05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (4111)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Jóhann Jósefsson:

Það er í sjálfu sér gott að heyra, að það er þó einn hv. þm. úr stjórnarliðinu, sem lýsir því yfir, að hann vilji fylgja þessu mikla nauðsynjamáli.

Mér þykir satt að segja ræður manna hafa snúizt mjög um það, hvernig þetta mál er komið í deildina, þ. e. a. s. þeirra, sem virðast ekki vera málinu fylgjandi.

Hv. þm. Barð. sagði, að þetta mál væri flutt af lýðskrumi. Þetta eru mjög ómakleg orð í okkar garð. Tildrög þessa máls hafa skapazt víðsvegar í landinu út af þeirri sterku þörf, sem sjávarútvegurinn hefir nú fyrir stuðning í þessum efnum, og hinsvegar við það, að Alþingi hefir afgr. stórfellda löggjöf til hjálpar bændum. Á þeim tveim meginstoðum hvílir þetta frv., þörf sjávarútvegsins annarsvegar og jafnrétti við hinn aðalatvinnuveg landsins hinsvegar.

Hæstv. atvmrh. og ég vorum einskonar samherjar í því, þegar l. um Kreppulánasjóð voru á ferðinni, að gera tilraun til þess að láta ákvæði þeirra l. ná að einhverju leyti til smáútgerðarinnar. Þá var því vísað á bug af þeim ráðandi flokki, sem þá var Framsfl., á þeim grundvelli aðallega, að það vantaði allar upplýsingar um það, hvernig hag sjávarútvegsins væri komið. Þál. frá 1933 spratt af þeirri þörf að rannsaka ástandið og finna grundvöll til þess að byggja hjálpina til útvegsins á. Störf mþn. hafa gengið í þá átt og fram á þennan dag hefir verið unnið á þessum grundvelli að þessum málum, en alls ekki af lýðskrumi, eins og hv. þm. Barð. lét sér sæma að viðhafa um n. og þá menn, sem flytja þetta mál hér í d.

Að því er snertir undirbúning frv., þá er búið að lýsa því fyrir hv. dm., að mþn. gerir stj. fyrst kunnar sínar till. í aðalatriðunum í septembermánuði. Það má meira að segja heita, að frv. hefði verið óbreytt, þegar því svo 10. okt. var skilað til hæstv. atvmrh. með eindreginni ósk frá mþn. um, að þessi mál yrðu lögð fyrir Alþ. Þá 17 daga, sem hæstv. atvmrh. hafði þessi mál með höndum, átti ég oft tal við hann um þau, til þess að ýta á eftir þeim, og æskti ég þá eftir, að meðmæli stj. fylgdu. Hæstv. atvmrh. sagðist þá hafa yfirvegað þessi mál og talað um þau við sína flokksmenn. Þetta hefir hv. 3. landsk. líka staðfest, þó í raun og veru þyrfti þess ekki með, því vitanlega hefir hæstv. ráðh. sagt satt. En hv. 3. landsk. staðfesti, að hann hefði verið búinn að fá vitneskju um efni þessa frv. hjá hæstv. ráðh. áður en fundurinn í sjútvn. var haldinn. Þessi fundur, sem hæstv. ráðh. sat með n., var haldinn 27. okt. í viðurvist hv. þm. Barð., hv. þm. Ísaf. og hv. 3. landsk. Hæstv. ráðh. lét þess þá getið, að hann treysti sér ekki til þess, vegna peningaástands ríkissjóðs, að mæla með því, að frv. yrði flutt, og lét bóka alllangt mál um það. Nú lýsti hv. þm. Barð. því yfir, að vegna þess að ég og hv. 6. þm. Reykv. hefðum ekki mótmælt bókuninni, þá bæri að skoða það sem við hefðum verið henni sammála. Þetta er algerlega rangt. Við höfðum vitanlega ekkert við það að athuga, sem hæstv. ráðh. lét bóka í n. Það hefði verið ókurteisi af okkur að vera að deila við hæstv. ráðh. út af því, vegna þess sérstaklega, að hann lét þess getið í fundarbyrjun, að hann færi þessa leið, að sitja á fundi með n., í stað þess að skrifa henni. Þetta skeði þá. — En svo 30. okt. er háður fundur í sjútvn., og þá báðum við um, að borin yrði upp þessi till, að málið yrði flutt, því við álitum, að meginstefna frv. væri nm. kunn, og það er líka játað af hv. 3. landsk., að hæstv. ráðh. hafi verið búinn að skýra þeim í flokknum frá frv., og þá náttúrlega hv. þm. Ísaf. líka. Að hv. þm. Barð. hafi ekki fylgzt með þessu, þykir mér næsta ótrúlegt, þar sem hann sat fundinn 27. okt. og heyrði þar talað um málið. En það þarf ekki að deila um þetta, því það var auðfundið, að það var ekki sá andi ríkjandi hjá þessum mönnum, þegar talað var um þetta mál, að þeir væru fúsir á að leggja því lið. Þess vegna sáum við okkur ekki annað fært en að krefjast atkvgr. um það. Nú vildi meiri hl. í n. fresta því til næsta reglulegs fundardags. Ég bað þá um það, að frestað væri ákvörðun til næsta dags, og þá var gert ráð fyrir því, að nm. yrðu búnir að fá málið í hendur. Það er ekki rétt hjá hv. þm. Barð., að þessi frestur þýddi það, að þeir gætu ekki kynnt sér málið, heldur þvert á móti, að þeir gætu kynnt sér málið og tekið afstöðu til þess næsta dag. En því var líka hafnað. Hv. þm. Ísaf. viðhafði þau orð, að hann gæti engu um það lofað, og þar með sáum við, að það var í sjálfu sér ráðið að vera þessu máli frekar til trafala heldur en hitt. Og þetta, sem hv. þm. Barð. hefir borið hér fram, er engin afsökun fyrir hann, að hafa skorizt úr leik við að flytja frv., því hann er svo vel að sér, að hann þarf eigi að stafa sig fram úr hverri grein frv. eins og þessa, sem hér er til umr., til þess að geta látið í ljós, hvort hann er fylgjandi meginhugsun frv. eða ekki. Þetta er bara ein tegund af flótta frá sínu eigin ósjálfstæði, því vitanlega var engin ástæða fyrir hann að vilja ekki styðja þetta mál önnur en sú, hvað hv. þm. Ísaf. tók kuldalega í það, að málinu yrði sinnt í n. Hv. þm. Barð. las upp nokkuð af því, sem bókað var á þessum fundi, en hann las það ekki allt, ekki það, að ég lét bóka til athugunar í framtíðinni gegn þeirri staðhæfingu hv. þm. Ísaf., að hann væri ekki búinn að kynna sér þetta, að bæði þessi frv. hafa legið fyrir fiskiþinginu, og þar hefir hv. þm. Ísaf. átt sæti. Hv. þm. hefir því haft tækifæri til þess að kynna sér þetta mál, og vitanlega vissi hann, hvað hér var um að ræða, en það var aðeins það, að hann vildi ekki fylgja okkur í því að koma málinu fram. Þegar svona var í pottinn búið, getur enginn láð þeim mönnum, sem virkilega vita, hvernig ástandið er og hversu brýna þörf sjávarútvegurinn hefir fyrir þessa stoð, þó að þeir kæmu málinu á framfæri á annan veg, úr því að sýnt var, að meiri hl. n. vildi ekki styðja að því.

Það er einkennilegt, að þetta kapp hjá hv. þm. Barð. — og einnig nokkuð hjá hæstv. atvmrh. — gekk mest út á það að færa rök fyrir því, hvers vegna svona mál ætti ekki að ganga fram á þinginu. Hv. þm. hafa ráðizt á einstakar gr. frv. og reynt að gera þær tortryggilegar. M. ö. o., það er í rauninni neikvæð afstaða, sem hv. þm. og hæstv. ráðh. hafa til málsins. Hæstv. ráðh. var að tala um það, að ekki hefði verið búið að útbýta nál. mþn. og því hefði ekki verið frambærilegi að bera þetta mál fram strax. Í grg. frv. er alveg nægilega mikið tekið upp af áliti n., að það út af fyrir sig var engin ástæða til þess að draga málið á langinn, þó nál. væri ekki prentað í heild. Nál. er annars sama sem fullprentað, og það getur sjálfsagt verið komið inn í þingið áður en 2. umr. fer fram. En þetta, að verið er að finna alla mögulega agnúa á þessu frv., sýnir bezt þennan óvilja og hina neikvæðu afstöðu, sem tekin var til málsins. En ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að ég harma það mjög, að svona skuli vera tekið í þetta mál, þegar það loks er borið fram. Ég held satt að segja, að það hefði verið tímabært, að mál sem þetta hefði verið borið fram löngu fyrr, og að þeir, sem nú hlaupa hver í kapp við annan að ásaka minni hl. fyrir það að vilja koma málinu á framfæri þrátt fyrir andúð meiri hl., hefðu miklu frekar átt að ásaka þingmeirihl. fyrri þinga fyrir það, að hafa ekki gert meira í þessum efnum en raun er á.

Hæstv. atvmrh. kom með dálítið einkennilega ásökun í garð mþn. í sjávarútvegsmálum, og hæstv. fjmrh. vék líka nokkuð á það lagið. Þessi ásökun var sú, að n. hefði ekki bent á neinu leið til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð í staðinn fyrir það, sem hún leggur til að gangi til sjávarútvegsins. Ég hefi nú hlustað á flestar þær umr., sem fram fóru um kreppulánasjóð, þegar það frv. var borið fram, og ég hefi lesið langa ræðu eftir núv. atvmrh. í því máli, og ég veit ekki til, að neinstaðar sé hægt að finna í þeim umr. samskonar ásökun í garð þeirrar n., sem rannsakaði hag bændanna og kom með umbótatill. á þeirra fjárhag. Það var alls ekki til þess ætlazt og verður ekki til þess ætlazt með sanngirni, að mþn. í sjávarútvegsmálum komi með þess háttar till. á þingi í sambandi við þessi mál. Hún hendir á leið, sem er fær að okkar áliti, og það er þingsins að taka afstöðu til þess, hvort það vill leggja inn á þessa leið til þess að styrkja sjávarútveginn.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að þingið er nú í þann veginn að losa landbúnaðinn við að greiða útflutningsgjald af sínum afurðum. Við, sem flytjum þetta frv., förum fram á það, að sjávarútvegurinn haldi að vísu áfram að greiða sitt útflutningsgjald, en að því sé varið til þess að byggja upp þennan sama atvinnuveg. Sé þessi leið ekki álitin fær til þess að byggja upp sjávarútveginn, þá veit ég satt að segja ekki, hvaða leið stj. vill fara í þessu efni, a. m. k. hefir ekki komið fram frá henni till. í aðra átt, en ákaflega mikill semingur og andúð móti því, að þetta verði gert til viðreisnar sjávarútveginum.

Hæstv. fjmrh. lét sér sæma að fara um þessi mál þeim orðum, að þetta væri ekki til þess að taka alvarlega. Ég ætla ekki að eyða neinum orðum við hæstv. ráðh. út af slíkum staðhæfingum. Hann mun finna það þessi hæstv. ráðh. á sínum tíma, að það er miklu meiri neyð og þröng fyrir dyrum hjá sjávarútvegsmönnum víðsvegar um landið en svo, að það sé sæmandi fyrir nokkurn mann í ábyrgðarstöðu hjá ríkinu að tala um það, þegar borin er fram till. eins og þessi, sem hér liggur fyrir, að það sé varla í alvöru.

Þetta mál fer vonandi til n., eins og hv. frsm. hefir óskað, og það verður þá tækifæri til þess fyrir þá sjútvnm., sem ekki vildu flytja þetta mál, að endurskoða sína afstöðu til þess.

Ég vil geta þess í sambandi við hv. 3. landsk., að eftir að hann hafði greitt atkv. móti því, að málið yrði flutt af n., lét hann svo um mælt við mig, að hann væri ekki frá því að gerast flm. þess, — þó ekki yrði nú úr því. En það gleður mig að heyra, að hann virðist hallast að því, að hér þurfi eitthvað að gera, og er þá að sjá, hvað vel hann reynist.

Annars er búið að tala hér allt of mikið um lítilsvert atriði í þessu máli. En það er fulltrúi Framsfl. í sjútvn., sem hefir staðið fyrir því. Hitt verð ég að vona í lengstu lög, að hv. þm. sjái, að það er ekki unnt að láta fátæka útvegsmenn eiga lengur í því basli og þeirri baráttu, sem þeir eiga nú við að stríða, án þess að löggjafinn a. m. k. geri tilraun til þess að létta undir með þeim.

Hæstv. atvmrh. lagði áherzlu á það, að hann hefði látið það uppi við mig í viðtali, að honum virtist aðalatriðið vera það, að þessi atvinnuvegur stöðvaðist ekki, bæði vegna þeirra manna, sem hann stunda beinlínis, og svo vegna þeirra verkamanna, sem hafa óbeinun stuðning af honum. Þetta er að vísu stórt atriði. En hitt er engu minna atriði, að reisa við þá menn, sem ýmist eru komnir á kné eða jafnvel lengra og orðnir eru óstarfhæfir að andlegum og líkamlegum efnum vegna skulda og basls. Það er engu minna atriði til viðhalds þessum atvinnuvegi að hlaupa undir bagga með þessum mönnum, því það standa fleiri verðmæti hér á spili heldur en beinlínis bátar, húseignir og veiðarfæri og því um líkt. Það standa dýrmætustu verðmæti þjóðarinnar í hættu, og þau eru vinnuþrek þeirra manna, sem þennan atvinnuveg stunda: það er sálarþrek þeirra til þess að halda útgerðinni gangandi, ef ég mætti svo að orði komast, sem hér er komið í hættu. Útvegsmenn, sem árum saman eru búnir að gera út báta sína og tapa á þeim ár eftir ár, eru komnir í skuldaöngþveiti og mega búast við því hvern daginn, að bankarnir gangi að þeim og geri þá upp. Þessir menn tapa af eðlilegum ástæðum þori og þreki, sem er þó fyrsta skilyrðið til þess, að menn geti ráðizt í að halda áfram þessum atvinnurekstri. Skuldirnar steðja að þeim á alla vegu; hið opinbera heimtar af þeim gjöld eins og ekkert hafi í skorizt; efni og áhöld, sem til útgerðarinnar þarf, kosta engu minna heldur en í fyrra og árið þar áður, svo ekki er við öðru að búast en að heill hópur manna gefist upp af vonleysi um að geta nokkurn tíma rétt úr skuldafeninu. Það er til hjálpar þessum mönnum sérstaklega, sem frv. er stefnt, til þess að gefa þeim trúna á sjálfa sig og traust á það, að e. t. v. muni úr rakna fyrir þeim, ef þeir eru losaðir undan skuldabyrðinni, sem á þá hefir safnazt undanfarin verðfallsár. Ég býst við, að hæstv. atvmrh. sé sá eini í stj., sem hefir haft nokkuð náin kynni af þessari hlið málsins. Ég veit líka af samstarfi við hann á undanförnum þingum, að hann hefir velt fyrir sér margskonar slíkum vandamálum sjávarútvegsins. Ég þarf ekki að tala um mína reynslu í þessum efnum. Það er eðlilegt, að ég þekki vel þær áhyggjur, strit og basl, sem fátækir útvegsmenn eiga við að búa, og ég hefi ástæðu til að ætla, að hæstv. atvmrh. þekki líka vel þessa hlið málsins, en hans hugsunarháttur er bara sá, að það geri ekkert til, þó Pétur eða Páll rúlli, því þá taki bara einhverjir aðrir við; það sé bara um að gera „að reyna að halda þessum atvinnuvegi gangandi“, því þá sé öllu borgið. En þetta er ekki rétt nema að mjög litlu leyti. Þessir menn hafa fengið mikla reynslu, en látið yfirbugast að hálfu eða öllu leyti af erfiðleikunum. Við vitum, og erum daglega sjónarvottar að því, hvernig það gengur, þegar bankarnir ganga að einhverjum manni og hann er tekinn og gerður upp. Það er oft og tíðum gengið að mönnum á bezta aldri með óskertu starfsþreki, bátarnir og húsin eru tekin af þeim og þeir gerðir atvinnu- og athvarfslausir. Hvað skeður svo? Lánsstofnanirnar liggja með þessar eignir í meiri og minni niðurníðslu nokkra mánuði, eða jafnvel nokkur ár, unz lánsstofnunin getur fengið einhvern til þess að taka þetta að sér, og í þeim tilfellum fer lánsstofnunin venjulega miklu neðar en hún hefði þurft til þess að hjálpa eigandanum, sem allt var tekið of. Oft verður svo að lána hinum nýja eiganda stofnfé. Fyrst er maður tekinn og gerður upp. Eftir nokkurn tíma er annar kominn í hans stað, sem lánastofnunin hefir orðið að leggja stofnfé, og hann er gerður upp, og svo koll af kolli. Sérstaklega eins og nú standa sakir er nauðsynlegt að byrja á rétta endanum á þessu máli, og hann er sá, að hjálpa þeim útvegsmönnum út úr skuldaþrengingunum, sem verst eru komnir í þessu efni og hjálpar þurfa, til þess að þeir fái starfað og notið sín við framleiðsluna. Á þann hátt verða að þessu meiri not en ef látin er í té smávægileg hjálp á misjafnlega heppilegum tímum, aðeins að nafninu til, til þess að bátar og aðrar eignir lánsstofnananna séu starfræktar, þótt e. t. v. megi segja, að útgerðin stöðvist ekki með því móti. Ég vona, að allir hv. þdm., og þeir bændur, sem hér eiga sæti, ekki síður en aðrir, sjái, að hér er um að ræða nauðsynjamál, ekki einungis fyrir sjávarútveginn, heldur einnig fyrir alþjóð, og að þetta þing líði ekki svo, að ekki séu gerðar þær ráðstafanir, sem hér er farið fram á, til þess að rétta útveginum þá hjálparhönd, sem hann svo ákaflega mjög þarfnast. Einn af hv. þm. jafnaðarmanna sagði hér á dögunum setningu, sem ég gjarnan vil taka undir, og tók undir þá strax, ég held það hafi verið hv. 6. landsk., sem sagði hana, að um þjóðþrifamálin þyrfti að sameinast án þess að fara í flokkadeilur. Ef ég hefi ekki orðin rétt eftir, þá bið ég hv. þm. afsökunar á því, en hygg, að þessi hafi verið meiningin í þeim. Og þetta mál er eitt af þeim, sem Alþ. verður að standa saman um að leysa.