnun. Það kom brátt í ljós, að skilagrein varð betri að því er snerti efnahagsreikninga heldur en rekstrarreikning, og efnahagsreikningarnir voru bersýnilega miklu áreiðanlegri en rekstrarreikningarnir.

N. tók nú það ráð, til þess rannsóknir hennar yrðu sem ábyggilegastar, að sendu öllum þeim, sem líkindi voru til að útgerðarmenn hefðu átt skipti við, skýrsluform til útfyllingar yfir skuldir útgerðarmanna. Vitanlega skrifaði n. og sendi út bréf svo þúsundum skipti alls, en þessi bréf, sem send voru til að leita upplýsinga um skuldir, voru samtals 1340. Úr svörunum, sem n. fékk við þessum bréfum, samdi hún spjaldskrá yfir skuldir útgerðarmanna.

Upp úr öllum þessum krafstri hafði n. efnahagsskýrslur frá 877 útgerðarmönnum, en rekstrarreikninga fékk hún samtals 1922, og þeir ná eins og áður er sagt til 4 ára. Þetta sýnir, að n. hefir fengið tiltölulega fleiri efnahagsreikninga, og er það eðlilegt, m. a. vegna þess, að í smærri útgerð er algengt, að fleiri en einn eigandi séu að einu skipi, þó það sé ekki félag, sem kemur fram sem einn aðili. Skilar þá hver af eigendunum sérstakri efnahagsskýrslu, að sjálfsögðu yfir allar eignir sínar og skuldir. En eins og ég tók áður fram, eru þeir einir teknir með, sem hafa útgerð að aðalatvinnu. Rekstrarreikningarnir var ekki ætlazt til að yrðu alveg tæmandi. Það er svo um marga, sem smáútgerð stunda, að þeir reka jafnframt mikinn annan atvinnurekstur, og mundu rekstrarreikningar þeirra fremur raska en fylla út þá heildarmynd af rekstrarafkomu útvegsins, sem n. vildi fá. Öðru máli gegnir um efnahagsreikningana: þá var um að gera að fá sem mest tæmandi.

Þegar n. hafði fengið skýrslurnar inn og gert sín síðustu áhlaup, vil ég segja, til þess að fá sem allra mestar upplýsingar, sem hún gæti byggt á áreiðanlegt yfirlit og rökstuddar till., var byrjað að vinna úr þessu mikla efni. Vil ég með fáum orðum skýra frá því, hvernig vinnubrögð n. voru, með því að ég geri ráð fyrir, að hv., þdm. vilji komast að raun um, hvort vinnunni hafi verið hagað þannig, að niðurstöður n. megi teljast nokkurnveginn áreiðanlegur.

Fyrst skal ég víkja að efnahagsreikningunum. Þeir voru þegar teknir fyrir og yfirfarnir nákvæmlega, og var reynt að sannprófa hvern einstakan reikning, svo sem föng voru til. N. sá undir eins, að á efnahagsskýrslum manna voru ýmsir gallar. Eignirnar, sem taldar voru fram, voru sumstaðar bersýnilegu metnar af viðkomandi mönnum sjálfum, eftir mjög mismunandi mælikvarða. Stundum var tilfært það verð á skipunum, sem þau voru vátryggð fyrir, og stundum var sett á þau það verð, sem eigendurnir töldu sæmilegt fyrir þau. Á stærri skipunum var oft tilfært svokallað bókfært verð, sem útgerðin hafði ekki getað afskrifað svo sem þurfti fyrir verðfalli og fyrningu skipanna. N. leitaði upplýsinga kunnugra manna um þetta, eftir því sem unnt var, en fór annar, mjög eftir aldri skipanna og flokkun þeirra, eða „klössun“ svokallaðri. Breytingarnar, sem n. gerði, gengu allar í þá átt að lækka verð skipanna. Um aðra eignaliði er það að segja, að á fasteignum var fasteignamatið látið halda sér, og lausafé var yfirleitt látið halda því mati, sem menn höfðu sjálfir á það sett. Útistandandi skuldir var ekki hægt að sannprófa sem skyldi, en n. reyndi að leita sér um þær upplýsinga kunnustu manna. Skuldaframtalið reyndi hún að sannprófa með því að bera frumtöl útgerðarmannanna sjálfra saman við spjaldskrá þá yfir skuldirnar, sem ég sagði frá áðan. — Á þennan hátt komst n., að því er henni virtist, að nokkurnveginn áreiðanlegri niðurstöðu um raunverulegar eignir útgerðarmanna. Alstaðar þar, sem var tilfært hlutafé og stofnfé eða varasjóðir, var athugað, hvort það fé mundi vera tapað, og það strikað út, þar sem svo virtist vera.

Þegar þessu var öllu lokið, flokkaði n. útgerðarmenn niður, eftir því hvað miklar eignir þeirra voru móti skuldunum. Var fylgt samskonar reglum við þá flokkun eins og landbúnaðarnefndin fylgdi á sínum tíma við flokkun bændanna. Í 1. flokki voru þeir menn hafðir, sem skulduðu minna en 50% móti eignum, í 2. flokki þeir, sem skulduðu frá 50—75% móti eignum, í 3. flokki þeir, sem skulduðu frá 75—100% móti eignum, og í 4. flokki þeir, sem skulduðu meira heldur en 100% móti eignum og áttu þannig ekki fyrir skuldum.

Síðan var unnið úr reikningunum efnahagsyfirlit, þannig að fyrst var gert yfirlit yfir hvern hrepp fyrir sig, þau yfirlit síðan dregin saman í sýslu- og kaupstaðayfirlit, og svo loks gert heildarefnahagsyfirlit yfir landið allt.

Það er rétt að skýra frá því, að af þeim útgerðarmönnum, sem töldu fram, eru 856 bátaeigendur. Af þeim eru 272 í 1. flokki, og eru skuldir þeirra að meðaltali 22,6% móti eignum. Í öðrum flokki eru 178, og er skuldameðaltal þeirra 63,3% móti eignum. Í þriðja flokki eru l64, og skulda þeir að meðaltali 83,4% móti eignum. En í 4. flokki eru 242, eða meira en fjórði hluti allra bátaeigendanna, og eru skuldir þeirra að meðaltali 142,8% móti eignum. Alls eru eignir þeirra manna, sem eiga skip eða part í skipi upp að togarastærð, 16219118 kr., en skuldir þeirra nema 14039532 kr. Meðaltal skulda á móti eignum hjá öllum eigendum skipa frá opnum vélbátum og upp að togurum er 86,6%.

Togaraeigendur voru teknir út úr, og er efnahagur þeirra þannig, að eignir þeirra samtals, nema sömu upphæð og eignir bátaeigendanna. En skuldir þeirra reyndust 12481918 kr., og er það 77% á móti eignum. En eignir allra skipaeigenda á Íslandi, sem að sjávarútveginum stunda, reyndust samtals 32438236 kr. og skuldir þeirra samtals 26521450 kr. Skuldir alls móti eignum 81,8%.

Þetta er niðurstaðan af þeirri athugun á hag íslenzkra sjávarútvegsmanna, sem fram hefir farið, og mun ég síðar koma að því að minnast á hana nokkru nánar. Þó vil ég strax taka fram, að það er álit n., að þó þessar niðurstöðutölur séu ekki glæsilegar, þá sé þó efnahagur sjávarútvegsmanna lakari nú heldur en þær benda til. Ástæðurnar til þess eru þær, að í fyrsta lagi er framtalið ekki gersamlega tæmandi, og í öðru lagi er n. sannfærð um, að þau nærri tvö ár, sem liðin eru frá þeim tíma, sem athugunin er miðuð við, hafi verið svo óhagstæð sjávarútveginum, að hlutfallið milli eigna og skulda hafi versnað. Þó ég vilji ekki gizka á neitt ákveðið í þessu efni, þá þykir mér líklegt, að hlutfallið sé nú komið í 90% skuldir móti eignum.

Ég skal aðeins vekja athygli á því nú, en vík nánar að því síðar, að við athugun þá, sem gerð var á efnahag bænda, kom í ljós, að eignir þeirra mundu vera um 63 millj., en skuldir um 33 millj. Það er því sýnt, að eignir útgerðarmannanna eru nálega helmingi minni. Þannig stendur miklu minna fé fast í útgerðinni heldur en landbúnaðinum, en skuldir sjávarútvegsins eru aftur tiltölulega miklu meiri.

Til þess að segja hv. þm. greinilega frá því, hvað mikil vöntun muni vera í framtali eigna og skulda sjávarútvegsmanna, skal ég geta þess, að n. lét gera skrá yfir öll þau skip, sem ekki eru tekin með í framtalinu. Í fljótu bragði virðast þau nokkuð mörg, því að þau eru yfir 200, en til skýringar skal ég geta þess, að um helmingur þeirra er opnir bátar, og flest eru þau í eigu manna, sem n. virtist ekki stunda sjávarútveg sem aðalatvinnuveg. Allmargt af þessum skipum er notað til flutninga. Þó vantar að sjálfsögðu nokkra útgerðarmenn í yfirlitið, og það stafar blátt áfram af því, að einstaka manni hefir ekki verið hægt að koma í skilning um nauðsyn þessara rannsókna, og sumpart af því, að alltaf er eitthvað af skipum í einskonar millibilsástandi, þannig, að þau eru að ganga á milli útgerðarmanna og lánstofnana og enginn telur sér beinlínis skylt að telja þau fram eða gera grein fyrir rekstrarafkomu þeirra.

Þá skal ég víkja að starfi n. í þá átt, að komast að raun um, hvernig rekstur útgerðarinnar hefir gengið á undanförnum árum. Það er hv. þm. sjálfsagt ljóst, að n. hlaut að líta svo á, að hún gæti ekki gert till. til verulegrar úrlausnar á þessu máli, nema gera sér fyrst ljóst, af hverju það hörmulega ástand stafaði, sem sjávarútvegurinn er kominn í. Og ástandið stafar vitanlega af því, hvað rekstur útgerðarinnar hefir verið erfiður á undanförnum árum.

Þegar n. hafði safnað þeim rekstrarreikningum, sem fáanlegir voru, fór hún að vinna úr þeim. Og hún fór svipað að því og við efnahagsreikningana, reyndi að sannprófa hvern lið út af fyrir sig. Fyrst tók hún fyrir tekjuliðina. Nú höfðu menn t. d. talið aflann fram í ýmsu ásigkomulagi, sumir töldu hann fram fullverkaðan, sumir upp úr salti o. s. frv. N. tók það ráð að leggja alstaðar til grundvallar saltfisksverðið og nema burt verkunarkostnaðinn, eftir því sem við átti. Var það nauðsynlegt til þess að fá samræmi í allt saman.

Þegar n. hafði gert fiskinum skil hvað þetta snerti, snéri hún sér að því að athuga og bera saman aflamagn skipanna. Var það athugað, hvað fiskmagnið væri mikið. Þá var líka reynt að sannprófa alla útgjaldaliði. Var tekinn fyrir hver einstakur liður, svo sem salt, beita, olía, og eyðslan borin saman við stærð skipsins, aflamagn og útgerðartíma, svo og verð þessara vara. Vátrygging var alstaðar talin með, eins þó ekki væri allt vátryggt, en n. áleit, að svo ætti jafnan að vera. Fyrning á skipunum var talin 6%. N. taldi til útgjalda vexti af eigin fé manna í útgerðinni, ef það fé var ekki tapað.

Þegar rekstrarreikningarnir voru sannprófaðir með alúð og vandvirkni, eins og n. gerði, þótti rétt að flokka skipin niður eftir stærð. Var þá skipað í

1. flokk opnum vélbátum.

2. — þiljuðum vélbátum minni en 12 smál.

3. — þiljuðum vélbátum frá 12—27 smál.

4. — þiljuðum vélbátum yfir 27 smál.

5. — línuveiðagufuskipum.

6. — togurum.

Síðan hefir verið gerð skýrsla um rekstrarafkomu skipa í hverjum þessara flokka árin 1929 —32. Í fyrsta lagi fyrir hvern hrepp eða kaupstað, í öðru lagi fyrir hvern landsfjórðung, og loks fyrir landið allt. Árangurinn af þessari skýrslugerð mun bráðlega liggja fyrir í prentaðri skýrslu, og munu hv. þm. þá geta fengið hana til athugunar. Ég skal taka það fram, að af skýrslugerðinni er ekki hægt að sjá töp útgerðarinnar í heild, af því að n. hefir ekki getað fengið tæmandi yfirlit um þau. En hún hefir þó fengið nægar upplýsingar til þess að geta gefið yfirlit um, í hverju töpin liggja. Rekstrarreikningarnir, sem fyrir liggja, eru tæpir 2000 frá þessum 4 árum. Flestir eru þeir frá síðasta árinu. Eftir því sem lengra var um liðið, reyndist erfiðara að fá áreiðanlega reikninga. Fyrsta árið, sem reikningarnir ná yfir, árið 1929, varð ekki tap á útgerðinni í heild, þó að hagnaðurinn yrði lítill. Aftur varð tap öll árin 1930, 1931 og 1932. Nemur þetta tap á þeim skipum, sem ég hefi yfirlit um, tæpum 9 millj. króna þessi ár. Er það geysimikið. En hagnaðurinn árið 1929 nemur aðeins 330 þús. kr. á öllum flotanum, að meðtöldum togurum.

Þegar n. hafði látið gera þetta yfirlit um allan flotann, komst hún að þeirri niðurstöðu, að til þess að geta gert till. til umbóta, yrði hún að afla sér yfirlits um það, í hverju útgerðarkostnaðurinn fælist helzt og í hverju töpin lægju aðallega. Lét því n. gera nokkrar töflur um þau efni, og fylgja þær áliti hennar. Eru þar settar fram hlutfallstölur, er sýna, hve mörg % af öllum tekjunum hver tekjuliður er, og eins er farið að um útgjöldin. Geta þessar tölur orðið mikilsverð bending, þegar athuga skal, á hvern hátt hægt sé að láta útgerðina bera sig sem bezt.

Um síldveiðarnar voru gerðar sérstakar skýrslur.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. skilji af því, sem ég hefi sagt, að verk n. hefir verið bæði seinlegt og erfitt. Höfum við gert okkur far um að láta þessar skýrslur gefa sem gleggst yfirlit um efnahag útgerðarmanna og það, hvernig atvinnurekstur þeirra hefir gengið undanfarin ár.

En nú ber að athuga, hvað hægt er að byggja á þessum skýrslum. Ég tek það fram, að bráðlega verður bætt um þessa ófullkomnu lýsingu á vinnubrögðum n., er lögð verður fyrir hv. þm. skýrsla sú, sem ég gat um áðan. N. var búin að semja skýrslur þessar í lok ágústmánuðar. Síðan voru þær látnar í prentun. Verða þær á 3. hundrað bls. í þingtíðindaformi. Allt er þetta handsett og prentunin því mjög seinleg. Er því ekki að undra, þótt prentunin taki alllangan tíma. Þó mun óhætt að segja, að skýrslurnar muni verða til innheftar og búnar í hendur hv. þm. fyrir næstu helgi.

Þá vil ég minna á, að oft hefir verið talað um, að í sjávarútveginum sé bundið mikið fé, ekki aðeins fé bankanna, heldur og mestallt lánsfé, er landsmenn ráða yfir. Nú munu menn sjá svart á hvítu, að það er ekki ýkjamikið fé, sem í sjávarútveginum liggur bundið. Skýrslurnar sýna, að allur skipastóll landsmanna, allt frá opnum bátum upp í togara, nemur aðeins rúmum 12 millj. kr., en allar verkunarstöðvar, með húsum og öðru þar til heyrandi, eru nálægt 4,3 millj. kr. virði. M. ö. o., það, sem útgerðarmenn hafa fast í skipum og verkunarstöðvum, ásamt húsum og öðru, er ekki nema rúml. 17 millj. kr. Þetta er það fasta kapítal, sem árlega veltir úr sjó 50—60 millj. kr. virði. Sjá menn því, hvílíkur geysiarður er að þessum atvinnurekstri fyrir þjóðina. Ég er því ekki kunnugur, hversu mikið kapítal þarf til að velta upp auði í öðrum löndum, en ég held, að það jafnist á við auðugustu námur þar, er 17—20 millj. kr. kapítal framleiðir á ári 50—611 millj. kr.

N. gerði athuganir um útfluttar sjávarafurðir síðustu ár. Nam útflutningurinn 53,3 millj. kr. á ári að meðaltali síðustu 5 ár. Er það yfir 90% af verði allra útfluttra vara. Vænti ég, að þessar skýrslur leiðrétti þann mikla misskilning, að í sjávarútveginum liggi mestöll fjárhagsgeta landsmanna. Og þó að rekstrartap hafi orðið á útgerðinni upp á síðkastið, sést, hversu mikið verðmæti hún ber á land, en verðmæti útgerðartækjanna er ekki eftir því mikið.

Það verður ekki hjá því komizt í þessu sambandi að minna hv. þd. á, að undir þessum atvinnurekstri á h. u. b. helmingur landsmanna afkomu sína. Ríkisbúið er grundvallað á þessum miklu tekjum, svo að ekki er að undra, þótt litið sé á það með miklum áhyggjum, hvernig nú er komið fyrir þessum atvinnuvegi. Þegar búið er að reka hann í 5 ár með milljónatapi árlega, hlýtur það að koma fram í því, að atvinnureksturinn rýrnar og færir saman kvíarnar, þar til allt hrynur í rústir. Þegar atvinnurekstur þessi hefir verið rekinn með svona miklu tapi síðustu 5 ár, enda þótt hann hafi borið á land 50—60 millj. kr. árlega, þá er sýnilega hrun fram undan, ef ekki er tekið í taumana.

Þá leiddi athugun á aldri fiskiveiðaflotans í ljós geigvænlegan sannleika. Togaraflotinn er 36 skip, en efnahagsreikningarnir ná aðeins yfir 32 skip. Stafar þetta af því, að sum skipin voru ekki í eign útgerðarmanna, þegar skýrslan var gerð. Meðalaldur íslenzkra togara er sem næst 14½ ár, svo að flotinn er sýnilega að því kominn að sökkva. Þó er ástandið enn verra með línuveiðagufuskipin. Meðalaldur þeirra er 301/4 ár, og þetta eru flest járnskip. Þessi floti er því enn nær því kominn að sökkva.

Þegar það er nú athugað, að í þessum skipastóli liggur ekki meira fé en það, sem ég gat um áðan, rúml. 12 millj. kr., eða því sem næst, þá virðist það ekki vera neitt grettistak að endurnýja þennan flota.

Nú býst ég við, að margir muni leggja fyrir sig þá spurningu, hvernig standi á því, að atvinnugrein, sem ber landsmönnum svona miklar tekjur, skuli vera komin á heljarþrömina. Hví eru útgerðarmenn ekki yfirleitt ríkir menn? Ástæðan er aðeins sú, að of mikið hefir verið heimtað af útgerðinni. Tökum lítið dæmi:

Um aldamót eru fjárl. Ísland, samin með 3/4 millj. kr. útgjöldum. 700 þús. kr. eru þau útgjöld, er ríkið leyfir sér. En 1930 eru tekjur ríkissjóðs orðnar á 18. millj. kr. Hvar hefir þessu verið á bætt? Langmest á útgerðina. Nú er það víst, að þetta er of langt gengið. Uppgripin hafa blekkt menn, svo að þeir héldu, að útgerðin bæri meira en hún gat borið. Því hefir verið hlaðið á hina gjöldum. Sést það, hversu tregir menn eru til að trúa þessu, á því, að eftir að útgerðin hefir verið rekin í 5 ár með milljónatapi, er enn verið að skattleggja hana til styrktar öðrum atvinnurekstri, sem að vísu þarfnast styrks.

Það er ekki til að hallmæla íslenzkri löggjöf að ég vek athygli á því, að meðal annara athugana, er mþn. gerði, var sú, sem leiddi í ljós, hvernig aðrar þjóðir í Norðurálfunni búa að sínum útgerðarmönnum. Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn hefir safnað skýrslum um þetta frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Bretlandi, Þýzkalandi og Frakklandi. Kom það í ljós, að aðbúð útgerðarinnar er að vísu ólík í þessum löndum. En sérstaklega áberandi er þó það, að þessar þjóðir hafa komið auga á erfiðleika útgerðarinnar. Þær hafa komið auga á, að létta beri af henni byrðunum og koma verði henni til hjálpar. N. reyndi að fá skýrslur um það, hvern beinan styrk útgerðin fengi hjá þessum þjóðum, og síðan um hitt, hvern óbeinan styrk hún fengi. Er það mikið fé alstaðar. Vaxtakjör á fé því, er lánsstofnanir leggja í hendur útgerðinni, eru og mjög góð. Sumar þessara þjóða hafa lagt útgerðinni beinan styrk, en engin fiskveiðaþjóð Norðurálfunnar leggur beinan skatt á framleiðslu útgerðarinnar. Íslendingar eru eina fiskveiðaþjóð Norðurálfunnar, sem tekur útflutningsgjald í ríkissjóð af sjávarafurðum, og nemur það gjald 1½—7%. Auk þess taka Íslendingar einnig útflutningsgjald af sjávarafurðum til hafnarsjóða og bæjaþarfa. Eru þessa ekki dæmi í Evrópu, nema í Noregi, þar sem tekið er örlítið gjald af útfluttu verðmæti sjávarafurða til hafnarsjóða. Sýnir þetta, hve hér er mikill munur á. En sumar þjóðir greiða beinlínis verðlaun fyrir útfluttar sjávarafurðir, er nemur allt að 33 kr. fyrir hvert útflutt skippund.

Í þessu sambandi vil ég með nokkrum orðum geta þess, hvernig íslenzkir útgerðarmenn standa að vígi í samkeppninni við aðrar þjóðir, sem fisk selja á sömu mörkuðum og þeir. Allir vita, að útgerðarmenn hafa verið sakaðir um, að þeir fari óforsjállega með afurðasöluna. En það er rétt að gera sér grein fyrir því, við hvað íslenzkir fiskútflytjendur hafa að stríða. Markaður þeirra er aðallega tvennskonar: Saltfiskmarkaðurinn í Suðurlöndum, þar sem þeir keppa við Norðmenn fyrst og fremst, og svo ísfiskmarkaðurinn í Englandi, þar sem þeir keppa við Englendinga sjálfa. Á saltfiskmarkaðinum bjóða Íslendingar sömu fisktegundir og Norðmenn, verkaðar á sama hátt, veiddar á samskonar skipum og á sömu og svipuðum miðum. Er þar mikill aðstöðumunur: Íslendingar verða að kaupa veiðarfæri, kol, olíu og salt hærra verði en Norðmenn. Norðmenn hafa alla menn á flota sínum ráðna fyrir hlutdeild í afla, en Íslendingar borga mörgum skipverjum fast kaup eða premíu af brúttóafla. Íslendingar greiða háa útflutningstolla, en Norðmenn greiða enga slíka skatta.

Þegar tillit er tekið til kostnaðarins við að verka aflann hér á landi, sést þessi aðstöðumunur greinilega. Kaupgjald er lægra í Noregi en hér, um 90 aurar á tímann, en hér er það 1,36. Kvenfólki greiða Norðmenn 60 aura í kaup, en við 80 aura. Norðmenn láta mjög þurrka fisk sinn í ákvæðisvinnu og greiða 33—35 kr. fyrir verkun 1000 fiska, en það er mjög ódýr verkun. Allt verður þetta til þess, að þeir verðu betur samkeppnisfærir en við.

Á enska markaðinum keppa Íslendingar við Englendinga sjálfa. Þeir veiða mikið af fiski sínum á íslenzkum miðum. Englendingar hafa á sínum fiskveiðaskipum 14 menn, en við 20. Útgerðarvörur er stórum ódýrari í Englandi en hér. Englendingar kaupa kolin í Englandi innan við 20 kr. pr. tonn, en hér kosta kolin 36 kr. pr. tonn. Við verður að greiða hér 1½% í útflutningsgjald og að auki 8% í toll í Englandi, en þeir greiða engan toll. Þó ég taki ekki fleira fram, þá ætla ég, að þetta sýni greinilega aðstöðumuninn. Ég veit, að það hefir ekki öllum verið ljóst og að mörgum er ókunnugt um, af hverju stafar tap íslenzku útgerðarinnar. En ég vona, að þeim verði nú skiljanlegra en áður, að útgerðin þarf betri aðbúðar og að hún þarf að breytast geysilega mikið.

Ég vil svo víkja nokkrum almennum orðum að þörfum útgerðarinnar og að því, hvernig allt stendur og fellur með henni. Við erum í þann veginn að afgr. fjárlögin, og veit ég, að við þurfum miklar tekjur. Ennþá hvílir mikið af tekjum ríkisins á útgerðinni, bæði beint og óbeint. Ef hún hrynur í rústir, þá mun margt í þjóðfélaginu hrynja. Ég sé ekki, hvert er að flýja, ef þessi mikilsverða tekjulind hverfur. En það er víst, að það er ekki sæmandi fyrir þessa samkomu, sem hér situr, að haga sér eins og maður, sem sífellt mjólkar kú án þess að gefa henni, eða án þess að láta sér detta í hug, að hún þorni eða deyi. Útgerðin er nú svo hart leikin, að engar líkur eru til, að hún rétti við, nema ríkið brúi skuldafenið; ella mun það iðra aðgerðaleysisins síðar.

Þetta frv. fer fram á það, að ríkið hefjist handa og láti útgerðina hafa frið til að byggja sjálfa sig upp að nýju. Mönnum blöskrar að heyra nefndar milljónir króna, finnst þær ekki vera til. En ég vil minna á, að fyrir ári síðan, þegar landbúnaðurinn þurfti á hjálp að halda, voru nefndar 11 millj. kr., og mönnum ógnaði ekki meira en það, að það þótti sjálfsagt að rétta hjálparhönd, og enginn hreyfði mótmælum, þó um stærri upphæð væri að ræða en hér. Mér þykir undarlegt, ef mönnum getur annað til hugar komið en að útgerðin eigi líka sinn rétt, eða láti sér detta í hug annað en útgerðin þurfi aðstoð, og það er lífsnauðsyn fyrir útveginn, að hann sé tryggður, svo hann hrynji ekki í rústir. Sú aðferð, sem við stingum upp á að sé notuð, er nokkuð önnur en sú, sem notuð var gagnvart landbúnaðinum. Við viljum, að útgerðinni sé gefinn kostur á að reisa sig við sjálf, þannig að hætt sé við að heimta af henni gjöld, sem engum dettur í hug að leggja á útgerðina í öðrum löndum Norðurálfunnar, og að útgerðinni sé leyft að safna sjóðum með sínu eigin fé, til að reisa sig við fjárhagslega.

Ég geri ráð fyrir, að allir þdm. hafi lesið frv. og grg. þess, svo ég þurfi ekki að lesa neitt upp úr því.

Ég skal játa, að það er áætlun okkar nefndarmanna, hvað þurfi mikið fé. Við gerum ráð fyrir, að þeir flokkar útgerðarmanna, sem skulda 75% móti eignum og meira, þurfi hjálpar með. Skuldir þeirra nema um 20 millj. kr. og eignir svipaðri upphæð. Við gerum ráð fyrir, að til þess að skuldir þeirra komist niður í 65% móti eignum, sem gæti talizt nokkurnveginn heilbrigður fjárhagur, þurfi um 7 millj. króna. En þegar við svo athugum, að í 2. fl., þar sem skuldir eru 50—75% móti eignum, eru líka nokkrir menn, sem þurfa hjálpar með, og Sjálfsagt nokkrir, sem vantar skýrslur um, þorðum við ekki að gera ráð fyrir minni upphæð en 8—10 millj. kr. við gerum ráð fyrir, að ef lánardrottnar fá greitt í reiðufé, þá muni þeir fást til að gefa mikið eftir, því mikið af ótryggðum lánum munu þeir telja tapað. Því höfum við ekki gert ráð fyrir, að Skuldaskilasjóður þyrfti að vera stærri en millj. kr. við athugun útflutningsgjalda síðustu 5 ára kom í ljós, að þau nema um 1 millj. kr. að meðaltali á ári. Þó við gerum ráð fyrir, að þetta fari lækkandi vegna rýrnunar á útflutningi og %-lækkunar á útflutningsgjaldi, höfum við ekki gert ráð fyrir minni tekjum en 3/4 úr millj. á ári. Þetta mun því nema á næstu 6 árum a. m. k. 4½—43/4 millj. kr. Auk þess höfum við gert ráð fyrir, að Fiskveiðasjóður legði fram 1/4 millj. til Skuldaskilasjóðs. Þá eru komnar 5 millj. kr. Og ef gera má ráð fyrir, að lánardrottnar gefi eftir allt að 50% af skuldum, sem þeir telja lítt innheimtanlegar, þá ætti þetta að nægja til þess, að að skuldaskilum loknum yrðu skuldirnar ekki meira en 65% móti eignum, sem sæmilegt má telja til að byggja á aðrar aðgerðir, svo að útvegurinn geti að öllu sjálfráðu borið sig.

Um einstök fyrirkomulagsatriði mun ég tala við 2. umr. En ég tel mér skylt í þessu sambandi að gera grein fyrir því, hvers vegna þetta frv. er flutt af okkur flm.

Ég geri ráð fyrir, að landsmenn líti svo á, að þetta frv. ætti að vera stjfrv., því samkv. þáltill., sem áður getur, var ríkisstj. boðið að rannsaka hug útgerðarinnar og leggja fyrir þingið tillögur um úrlausn vandamála hennar. Ástæðurnar eru þær, sem nú skal greina: Mþn. sá, að verkefnin voru svo yfirgripsmikil, að hún mundi verða nokkuð seint fyrir með þau öll. Þess vegna fór hún til atvmrh. og skýrði honum frá niðurstöðum sínum um fjárhagsástæður og afkomu útgerðarinnar, er þá lágu fyrir í skrifuðum skýrslum, og gerði jafnframt grein fyrir till. sínum. Ég vil vekja athygli á því, að nefndin er stjórnskipuð, en ekki þingskipuð, svo hún átti að standa stj. skil á gerðum sínum. Nefndin spurði ráðh., hvenær mætti í síðasta lagi koma með frv. svo það yrði stjfrv. Ráðh. svaraði því, að hann mundi fá sjútvn. til að flytja frv., ef málið væri þannig vaxið, að hann sæi sér það fært. Síðar varð samkomulag um það, að því lægi ekki nauðsynlega á fyrir þingbyrjun, enda var þá form. milliþn. erlendis í stjórnarerindum. Við skiluðum því ekki frv. fyrr en 10. f. m., en áður hafði n. látið ráðh. í té frv. til skuldaskila í uppkasti. Síðan hefir afgreiðsla málsins dregizt nokkuð lengi, og var n. orðin óróleg. þegar fór að líða að þeim tíma, er ekki má bera frv. fram á Alþ. án sérstaks leyfis. N. var því sífellt að spyrja ráðh., hvað frv. liði. Hann svaraði því, að það tæki tíma að athuga jafnyfirgripsmikil mál — og það er auðvitað satt —, en hann væri að athuga þau og láta flokksmenn sína athuga þau. Þegar svo var komið fram að mánaðamótum, lagði ráðh. frv. fyrir sjútvn. Nd. og bað hana að flytja frv. um vátryggingu opinna vélbáta, en skýrði n. jafnframt frá því, að þetta frv. sæi hann sér ekki fært að leggja til, að næði fram að ganga á þessu þingi, nema séð yrði fyrir nýjum tekjum handa ríkissjóði. Við tveir mþnm., sem sæti eigum í sjútvn. þessarar hv. d., töldum sjálfsagt, að þingið sæi fyrir nýjum tekjum, og þess þarf sannarlega hvort sem er. Því það er þýðingarlaust að mjólka þessa horuðu kú lengur. Við teljum því sjálfsagt, að séð verði fyrir því, að þingið geti afgr. fjárlög án tekjuhalla, þó þessar tekjur missist. Við fórum því fram á það við sjútvn., að hún í heild flytti frv., og töldum sjálfsagt að koma því á framfæri, þótt ekki væri búið að sjá fyrir öðrum tekjum handa ríkissjóði. Meiri hl. sá sér ekki fært að samþ., að n. flytti málið að svo komnu. Þó höfðu tveir meirihlutamannanna a. m. k. talið sig velviljaða þessari viðreisn, en sáu sér samt ekki fært að flytja frv.

Nú var okkur, sem unnið höfðum í mþn. og kunnugir erum hag útgerðarinnar, ljóst, að miklu minna kapp var lagt á lausn þessara mála en t. d. landbúnaðarins, og þar sem liðinn var mánuður af þingtíma, sáum við, að málið var tæpt komið, þegar hv. meðnm. höfðu ekki meiri áhuga en svo fyrir málum þessum, að þeir voru ekki farnir að kynna sér frv., þó langt sé síðan ráðh. sagðist vera að kynna þau flokksbræðrum sínum. Við töldum okkur því bera skyldu til, verandi í mþn. og skiljandi hvað við lá, að koma málinu á rekspöl. Úrræði okkar var því að flytja málið sjálfir, þó okkur hefði þótt eðlilegast og æskilegast, að sjútvn. deildarinnar hefði staðið öll að flutningi þess.

Og til þess, að tryggja málinu alveg sérstaklega stuðning þeirra manna, sem hér í þessari hv. deild eru umboðsmenn sjávarútvegshéraða, höfum við fengið í lið með okkur þá hv. þm., sem eru meðflm. okkar að frv. En vona vil ég, að allir þeir hv. þdm., sem hafa látið vingjarnleg ummæli falla í garð þessa máls, sýni viljann í verkinu, þótt sýnt hafi því verið nokkru meiru tómlæti hingað til en það verðskuldar. Vona ég, að rætist vel úr og málið fái góða afgreiðslu.

Við flm. munum ekki láta á okkur standa að greiða fyrir þessu máli og að gera ráðstafanir til, að aflað verði þeirra tekna, sem ríkið þarfnast til að bæta upp tekjumissinn.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um frv. við þessa umr., en mælist til þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn. Ég veit, að frv. fær þar fljóta afgreiðslu, þegar n. hefir kynnt sér það.