07.11.1934
Neðri deild: 30. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (4116)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Páll Zóphóníasson:

Það er í þessu mikilsverða máli ýmislegt, sem mig langar til að fá upplýsingar um. Verið getur, að ég fái einhverjar upplýsingar, þegar nál. mþn. í sjávarútvegsmálum verður lagt hér fram. En ég er ekki viss um, að ég í því fái allar þær upplýsingar, sem ég vildi, og því vildi ég leyfa mér að spyrja hv. flm. nokkurra spurninga.

Ég tók svo eftir af hv. flm. þessa máls hér í hv. d., að það væru 877 menn, sem þeir hefðu rannsakað efnahag hjá. Ég vissi það fyrr, að útgerðin væri í höndum fárra manna. En mér datt ekki í hug, að aðeins um 0,8% allra landsmanna hefði allan skipastól landsmanna til útgerðar með höndum. Ég er hræddur um, að þetta stafi af misskilningi, og ég býst við því, að af þessum 877 mönnum muni sumir þeirra vera júridiskar persónur, þannig, að á bak við þá standi hlutafélög, og þannig sé skipastóll útgerðarinnar í fleiri manna höndum en þessara 877. Það, sem mig langar til að fá að vita, er, hve margir menn standa að útgerðinni, ef þetta er tekið með í reikninginn. Eða á maður virkilega að ætla, að aðeins 0,8% af þjóðinni hafi þennan skipastól í sínum höndum og atvinnu og ráð þeirra þúsunda, er að útgerðinni vinna?

Þá hefir einnig verið talað um, að rannsakaðar hafi verið eignir þessara manna. Ég vildi í því sambandi fá að vita um tvennt. Í fyrsta lagi: Mér er kunnugt um það með nokkra af þessum mönnum, að þeir hafa sumir þann sið, að láta konur sínar eiga mikla eign, sumir svo skiptir tugum þúsunda, sumir hálfa eignina, sumir einn þriðja eða einn fimmta hluta af allri eigninni, sem þeir hafa undir höndum. Eru þessar upphæðir utan við þessa rannsókn, eða eru þær teknar með? Þetta skiptir vitanlega nokkuð miklu máli um niðurstöður rannsóknanna. Í öðru lagi: Ef svo er, að hlutafélög standa að baki sumra af þessum 877 mönnum, hvernig eru þá eignir þeirra manna gerðar upp? Eru þá hlutafélögin gerð upp sem hlutafélög, eða er líka tekið tillit til eigna einstakra manna, sem í hlutafélögunum eru? Þetta þarf að koma skýrt fram, þegar ákveða skal, hvað gera á viðvíkjandi því, að hjálpa þessum atvinnuvegi, og hvernig lagt verður til að hafa þetta. Það hefir a. m. k. áhrif á mína aðstöðu til þessa máls.

Þá var það upplýst, að 272 menn skulda 26,6% móts við eign, af þeim, sem skipastól útgerðarinnar hafa með höndum, og þurfi engrar aðstoðar við. Aftur væru 242, sem skulduðu 142,8% móts við eign og væru óhæfir án aðstoðar að reka atvinnuveg sinn áfram. Hefir n. reynt að gera sér ljóst, hvað muni orsaka þennan mismun? Er ekki eitthvað sameiginlegt í rekstri þessara útgerðarmanna, sem gæti gefið bendingar um leiðir til lagfæringar á málum útgerðarinnar, til þess að koma henni á heilbrigðari grundvöll heldur en hún hefir verið rekin á að undanförnu? Mér kæmi það ekki á óvart, þó að finna mætti, við athugun á fyrirkomulagi útgerðar þessara manna, leiðir til slíks. Og þar sem ég veit, að þessir menn í mþn. í sjávarútvegsmálum hafa sett sig inn í þetta mál, þá þykist ég vita, að þeir hafi lagt sig fram til þess að vita, hvað muni orsaka það, að þessir 272 menn standa svo miklu betur að vígi heldur en hinir allir, hvaða sameiginlegar ástæður muni vera til staðar hjá þeim, sem geri það að verkum. Það langar mig mjög til að fá að heyra frá nm., hvort þeir hafi athugað þetta. Ég gæti hugsað mér, að hlutaskiptatilhögun réði nokkru hér um og hvernig útgerðin er að öðru leyti rekin, hvort hún er rekin í stórum eða smáum stíl. Mig langar að vita, hvernig útgerðarmenn flokkast í skuldaflokkana fjóra, eftir stærð útgerðartækjanna. Því að auk þess, sem sagt hefir verið, hefir það ennfremur verið upplýst, að af útgerðarmönnum séu 178 menn, sem mundu ekki þurfa aðstoðar við, sem neinu næmi, sem skulda um 63% á móts við eignir.

Þá eru eftir 427 menn, sem þurfa á þeirri hjálp að halda, sem löggjöf þessi á að veita. Og mér skilst, að ástandið sé þannig hjá þeim, að þeir þurfi að fá eftirgefið af skuldum sem nemur 8 millj. kr. og lánaðar um 5 millj. kr., sem stæðu sem afborgunarlaus lán hjá þeim fyrstu 3 árin og þar á eftir með 3% vöxtum. Mér kæmi það ekki á óvart, þó að í þessum 427 manna hóp væri það tiltölulega fámennur hópur, sem þyrfti að fá aðaleftirgjafirnar. Þess vegna gæti ég vel búizt við því, að hægt væri með tiltölulega miklu minna fjármagni að hjálpa fjöldanum af þessum 427 mönnum, sem hafa verið taldir hjálpar þurfa. Nú má hjálpa á fleiri vegu heldur en með því að strika út skuldir. Mér skilst, að þeir mþnm. í sjávarútvegsmálum, sem flutt hafa þetta frv. hér í þessari hv. d., líti svo á, að ef hægt sé að koma því þannig fyrir, að skuldir séu strikaðar út, svo þær færist niður í 65% á móts við eignir, þá geti útgerðin með núv. verðlagi, tilkostnaði og vaxtakjörum staðið straum af skuldunum. Ef þetta er rétt, þá er líka hægt að koma hinu sama til vegar með því að láta núv. skuldir útgerðarinnar standa, en breyta vaxtakjörum hennar. Ef útgerðin rís undir 2/3 hlutum af einhverri skuld með 6% vöxtum, þá getur hún einnig staðið undir 100% af sömu skuld með 4% vöxtum. Með því jafnframt að lengja lánstíma um þriðjung hyrfi allur munur. Því það er eins gott að skulda 30000 með 4% og afborga á t. d. 30 árum, og 20000 með 6% og afborga á 20 árum. Hér er því auðsætt, að fleiri leiðir geta komið til greina heldur en sú leið að strika út skuldir.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að hér hefir legið frammi frv. um innlánsvexti og vaxtaskatt. Í því hefir verið reynt að sýna fram á leið til þess að koma vöxtum niður, svo að útlánsvextir verði í kringum 4%. Ef það sýndi sig, að hægt væri að hjálpa útgerðinni með þeirri leið, sem frv. þetta á þskj. 312 gerir ráð fyrir, þ. e. með því að gera vexti að miklum mun lægri en þeir eru nú, þá væri það líka veruleg hjálp fyrir atvinnuvegina í heild, ekki aðeins fyrir útgerðina, heldur líka fyrir landbúnaðinn. Ég held, að með þessari leið væri hægt að rétta útgerðinni þá hjálp, sem hana munaði mjög mikið um, og ef til vill væri henni nægileg. Vildi ég biðja hv. þdm. að athuga það.