06.12.1934
Neðri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (4142)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Jóhann Jósefsson:

Það var óþarfi fyrir hv. þm. Ísaf. að færa fram afsakanir fyrir drætti málsins í n., því engar sakir voru bornar á hann sérstaklega. En ég get upplýst það, úr því að hann gaf tilefni til þess, að mér brugðust tvisvar loforð hv. þm. Ísaf. um að halda fund í sjútvn. Það var fyrst eftir að við sáum, að ekki var hægt að treysta loforðum hv. þm. Ísaf., og að drátturinn var gerður að yfirlögðu ráði, að við hv. 6. þm. Reykv. tilkynntum, að við myndum setja fram nál. Það var ekki þannig, að við hefðum kosið að gera þetta, eins og hv. þm. Ísaf. sagði, heldur neyddi hann okkur til þess. Ég vil svo leiðrétta það, sem hann sagði, að okkur minnihl.mönnunum hefði borizt samvinnutilboð frá hæstv. ríkisstjórn. Þetta er ekki rétt. Það er að vísu rétt, að undirnefnd fjallaði um þetta mál, og að á fundi, sem hún hélt, voru viðstaddir einn af forstjórum Landsbankans, Magnús Sigurðsson, hæstv. atvmrh., 6. þm. Reykv. og ég Ennfremur var viðstaddur form. sjútvn., hv. þm. Ísaf. Þar varpaði hæstv. atvmrh. fram nokkrum aths. frá eigin brjósti, sem ég tel mig ekki hafa leyfi til að bera fram opinberlega. En í þeim aths. fólust engin ákveðin tilboð um þetta mál. Hann tók það einmitt fram, að hann gæti enganveginn ábyrgzt, að hinn stjórnarflokkurinn væri samþykkur sínu hugarfari.

Hæstv. forseti sagði, að hann kysi helzt, að fyrir lægju nál. frá báðum nefndarhlutum. Ég vil nú segja honum það, að það bólar ekki ennþá á hreyfingu hjá meiri hl. n., þó að hann hafi haft nógan tíma til þess að koma með nál., og má því hæstv. forseti sjá, að það er af ásettu ráði, að hann kemur ekki með nál. Ég vil því ítreka beiðni mína og vona, að hæstv. forseti taki hana til greina.