05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (4114)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Ólafur Thors:

Ræður hv. stjórnarliða í þessu máli gefa von um það, að þótt þeir hingað til hafi reynzt tregir, já, ófáanlegir til þess að gerast stuðningsmenn þessa þjóðþrifamáls, þá muni þeir að athuguðu máli sjá sér þann kost vænstan að fylgja því. Mér er þetta gleðiefni, ég sé í þessari afstöðu aukna von um framgang þessa þjóðnytjamáls. En því er ekki að leyna, að við sjálfstæðismenn töldum mestar líkur til þess, að málið næði fram að ganga nú á þinginu, ef það væri borið tafarlaust fram. Hér er um svo mikið nauðsynjamál að ræða, að við vissum, að strax þegar fregnin um frv. kæmist út meðal almennings, mundi skapast svo mikil samúð með málinu hjá þurfandi útgerðarmönnum og sjómönnum, að hún mundi nægur sproti á þá þm., sem ekki fengjust til þess að fylgja málinu að öðrum kosti. Þessi spádómur hefir rætzt nú þegar, og ég vona, að við flm. verðum ekki heldur fyrir vonbrigðum um framgang málsins. Hitt er aukaatriði, þótt vert sé að minnast á það, tilraunir hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Barð. til að villa fólki sýn um það, hvers vegna þeir eru nú með frv. Og hv. þm. Ísaf., sem nýtur þess óverðskuldaða heiðurs að vera form. sjútvn., og hefir sem slíkur skyldu til þess að kynnu sér öll þau mál, er koma fyrir þingið og að sjávarútvegi lúta, hann bregzt þeirri skyldu sinni algerlega. Honum var í lófa lagið að kynna sér þetta mál þá 17 daga, sem flokksbróðir hans, atvmrh., hafði það í sínum vörzlum. Og það er raunar upplýst, að hv. þm. Ísaf. var búinn að kynna sér málið, eftir því sem hans takmörkuðu hæfileikar leyfðu, og það er því hinn aumlegasti kattarþvottur, þegar hann reynir að afsaka andúð sína í málinu með ókunnugleika. En nú hefir almenningsálitið knúð hann og félaga hans til fylgis við málið. Og þessi þm., sem stöðu sinnar vegna á að vera forvígismaður sjávarútvegsmálanna í þessari hv. d., hann átti að láta sér nægja þá vitneskju, að högum útvegsins er nú svo komið, að eignir útvegsmanna eru ekki taldar meiri en svo í samanburði við skuldir, að skuldirnar nemi 82% af eignunum, — hann átti að láta sér nægja þessa vitneskju til þess að gerast tafarlaust og einlæglega stuðningsmaður þessa frv. En þetta er nú aukaatriði. Aðalatriðið er það, að við höfum knúð hann og aðra stjórnarliða til fylgis við málið. Ég met að vísu ekki mikils stuðning hv. þm. Ísaf. við þetta mál eða önnur. Þó er ekki fyrir það að synja, að hann hefir atkvæðisrétt hér á þingi, og er rétt að nota sér það í þeim fáu tilfellum sem hægt er að nota þau réttindi hans í þjónustu góðs málefnis. — En ég vil leyfa mér að bera upp sömu spurningu fyrir þennan hv. þm. og hv. þm. Vestm. greip fram í ræðu hans með: Hvernig greiddi hv. þm. Ísaf. atkv. um mál þetta á fiskiþinginu? Ég vænti þess fastlega, að þm. svari þessu, og þvoi af sér þann grunsemdarblett, að hann hafi byrjað óvild sína við málið með því að leggja á móti meðmælum fiskiþingsins með því. En reynist þessi grunur að vera réttur, stendur hv. þm. svo ber uppi í þessu máli, að honum komat engar varnir að liði.

Hv. þm. Barð. fór að bregða mér um ósæmilega framkomu sem þm., form. Sjálfstfl. o. s. frv. Ég veit, að ég þarf ekki að deila um það við neinn, allir hv. þdm. munu mér sammála um það, að einmitt þessi hv. þm. ætti ekki að ráðast á aðra með slíkum ásökunum. Ég vil þó taka fram nokkur atriði viðvíkjandi þessari persónulegu árás á mig. Hv. þm. hélt því fram, að innan míns flokks væri mikil óánægju með mig sem flokksformann. Ég skal fræða þennan hv. þm. á því, að á sameiginlegum fundi miðstjórnar Sjálfstfl. og þingflokksins var ég kosinn formaður flokksins með öllum atkvæðum nema tveimur, og var það atkv. mitt og hv. þm. Snæf., sem ekki kunni við það að greiða bróður sínum atkv. í slíka virðingarstöðu. Ég held, að hv. þm. Barð. mætti þakka fyrir slíka einingu í sínum flokki. Þar var ekki fyrir alllöngu gerð tilraun til að sparka formanni flokksins úr því embætti. Núverandi forsrh. átti að verða formaður flokksins, en snérist á síðustu stundu gegn þessari stjórnarbyltingu. Þrátt fyrir það dreifðust atkv. mjög mikið og fékk hann þannig 5 atkv. af 15, en núv. formaður hlaut af þessum ástæðum meiri hluta. Ég segi þetta ekki af því, að ég sé þar með að halda fram, að ég hafi þetta meiri foringjahæfileika en formaður Framsfl., heldur til þess að benda bæði hv. þm. Barð. og öðrum á það, hversu mikil eining ríkir í Sjálfstfl.

Ég veit ekki, hvort ég á að taka það, sem hv. þm. Barð. sagði um efni,hlið þessa máls, í alvöru. Hann réðist á mig með mesta þjósti fyrir það, að ég hefði lagt þann skilning í 2. gr. frv., að sem stofnfé Skuldaskilasjóðs skuli fyrst og fremst talið framlag Fiskveiðasjóðs, 250 þús. kr., og þar að auki tekjur þær, sem ákveðnar eru í 2. lið 2. gr., nefnilega útflutningsgjald af sjávarafurðum næstu 6 árin. Og þessi hv. þm., sem er lögfræðingur og sýslumaður, hellti sér út yfir þá fáfræði mína, að ég skyldi telja annað til stofnfjárins en það, sem lagt væri fram strax. Ég skil ekki í öðru en hv. þm. viti, hvað þessi skilningur er ákaflega algengur í löggjöfinni.

En með leyfi hæstv. forseta ætla ég til frekari fullvissu að fræða hv. þm. Barð. um þetta. Ég skal benda hv. þm. á, að í lögum um Búnaðarbanka Íslands, nr. 31 14. júní 1929, stendur þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Ennfremur leggur ríkissjóður deildinni til stofnsjóð, að upphæð 300 þús. kr., er greiðist með 50 þús. kr. árlegu tillagi úr ríkissjóði um næstu 6 ár.“ Hér hefir löggjafinn í þessu máli sem mörgum öðrum talið það stofnfé, sem ætlað er stofnuninni. en byggt á fyrirheiti um greiðslu. Ég get bent á fleiri dæmi, sem sanna hið sama, t. d. lög um Landsbanka Íslands, nr. 10 15. apríl 1928. Þar segir í 5. gr.: „Innskotsfé það, 2 millj. króna, er ákveðið var með lögum nr. 30 10. nóv. 1913, að ríkissjóður legði Landsbankanum, skal teljast stofnfé seðlabankans. Auk þess skal ríkisstjórninni heimilt að leggja fram úr ríkissjóði viðbótarstofnfé handa seðlabankanum, allt að 3 millj. króna.“ — Nú hlýtur hv. þm. Barð. að vita, að þessi lög frá 1913 mæla svo fyrir, að ríkissjóður greiði Landsbankanum 100 þús. kr. á ári í 20 ár. en eigi að síður er það talið stofnfé, af því að það er fyrirheit um greiðslu. Ég get enn haldið áfram og vitnað í lögin um Búnaðarbankann, nr. 31 14. júní 1929. Þar stendur í 13. gr.: „Ríkissjóður leggur veðdeild bankans til stofnfé að upphæð minnst 1250000 króna. Stofnfé þetta greiðist þannig, að veðdeildin tekur við því af skuldabréfum viðlagasjóðs, sem ekki afhendist bústofnslánadeild.“ — Hér er líka um að ræða fé, sem á að greiðast smám saman. Ég veit ekki, hvernig á að lýsa þm., sem leyfir sér að fara með svona rugl. En raunar þarf ekki annað en að tilgreina þetta, sem ég hefi bent á, til þess að allir sjái, hverskonar þvætting þm. hefir farið með. Mér þykir hart að þurfa að fræða lögfræðing um hluti, sem jafnalgengir eru í lögum og þetta, og ég hefði leitt það hjá mér, ef hv. þm. hefði ekki ráðizt á mig með fruntalegum orðum út af þessu. Hann sagði: „Enginn maður er svo skyni skroppinn að vita eigi, að stofnfé er aðeins það fé, sem lagt er fram til fyrirtækisins í upphafi.“ Hv. þm. leyfði sér að kalla mig „skyni skroppinn“ og „aula“ og fleira þesskonar. En allir, sem komnir eru til vits og ára, sjá og skilja, að ég hefi rétt fyrir mér um þetta atriði, en hann rangt.

Ég verð að segja, að ég veit ekki, hvort ég á að taka alvarlega hjal þm. um ummæli mín í sambandi við hans fyrri ræðu, er hann hafði gerzt ber að því að hafa ekki lesið frv., sem hann var að tala um. Hann hafði sagt, að stofnfé sjóðsins yrði aðeins 4 millj. kr. samkv. frv. Ég benti á, að ætlazt væri til, að framlag Fiskveiðasjóðs yrði 250 þús. kr. þegar í stað, og ennfremur að útflutningsgjald af sjávarafurðum rynni í sjóðinn í 6 næstu ár. Sjálfur hafði hann í fyrstu áætlað útflutningsgjaldið 750 þús. kr. Svo reyndi hann að færast undan því, þegar í öngþveiti var komið, og vildi segja, að hann hefði talið það 600 þús. Síðan ruglaði hann saman lántökuheimild og stofnfé og fór með svo mikinn þvætting í sambandi við þessar tölur, að erfitt er að svara á viðeigandi hátt. En í 3. lið 2. gr. felst aðeins heimild um lántöku eða útvegun á láni handa Skuldaskilasjóði. Þar er ekki um stofnfé að ræða, heldur er lánið ætlað til að veita sjóðnum handbært fé, sem hann á svo að greiða af stofnfénu jafnóðum og það rennur til hans. Til leiðbeiningar hv. þm. Barð. skal ég geta þess, að 5 undanfarin ár hefir útflutningsgjaldið af sjávarafurðum verið 3 millj. og 900 þús., og þó að það verði skert á þessu þingi með lækkun síldartollsins, er víst, að það fer ekki niður í þá upphæð, sem hann var að nefna, eftir að hann hafði farið með aðra tölu réttari.

Ég mun svo ekki orðlengja þetta frekar. En ég vænti þess, að flutningur málsins á Alþingi verði til þess að knýja þá til fylgis við það, sem ekki hafa þó viljað gerast flm. þess. Þess er að vænta, að þeim skiljist, að þörf þjóðarinnar í þessu efni gerir svo háværar kröfur, að ekki verður í móti staðið. Á þessu byggjum við sjálfstæðismenn vonir okkar um framgang málsins á þessu þingi.