14.12.1934
Neðri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (4169)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Thor Thors:

Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. þm. Ísaf. Hv. þm. vildi ekki viðurkenna, að örlög þeirra mála, sem Sjálfstfl. bæri fram hér á þingi, væru yfirleitt fyrirfram ákveðin. En þingtíðindin og þingskjölin sanna það.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að frv. um fiskimatsstjóra, sem sjálfstæðismenn báru fram, hefði náð fram að ganga. Það mál fékk að lifa þrátt fyrir það, að Sjálfstfl. bar það fram, og var það m. a. af því, að fiskifulltrúinn á Spáni upplýsti það fyrir flokksmönnum sínum, að ekki mætti blanda saman fiskimatsstjóra heima á Íslandi og fiskifulltrúa á Spáni.

Hv. þm. sagðist vera því hlynntur, að ríki og bæjarfélög yrðu til þess að endurreisa útgerðina. Það hafa nú verið gerðar tilraunir með það, bæði á Ísafirði og í Hafnarfirði. Ég ætla á engan hátt að ásaka þessa útgerð, en ég vil aðeins benda á, að hún hefir á engan hátt breytt um til batnaðar frá því, sem er í rekstri einstaklinga, heldur fetar hún alveg í fótspor einstaklingsrekstrarins, sama kaupgjald er borgað, fiskurinn er verkaður og seldur á sama hátt og hjá einstaklingum, og yfirleitt er allt eins hjá þessum fyrirtækjum og hjá einstaklingum.

Þá sagði hv. þm. ennfremur, að það væri ekki að marka, þó að Alþfl.menn hefðu ekki beitt sér fyrir að kaupa togara fyrir Reykjavíkurbæ, af því að þeir hefðu ekki meiri hluta í bæjarstj. Rvíkur. Ég vil benda hv. þm. á, að hann sjálfur flutti hér á þingi í fyrra frv., ásamt flokksbræðrum sínum, um sérstaka ríkisábyrgð fyrir Reykjavíkurbæ til þess að kaupa 10 nýja togara. Þetta frv. er ekki borið fram á þinginu nú í ár. Af hverju? Það er af því, að ef frv. hefði komið fram frá meiri hl. sjútvn. og stjórnarliðinu, hefði það átt vísan framgang, en þeir kæra sig bara ekkert um, að það nái fram að ganga. Hv. þm. Ísaf. sagði, að það horfði öðruvísi við nú en í fyrra, því að nú væri takmarkaður innflutningur á fiski til Spánar. En það var öllum ljóst, sem eitthvað fengust við afurðasölu, að þetta var yfirvofandi í fyrra, og ég vil benda á, að í útvarpsumr. fyrir bæjarstjórnarkosningarnar hér í Rvík í fyrra, þar sem þetta mál var mikið rætt, varð það mitt hlutskipti að benda á, hvert sverð vofði yfir höfðum okkar, sem sé takmörkun á innflutningi fiskjar til markaðslandanna, vegna þeirrar almennu reglu, sem gildir um gagnkvæm viðskipti. En þá vildu sósíalistar telja þetta fleipur eitt eður hrakspár.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði gert sér greiða með því að benda á, að rekstur einstakra skipa væri ódýrari hjá stórum fyrirtækjum en smáum. Ég skal fúslega játa, að ég er hlynntur stórrekstri á vissum sviðum atvinnulífsins og vil, að þar sé ákveðið fyrirkomulag, er tryggi samvinnu verkamanna og vinnuveitenda, en ég vil benda hv. þm. Ísaf. á, að sá mikill munur er á milli okkar skoðana, að hann er hlynntur bæjar- og ríkisrekstri, en ég er hlynntur á einstaka sviðum þeim stórrekstri, sem einstaklingar standa að. Hér greinir svo mikið á milli, að enginn tími er til að rökræða um það hér, enda er þessi skoðanamunur öllum kunnur. Af þeim ástæðum er hann sósíalisti, en ég er sjálfstæðismaður.

Hv. þm. var að gera samanburð á rekstri togara erlendis og hér. Ég vil benda hv. þm. á þann mikla mun, sem er á þessum rekstri hjá nágrannaþjóðum okkar og hér. Hjá nágrannaþjóðum okkar er því oftast þannig fyrir komið, að togararnir selja aflann strax og þeir eru komnir í höfn, en hér er aflinn verkaður af útgerðarmönnum sjálfum, og sér því hv. þm., hvað miklu meiri áhættu er hjá útgerðarmönnum hér á landi heldur en hjá útgerðarmönnum í nágrannalöndum okkar.

Þá var hv. þm. að segja, að það væri hæpin röksemdarfærsla að halda því fram, að ef rekstur einhvers fyrirtækis væri of dýr, lenti það á hluthöfum þess. Ég vil benda á, að töpin lenda fyrst og fremst á þeim mönnum, sem hafa lagt alla sína fjármuni í þann atvinnurekstur.

Um þau töp, sem lenda á ríkinu, ef atvinnureksturinn gengur illa, skal ég ekki fjölyrða, ég er því svo ókunnugur, en ég efast ekki um, að hv. þm. Ísaf. geti um það talað, af því að hann hefir reynslu í þeim efnum og er þessu miklu kunnugri heldur en ég.