05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (4112)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Finnur Jónsson:

Ég þarf ekki að bæta miklu við þær yfirlýsingar, sem hv. þm. Barð. og hv. 3. landsk. hafa gefið um afgreiðslu þessa máls í sjútvn. Þetta mál er flutt með þeim eindæma hætti, að tveir nm. í sjútvn. heimta það af öðrum nm., að þeir flytji frv., sem þeir hafa ekki séð. Það hefir verið upplýst hér af hv. þm. Barð., að samstundis og n. fékk frv. í hendur, þá var spurt um það, hvort nægilega mörg eintök af því mundu vera til hjá mþm. í sjávarútvegsmálum, svo að hver nm. í sjútvn. gæti fengið eitt eintak. Því var svarað neitandi, og á þeim fundi í sjútvn. voru aðeins tvö eintök af frv., annað mun atvmrh. hafa fengið og hitt var n. ætlað. N. ákvað að taka þegar þetta frv., sem henni hafði borizt, og láta prenta það sem handrit, og láta svo útbýta því meðal þm. Greiðari afgreiðslu var ekki hægt að hafa á þessu máli, eftir að það barst n. Næsta þriðjudagsmorgun, þegar fundur var haldinn í sjútvn., komu þeir hv. þm. Vestm. og hv. 6. þm. Reykv. síðan fram með þá till., að n. flytti þetta frv., sem var í prentun og tveimur nm. hafði ekki gefizt kostur á að lesa. Ég óskaði þá eftir, að atkvgr. um þessa till. yrði frestað til fimmtudags. Hv. þm. Vestm. vildi ganga inn á, að henni yrði frestað til miðvikudags, og gerði þá ráð fyrir, að frv. mundi liggja fyrir prentað þegar á þriðjudagskvöld, en það kom í ljós, að frv. var ekki tilbúið fyrr en eftir hádegi á miðvikudag, að því er ég bezt man. (JJós: Hv. þm. neitaði að verða við tilmælum mínum, án þess að hann vissi þetta). Ég neitaði því vegna þess, að ekkert lá fyrir um það, að frv. yrði tilbúið svo fljótt. Ég gerði ráð fyrir því, að þó að við fengjum frv. á þriðjudagskvöld, þá yrði naumur tími til þess að átta sig á þessu stórmáli rétt yfir blánóttina. Ég veit, að hv. þm. Vestm. og hv. 6. þm. Reykv. dettur ekki í hug að mótmæla því, að tveir nm. höfðu alls ekki séð frv. í þann mund, sem þeir kröfðust þess af þeim, að þeir tækju þátt í að flytja það. Þeim lá svo mikið á að kljúfa sjútvn. í þessu máli, að þeir vildu ekki bíða til næsta reglulegs fundar, þegar víst var, að allir nm. væru búnir að fá frv. og lesa það. Þessum tveimur hv. þm. lá svo mikið á að koma þessu máli út sem flokksmáli, takandi ekkert tillit til þess, að ef til vill gátu þeir fengið alla n. óklofnu um málið, og greitt þannig götu þess gegnum þingið. Þetta gefur mér tilefni til þess að kveða upp þann dóm yfir þessum þm., að þeir vitandi vits og með ráðnum huga hafi hagað sér þannig í n., til þess að koma í veg fyrir, að aðrir yrðu flm. þessa frv. en þeir sjálfir og flokksmenn þeirra.

Hv. þm. Vestm. hefir borið það fram hér, að ég hafi sérstaklega haft tækifæri til þess að kynnast málinu, af því að ég hafi setið á fiskiþinginu og tekið þar þátt í meðferð málsins. Ég hefi látið bóka það í fundargerðabók sjútvn., að ég hafi ekki verið á þeim nefndarfundum í sjútvn. fiskiþingsins, þegar þetta mál kom þar til umr., og ennfremur lét ég þess getið þar, að þetta mál hefði ekki verið rætt á fiskiþinginu. Nál. kom fram síðasta dag þingsins, nokkrum mín. áður en þingfundi var slitið, og var borið undir atkv. þar órætt, og marðist í gegn með 5:4 atkv., að ég held.

Hv. þm. Vestm. lýsti því hér á deildarfundinum áðan með miklum alvöruþunga, hvert öngþveiti sjávarútvegurinn væri kominn í, og hann lýsti þeirri þörf, sem væri á því að bæta úr þessu öngþveiti sjávarútvegsins. Nú þykir mér fyrir því, að hv. þm. skuli hafa leyft sér að viðhafa þá afgreiðslu á þessu máli, sem hann hefir haft á því og talið sér sæmandi. Mér þykir fyrir þessu ef honum er það eins mikil alvara eins og hann lætur, að bæta úr öngþveiti sjávarútvegsins. En ég efast um það, að þetta sé honum svo mikið alvörumál sem hann lætur, af því að hann hefir leyft sér að viðhafa þessa meðferð á málinu, sem fram hefir komið. Því að vitanlega var það svo, að til þess að tryggja framgang þessa máls og til þess að vera viss um, að það fengi sem beztar undirtektir hjá þinginu. var sú ein leið, að fá þm. úr öllum flokkum til þess að flytja frv. En með framkomu sinni í sjútvn. hafa þeir hv. þm. Vestm. og hv. 6. þm. Reykv. sýnt, að þeim hefir engin alvara verið með að fara þessa leið til þess að tryggja framgang frv. Alvöruleysi þessar, hv. þm. kemur bezt fram í ummælum hv. þm. Ak. í þessu máli, þegar hann, á sama tíma og hann flytur þetta frv., sem gerir ráð fyrir því, að útflutningsgjald af sjávarafurðum gangi allt til þess að létta skuldum af sjávarútveginum, gerir till. um að verja talsverðum hluta af þessu útflutningsgjaldi til allt annars, og lýsir því yfir um leið, að hann búist ekki við, að þetta mál fái afgreiðslu hér í þessari hv. d., og þetta gerir hann áður en málið kemur til umr. í d.

Ég ásaka og áfelli þessa hv. nm. úr mþn. í sjávarútvegsmálum fyrir það, að þeir hafa gert allt, sem í þeirra valdi stóð, til þess að gera þetta að flokksmáli hér í d.

Það er vitanlegt, að þó að ekki sé nein leið til þess að flytja þessi frv. óbreytt, þá getur það hæglega sýnt sig við athugun í sjútvn., að hægt sé að taka einhvern hluta af skuldum sjávarútvegsmanna og reyna að koma þeim á réttan kjöl þegar á þessu þingi. Einn ónefndur þm. hefir lýst því yfir hér í d., að ég hafi séð þessi frv. og talið mig andvígan þeim. Þetta eru alger ósannindi, og ég hefi aldrei haft aðstöðu til þess að tjá mig þeim andvígan. Það eina, sem gæti hafa komið fram sem afstaða Alþfl. gagnvart málinu og um leið afstaða mín, er sú bókun atvmrh. á sjútvn.fundi, þar sem hann æskir þess, að við lökum til athugunar, hvort ekki sé unnt að taka skuldir smáútvegsins og leggja til, að á þeim verði gerð nokkur skuldaskil þegar á þessu ári. (JJós: Greiddi hv. þm. ekki atkv. um þetta mál á fiskiþinginu?). Ég hefi þegar skýrt frá meðferð þessa máls og atkvgr. á fiskiþinginu. (JJós: Hvernig greiddi hv. þm. atkv.?). Ég er nú ekki á fiskiþinginu sem stendur, og sé því ekki ástæðu til þess að fara nánar út í það atriði. En ég vildi fara nokkrum orðum um þá eftirtektarverðu staðreynd, sem hv. 6. þm. Reykv., l. flm., benti á, nefnilega hvað lítið fé stendur í sjávarútveginum. Og manni verður að spyrja: Hvað hefir orðið af öllu því fé, sem sjávarútvegurinn hefir borið á land? Ég er á því, að hv. 6. þm. Reykv. hafi gert flokksbræðrum sínum óleik með því að sýna fram á þetta, hve lítið fé raunverulega stendur í útveginum, ef lítið er til þess, hve mikið verðmæti hefir borizt á land. Hvað hefir orðið af þessu fé? Það hefir farið í að borga hallann af útgerðinni, segir hv. þm., — já, en það hefir líka farið í há framkvæmdastjóralaun og óhæfilegan ágóða borgaðan af févana félögum. Ásamt þeim vandræðum, sem kreppan hefir nú leitt yfir útveginn, er skipulagsleysi atvinnuvegarins og forsjárleysi forráðamannanna vafalaust orsök í vandræðum útvegsins nú. — Og viðvíkjandi þeirri meðferð, sem tveir hv. nm. úr mþn. í sjávarútvegsmálum leyfðu sér að hafa á þessu máli í sjútvn., vil ég ítreka frásögn hv. þm. Barð., að enn liggur ekki fyrir n. nál. mþn. eða fullnaðarskýrslur um störf hennar. Það er auðskilið, að þm., sem hafa unnið að þessum málum í heilt ár, hafi haft tækifæri til þess að kynna sér málið, eftir því sem tök eru á, og geti komið á nefndarfund og sagt hvort þeir vilji vera með í því að flytja frv. sem þetta. En að heimta, að nm., sem hvorki hafa lesið skýrslu mþn. né haft tækifæri til þess að fylgjast með störfum hennar, flytji svona frv. athuganalaust, það er að ganga of langt, svo ekki sé meira sagt. Það má vera, að 250 þús. kr. í eitt skipti fyrir öll og eftirgjöf útflutningsgjalds í 6 ár geti létt svo undir með sjávarútvegsmönnum, að þeir fái einhverja samninga við lánardrottna sína. En ég vil þó fá að kynna mér þetta betur áður en ég legg nokkurn dóm á það. En sé þetta rétt, er ástand sjávarútvegsins ekki eins hrapallegt og hv. þm. Vestm. lýsti því, og eins og ég held að það sé. Nei, það er of mikil bjartsýni að halda, að með þessu séu lyst vandræði útvegsins, allt frá smábátaútgerð upp í togara. En hitt er líklegt, að þetta nægði til þess að leysa úr vandræðum viss hlutu af smærri útgerðinni. Þetta vildum við í sjútvn. fá að athuga. En ekki var við það komandi að fá svo mikið sem eins dags frest til athugunar. Hv. þm. Vestm. kvartaði yfir því, að umr. beindust of mikið að því, hvernig frv. væri inn í d. komið. Hann má sjálfum sér um kenna, þó að talað sé nokkuð um það, með hvaða fádæmum mþn. í sjávarútvegsmálum hefir leyft sér að koma þessu frv. inn í d. — Hv. þm. Vestm. sagði ennfremur, að það hefði verið auðfundið í sjútvn., að við. meiri hl. hennar, værum ófúsir á að leggja málinu lið. Þessari ásökun kastar þm. fram algerlega órökstuddri, og það eftir að hann er búinn að neita okkur um möguleika til þess að sýna hug okkar til málsins. Hvers vegna gerði hv. þm. þetta? Var hann hræddur um, að við kynnum að sýna málinu of mikið liðsinni? Ég verð að álíta, að hann af pólitískum ástæðum hafi ekki viljað gefa n. tóm til að taka ákvörðun í málinu, áður en það kæmi til umr. hér í d. Fullnaðarákvörðun get ég enga tekið um málið fyrr en nál. og skýrsla mþn. liggja fyrir, þess er ekki hægt að krefjast með nokkurri sanngirni. Ég vil skora á hv. þm. Vestm. að beita sér fyrir fljótri afgreiðslu þessara plagga frá n., og þegar þau liggja fyrir sjútvn., er fyrst ástæða til þess að krefjast fullnaðarákvörðunar frá henni um þetta mál. — Það er vitanlega engin afsökun, sem kom fram í ræðu eins hv. þdm. áðan, að ekki hefði verið um það spurt, hvaðan taka ætti peningana, þegar um hjálpina til landbúnaðarins var að ræða. Við verðum að spyrja um það í sambandi við kreppuráðstafanir til handa sjávarútveginum, hvaðan á að taka fé til þeirra. Og ennfremur: Verður svo mikið gagn að þessum ráðstöfunum, sem hér er farið fram á, að þær réttlæti þann tekjumissi, sem ríkissjóður verður fyrir? Þessum spurningum er ekki hægt að svara án þess að hafa kynnt sér skýrslu mþn., og verður það því að bíða þar til hún liggur fyrir.