05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (4106)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Atvmrh. hefir að mestu tekið af mér ómakið í þessu máli. Ég vil aðeins, vegna þess hve stórvægilegt þetta mál er, segja fá orð, frá því sjónarmiði, hver áhrif samþykkt þessa frv. hlýtur að hafa á tekjuöflun ríkissjóðs. Ég vil benda á það, að hv. flm. eru allir þingm. Sjálfstfl., og ég skoða því þetta frv. sem fram komið frá þeim flokki.

Eins og kunnugt er, er í frv. farið fram á, að útflutningsgjald af sjávarafurðum renni í Skuldaskilasjóð. Í samræmi við það, sem áætlað er, kemur þetta frv. til með að baka ríkissjóði um 750 þús. kr. útgjöld á næsta ári, ef það nær fram að ganga, jafnhliða þeirri breytingu, er verður á Fiskveiðasjóði og hefir í för með sér 160 þús. kr. aukin útgjöld. Hv. sjálfstæðismenn hafa á þessu þingi borið fram tvö frv., sem hafa í för með sér rúmlega 800 þús. kr. aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Hv. sjálfstæðismönnum hefir verið bent á það, að fjárlagafrv. er lagt fyrir þingið með 1 millj. og 800 þús. kr. tekjuhalla. Þrátt fyrir það hafa þeir beitt sér gegn öllum leiðum til tekjuöflunar, en hinsvegar lagt fram tvö frv., er hafa í för með sér rúmlega 800 þús. kr. aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Ef frv. þessi næðu fram að ganga, mundi halli fjárl. nema um 2 millj. og 700 þús. kr. Auk þessa hafa hv. sjálfstæðismenn borið fram margar fleiri till. um æðimikil aukin útgjöld. Það virtist ekki nema sanngjarnt, að hv. flm. reyndu að gera grein fyrir því, hvernig með skuli fara, ef halli fjárl. kemur til með að nema 2 millj. og 700 þús. kr. Hv. sjálfstæðismenn hafa beitt sér gegn öllum leiðum til tekjuöflunar, en svo framarlega, sem þeir benda ekki á neinar leiðir í þá átt, er varla hægt að taka þetta frv. alvarlega. Það hvílir sú skylda á hv. flm., að þeir reyni a. m. k. að gera grein fyrir því, á hvern hátt till. yrði framkvæmd. Þótt mikil löngun kunni að búa með þessum mönnum til þess að taka sig vel út og flytja stór frv., ættu þeir að eiga þá ábyrgðartilfinningu. (JakM: Guð hjálpi mér! — ÓTh: Almáttugur!). Já, mig skal ekki furða á því, þótt þessir menn ákalli sér eitthvað æðra og máttugra, því að það er ekki auðvelt að sjá, hvernig flokkurinn ætlar að standa að þessu. Ég tel mér skylt að benda á þetta við 1. umr. frv. Hitt er rétt, að þetta eru þörf mál, er nú bíða úrlausnar, en fyrir þessar sakir verður frv. ekki afgr. óbreytt.