07.11.1934
Neðri deild: 30. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (4120)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Jónas Guðmundsson:

Ég verð að byrja á því að leiðrétta mismæli hjá hv. þm. Barð. Hann mun hafa átt við 6. þm. Reykv. í ræðu sinni, er hann nefndi 6. landsk. (BJ: Mér er ljúft að taka það til greina. — ÓTh: Ljúft að breyta öllu sem hann sagði. — BJ: Því mikill er mannamunur, þó báðir hafi töluna 6).

Ég ætlaði að mótmæla þeim misskilningi, sem virtist koma fram hjá hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm., að Alþfl. sé mótfallinn eða fjandsamlegur þessu máli. Viðvíkjandi þeim deilum, sem orðið hafa um það, hvernig þetta mál er komið inn í deildina, álít ég, að það sé sérstakt mál og eigi að ræða sérstaklega, en ekki blanda því inn í þessar umr. um frv.

Mitt álit er, að þetta mál sé komið of fljótt inn í deildina, ekki vegna þess, að það sé ónauðsynlegt, heldur vegna þess, að það vantar grundvöllinn, vantar upplýsingarnar, sem frv. er byggt á. Þetta er stórmál, og ég vil gera ráð fyrir því, að hv. þm. vilji ekki binda millj. kr. af tekjum ríkisins og leggja því ábyrgðir á herðar, án þess að athuga vandlega, hvað verið er að gera, og afla sér þekkingar um málið. Þess vegna átti málið ekki að koma fram áður en fylgiskjölin eru komin. (JJós: Er ekki grg. með frv.?). Jú, grg. er góð, en ekki svo góð, að unnt sé á henni að byggja. Ég vil taka það fram, að þegar farið verður að fjalla um þetta frv., þarf betri grundvöll en er, og vildi því mega vænta þess, að skýrslur mþn. kæmu sem allra fyrst að unnt er, svo styðjast megi við þær. (JJós: Ég held mér sé óhætt að fullyrða, að þær verði til á föstudagskvöld). Það er ágætt. Þetta er langt mál og yfirgripsmikið, og við þm., sem sitjum hér í þinghúsinu frá því kl. 9 að morgni og fram til kl. 7 að kvöldi eða lengur, eigum ekki gott með að lesa langar skýrslur og kynna okkur stór mál, vegna þess að við höfum lítinn afgangstíma, nema hafa nokkurn fyrirvara.

Ég get látið nægja að mestu leyti að vísa til þess, sem hæstv. atvmrh. sagði í sinni ræðu f. h. Alþfl. Ég álít, að það sé nauðsynjamál að létta skuldafjötrunum af sjávarútveginum. En að komið er eins og raun ber vitni er að miklu leyti sök Alþingis, eða þeirrar stefnu, sem Alþ. hefir fylgt undanfarin ár, og á því ber Alþfl. ekki ábyrgð, heldur fyrst og fremst þeir flokkar, sem með völdin hafa farið í þjóðfél. á undanförnum árum. Stefnan hefir verið sú, að ganga á útgerðina — jafnt stórútgerð og smáútgerð — og iðnaðinn í landinu, sem er lítill. Það hefir verið gengið á þessar aðalatvinnugreinar þjóðfélagsins, og viðreisn landbúnaðarins var byggð á þessum atvinnugreinum, að þær legðu fram féð til landbúnaðarins. Þetta var þægilegasta leiðin til að hjálpa landbúnaðinum í svipinn, en það getur ekki gengið til lengdar. Þetta getur ekki endað á annað veg en þann, að þessar atvinnugreinar hljóta að veslast upp. Ef við lítum á fjárl. þessa árs, sjáum við, að styrkir til landbúnaðarins nema um 2 millj. króna. Í 16. gr. fjárl. eru áætlaðar 1450 þús. kr. í þessu skyni. Þetta er ekki minna en 1/6 hluti af öllum tekjum ríkisins. Nú er svo komið, að útgerðin — jafnt stórútgerð sem smáútgerð — getur ekki risið undir þessu lengur. En það er ekki til neins að ætla fé úr ríkissjóði til viðreisnar, það er ekki hægt fyrir ríkissjóð að veita þessari atvinnugrein líka styrk. Ég álít, að þessi stefna Alþ. hafi verið skökk, en handhægust í svipinn, og það er ekki hægt að rétta við til fulls á þessu þingi. Ég býst við, að sökin á því, að þessari stefnu hefir verið fylgt, sé hjá tveimur aðalflokkum þingsins. Framsfl. og Sjálfstfl., og hún hefir byggzt að miklu leyti á ranglátri kjördæmaskipan, af því það hafði pólitíska þýðingu að vera vinur bændanna, og við verðum enn varir við þetta hér á þinginu.

En atvinnuvegir kaupstaðanna þola þetta ekki lengur, og það verður að leita úrlausnar. Viðreisnin er tvíþætt. í fyrstu lagi verður að létta skuldabyrði atvinnuveganna og afla þeim rekstrarfjár, og í öðru lagi verður að sjá um, að tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga við sjávarsíðuna verði þannig hagað, að þegar ríkið léttir af útgerðinni, þurfi þau ekki að níðast á henni. Fyrra atriðið er hér verið að reyna að leysa; virðist skynsamleg hugsun liggja bak við frv. og vera stefnt í rétta átt. En þetta rekur sig á gömlu stefnuna, rekur sig á gamlar syndir, — það má ekki létta gjöldunum af sjávarútv. vegna ríkissjóðs, vegna þess að sjávarútvegurinn hefir verið látinn leggja of mikið fram til ríkissjóðs.

En megingallinn á frv. er sá, að það hefði átt að vera í tvennu lagi, smáútgerðin sér og stórútgerðin sér. Það er þægilegra að leysa málið á þann hátt. Skuldir þær, sem hvíla á smáútveginum, eru allt annars eðlis en skuldir stórútgerðarinnar, sem eru aðallega skuldir við banka, en skuldir smáútgerðarinnar eru í miklu fleiri stöðum. Að undanteknum þeim stöðum utan Rvíkur, þar sem eru bankaútibú, eru skuldir hennar miklu meiri annarsstaðar en við bankana. Þeirra skuldamál verður því að leysa á annan hátt. Ég vil því eindregið beina því til sjútvn., hvort hún sæi sér ekki fært að taka frv. og skipta því í tvennt. Taka fyrst smáútgerðina og reyna að gera skuldaskil hennar á þann hátt, sem bezt er og fljótlegast. Taka síðan stórútgerðina sér og leysa hennar mál næst.

Ég mun fylgja þessu máli eins og vit og orka leyfir og ég sé heppilegast fyrir þjóðina. Ég býst við, að það taki mörg ár að breyta þeirri stefnu, sem hefir verið, en á þessu þingi mætti þó hefja þá stefnubreytingu, og væri þá vel.

Það mætti ef til vill nú taka smáútgerðina, sem er meginþáttur allrar útgerðar utan Rvíkur, til skuldaskila, eins og gert er ráð fyrir, svo smásveitarfél. eða byggðarlög, sem mjög er að þrengt, þurfi ekki að gefast upp.