12.10.1934
Neðri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (4189)

53. mál, opinber ákærandi

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl]:

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að lengja umr. um frv. Ég vil aðeins láta í ljós þá skoðun mína, að stefnt sé í rétta átt með þessu frv., a. m. k. að vissu leyti. Enginn vafi er á því, að það væri framför frá því, sem verið hefir, ef svo væri málum skipað að ákæruvaldið væri í höndum manns, er ekki kæmi nálægt stjórnmálum, ef hægt er annars að fá slíkan mann.

Í grg. er þess getið, að þær mótbárur kunni að koma fram, að rétt sé að fresta þessu máli, þar til hin nýja réttarfarslöggjöf komist á í heild sem nú stendur fyrir dyrum. Í því sambandi vil ég geta þess, að fyrir liggja drög að frv. um þessi efni frá fyrrv. dómsmrh., en það frv. nær aðeins til meðferðar einkamála. Hefi ég því hugsað mér að fara fram á það við Alþingi, að það heimili mér að skipa 3 manna n., er taki réttarfarsmálin til rannsóknar, bæði að því, er snertir opinber mál og einkamál, ásamt fleiru, er réttarfarinu viðvíkur.

Ég tel það varhugavert að taka eitt mál út úr heildinni á þennan hátt, sem hér er farið fram á. Mín afstaða markast af því, að ég álít, að þessi mál beri að taka til meðferðar í heild. Hitt er rétt, að réttarfarslöggjöf okkar er svo gömul og úrelt, bæði um meðferð einkamála og opinberra, að ekki má dragast, að úr verði bætt. Og sumt viðvíkjandi réttarfarslöggjöfinni er þó enn meira aðkallandi en jafnvel þetta. Má þar t. d. benda á meðferð einkamála úti um land. Slíkur málarekstur er nú svo dýr, að oft borgar sig ekki fyrir mann, sem á 3—400 kr. útistandand, að láta innheimta það fé, því að málskostnaður getur vel orðið hærri en þessi upphæð.

Að því er opinber mál snertir, vil ég benda á það, að við búum nú við dómaskipun, sem hvergi er til lengur í Evrópu, þó að eitthvað skylt megi finna í svo sent 3 löndum. Við höldum hér í úrelt fyrirkomulag, sem ekki er lengur við unandi. Býst ég því við, að mín afstaða markist af því að málið þurfi að taka til almennrar rannsóknar.