05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (4104)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Bergur Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki vera langorður um þetta frv., sem hér liggur fyrir, við 1. umr., vegna þess að ég á sæti í þeirri n., sem um það fjallar.

Ég get verið sammála tilgangi frv. um að reyna að hjálpa sjávarútvegnum, sem ekki þarf þess síður með en landbúnaðurinn. Hvort þetta frv. getur bætt úr eins og ætlazt er til, skal ég ekki segja að svo stöddu. En ég mun athuga þetta frv. í n. Ég skal aðeins taka það fram, að mér þykir einkennilegt, að tekið er fram í 2. gr. frv. og í grg., að sjóðurinn þurfi 5 millj. kr. stofnfé, en ég finn ekki samkv. 2. gr. frv., að þar sé bent á fjáröflun nema fyrir 4 millj. kr. Fyrst er gert ráð fyrir 230 þús. kr. framlagi úr Fiskveiðasjóði. Í öðru lagi útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, sem gert er ráð fyrir, að nemi kr. 750 þús. Ég býst við, að það sé of hátt áætlað, og muni ekki nema næstu ár hærri upphæð en 600—650 þús. kr., og svo í þriðja lagi er gert ráð fyrir 3 millj. kr. láni. Ef hv. flm. geta gert grein fyrir, hvernig á þessu stendur, þá er það gott. En eins og frv. lítur út nú, þá stangast ákvæðin í 1. lið gr. við síðari hluta hennar. Í öðru lagi vil ég benda á það, að ekki er bent á neina tekjustofna til að standast þann kostnað, sem af þessu leiðir. Eins og nú er um búið, þá er þetta fjarstæða. Að ætla sér að taka útflutningsgjald af ríkissjóði næsta ár, er engin lausn út af fyrir sig. Ég get ekki búizt við, að hægt sé að afla þeirra tekna, sem þarf til að koma þessu í framkvæmd. Hitt vil ég taka fram, að ef hv. flm., þeir hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm., ætlast til, að frv. nái fram að ganga, beini ég því til þeirra, að ef þeir geta bent á heppilegan tekjustofn til að afla fjár, þá skal ekki standa á mér. En vegna þess að ég á sæti í sjútvn., sé ég ekki ástæðu til að fara nánar inn á það nú. En það, sem ég vildi vekja athygli á og kom fram í ræðu hv. 6. þm. Reykv., er framkoma þeirra hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. gagnvart a. m. k. tveimur þm., er sæti eiga í sjútvn., mér og hv. 3. landsk. Til sönnunar ætla ég að lesa smáklausu, sem birtist í málgagni Sjálfstfl., Morgunblaðinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Í sjútvn. Nd. eiga sæti tveir úr milliþingan., þeir Jóhann Þ. Jósefsson og Sigurður Kristjánsson. Eftir að fullreynt var, að atvmrh. vildi ekki greiða fyrir þessum málum, fóru þeir Jóh. Jós. og S. Kr. fram á, að sjútvn. flytti frv. — En rauðliðar þrír í nefndinni, þeir Finnur Jónsson (form.). Bergur Jónsson og Páll Þorbjörnsson felldu þá tillögu.

Flytur því sjútvn. aðeins frv. um vátryggingu opinna vélbáta, en þeir Jóh. Jós. og Sig. Kristjánsson flytja hin frv. ásamt nokkrum fleirum sjálfstæðismönnum.

Þessar urðu þá undirtektir stjórnarinnar og rauðu fylkingarinnar, þegar um er að ræða langstórfelldustu umbótamálin, sem nokkru sinni hefir verið farið fram á til viðreisnar hinum hrynjandi sjávarútvegi landsmanna.

Þessir umboðsmenn „hinna vinnandi stétta“ fengust ekki einu sinni til að koma málunum á framfæri á Alþingi:

Þó á öll þessi mikla umbót sjávarútvegnum til handa að byggjast upp af atvinnurekstrinum sjálfum. Ríkið á ekki að leggja fram einn eyri í hreinum útgjöldum, aðeins að leyfa þessum atvinnurekstri að reisa sig við, með því að sleppa hinum beina skatti á framleiðslunni — útflutningsgjaldinu.“

Vitanlega dettur mér ekki í hug, að hv. 6. þm. Reykv. eða hv. þm. Vestm. beri ábyrgð á greinum þeim, sem koma í Mbl., enda er það nú orðin venja þeirra sjálfstæðismanna að afneita öllu, sem birtist í blöðum þeirra, og jafnvel neita að þiggja það að gjöf. En hvað sem því líður, annaðhvort hafa þeir skýrt Mbl. rangt frá eða a. m. k. ekki skýrt frá þeim ástæðum, sem við færðum fram fyrir því, að við gætum ekki þá þegar orðið við þeim tilmælum. Mér skildist af viðtali, sem ég átti við hv. 6. þm. Reykv., að hann hefði eingöngu skýrt Mbl. frá því, að fellt var að flytja frv. af nefndinni. Þeir hafa því gert sig seka um fölsun á málsmeðferð. Mér kemur það ekkert einkennilega fyrir sjónir með hv. 6. þm. Reykv., því hann hefir verið keppinautur minn í framboði til þings, og ég veit, að hann er ekki vandur að virðingu sinni og á til að hagræða sannleikanum sér í vil. En hitt kom mér einkennilega fyrir sjónir með hv. þm. Vestm., því ég hefi ekki þekkt hann að slíku fyrr. En nú skal ég upplýsa fyrir alþjóð, hvað hæft er í þessum ummælum, hver sannleikurinn er í þeim fregnum, sem þessir menn eru búnir að síma út um allt land. Þá skal ég sanna, að það kom fram slík krafa, að enginn óvitlaus maður hefði gengið að henni eins og sakir stóðu. Vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa upp úr fundargerð frá 9. fundi sjútvn., sem haldinn var þann 30. okt.:

„IV. mál. Jóhann Jósefsson og Sig. Kristjánsson báru fram svo hljóðandi till.:

„Nefndin samþykkir að flytja þau frv. frá milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum, sem atvinnumálaráðherra afhenti n. hinn 27. þ. m.“ Till. var borin undir atkv. og felld með 3:2 atkv. Meiri hl. (FJ, BJ og PÞ) greindu þær ástæður fyrir mótatkvæðum sínum, að frv. væri í prentun og hefðu þeir ekki átt neinn kost á að lesa frv., en FJ hafði að vísu lesið frv. fljótlega yfir einu sinni.“

Hv. þm. hafa tekið eftir, hvaða ástæður það eru, sem við hv. 3. landsk. bárum fram fyrir því, að við gátum ekki samþ. till. hv. sjálfstæðismanna í sjútvn. um að flytja þetta frv. Þetta er sannleikurinn, og þetta vita þessir hv. þm. báðir. Samt leyfa þeir sér að bera í opinber blöð, að við „rauðliðar“, sem þeir svo kalla, höfum viljað drepa málið. Ég vil bera það undir athugun hvers einasta þm., sem hér er viðstaddur, hvort honum mundi ekki hafa farizt á sama veg og okkur. Ég get lagt eið út á það hvenær sem er, og sama býst ég við að hv. 3. landsk. geti líka, að við höfðum ekki séð einn staf af frv. Hvernig gátum við þá á þessari stundu samþ. till. um að flytja frv. inn í þingið?

Til upplýsingar þessu máli skal ég geta þess, að 27. fyrra mánaðar — næstsíðasta laugardag — var haldinn aukafundur í sjútvn. í ráðherraherberginu. Þar mætti hæstv. atvmrh. og lagði fram frv. mþn. í sjávarútvegsmálum, þar með frv. um Skuldaskilasjóð útgerðarmanna og frv. um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands. Á þeim fundi tók hann fram ástæður sínar fyrir því — eins og hv. 6. landsk. réttilega tók fram — hvers vegna hann vill ekki leggja með því, að frv. sé flutt. Hinsvegar var ekkert bókað, hvorki eftir mér, hv. 3. landsk., hv. þm. Ísaf. né hv. sjálfstæðismönnum í n. Hvorugur þeirra sagði eitt einasta orð, hvorugur bað um nokkra bókun, og virtust þeir alveg ganga inn á ástæður hæstv. atvmrh.

Sömu mennirnir komu svo á þriðja degi, þriðjud. 30. okt., með till. í sjútvn. um að flytja þessi tvö frv. Þó vissu þeir, að form. n. fór burt með frv. af fundinum beina leið í prentsmiðjuna, til þess að því yrði útbýtt meðal þm. daginn eftir. Sá frestur til að greiða atkv. um þessa till., sem hv. sjálfstæðismenn fóru fram á, til miðvd. 31. okt., hefði ekki komið að gagni, vegna þess að frv. var útbýtt að kvöldi þess dags. Hinsvegar hefði sá frestur, sem form. n. talaði um, fram á fimmtudag, mátt duga til þess, að þessir hv. þm. hefðu séð frv. prentað sem handrit og gætu kynnt sér það.

Ég ætla ekki að segja, að með þessari framkomu hafi hv. sjálfstæðism. í n. slegið af sér fylgi okkar hv. 3. landsk. við þetta frv. Ég er búinn að segja það áður, að ég vil líta vinsamlega á frv. og láta það ganga fram, ef hægt er. En þetta er a. m. k. tilraun til að skipa okkur í andstöðuflokk, að hrópa okkur út um allt land og segja, að við séum að leggjast á móti nauðsynjamálum þeirra manna, sem eru margmennir í kjördæmum þeirra og yfirleitt í landinu. Þessa lélegu tilraun til lýðskrums fyrirlít ég og mun ekki láta hana hafa nein áhrif á mig.

Hv. 6. þm. Reykv. kvað hæstv. atvmrh. hafa lofað að flytja þessi frv. fyrir mþn. í sjávarútvegsmálum, ef honum líkaði þau. Ég þarf ekki að svara fyrir hann. En vitanlega liggur í hlutarins eðli, að ráðh. getur ekki tekið á sig að flytja frv., þegar það var svo seint tilbúið. Og hvernig stendur á því, að þessir tveir flm., sem báðir eru í mþn. í sjávarútvegsmálum, komu ekki nógu snemma fram með frv., til þess að frv. gæti orðið stjfrv. Sýnist mér skeytið koma úr hörðustu átt til hæstv. atvmrh., þar sem n. á sjálf alla sökina.

Þá vil ég benda á annað atriði. Nál. frá þessari n. hefir enn ekki komið fram. Hv. 6. þm. Reykv. fór hér með langa rollu áðan, sem kunnugir segja, að muni vera inntak nál. En hvernig stendur á, að það er ekki komið á prent? Ef þessir hv. þm. álíta nauðsynlegt, að þingdeildin kynnist rannsókn þeirra í mþn., hvers vegna þá ekki að prenta nál., svo að hv. þm. gæfist kostur á að rannsaka ástæður, svo að þeir gætu tekið afstöðu til frv.? Ef um vanrækslu er að ræða, þá er hún eingöngu hjá þessum hv. þm. sjálfum. Og þó að þeir reyni nú einhverja útúrdúra eða kattarþvott, til þess að bera í bætifláka fyrir þessa óheilu lýðskrumaraframkomu sína, þá mun þeim ekki takast. Þessi grg., sem ég ber fram, sem báðir þessir hv. þm. vita að er sönn, hún kemur í blöð landsins og mun sýna, hverjir það eru, sem leika loddaraleik frammi fyrir hinni íslenzku þjóð.