12.10.1934
Neðri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (4192)

53. mál, opinber ákærandi

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Um það munu allir sammála, að gagngerðrar endurskoðunar þurfi við á meðferð einkamála og opinberra mála. Mér þykir vænt um, að hæstv. forsrh. sagðist mundu leggja til, að sér yrði falið að skipa 3 manna n. til undirbúnings málinu. Mér var og kunnugt um, að fyrrv. dómsmrh. hafði lagt drög að rannsókn og undirbúningi málsins. Hitt er mér óskiljanlegt, hvers vegna hæstv. dómsmrh. og hv. 1. landsk. vilja fresta afgreiðslu þessa frv., þó að í vændum sé endurskoðun á réttarfarslöggjöfinni í heild. Í nágrannalöndum vorum hefir slík endurskoðun tekið mörg ár, og hver nefndin tekið við af annari til undirbúnings. Eftir að málið hefir verið lagt fyrir þingin, hefir það tekið nokkur ár að koma því til framkvæmda. Held ég, að eins hljóti að fara hér, að nokkur ár muni líða áður en málið er að fullu leyst, ef vel á að vera frá öllu gengið.

Ég hafði ástæðu til að ætla, að allir flokkar gætu orðið sammála um skipun opinbers ákæranda. Hæstv. forsrh. tók t. d. málið til meðferðar á síðasta flokksþingi framsóknarmanna og taldi þetta þá nauðsynlegt. Í 4-ára áætlun Alþfl. er því líka lýst yfir sem einu stefnuskráratriðinu. Þó er það ekki rétt, sem hv. 1. landsk. sagði, að Alþfl. hafi fyrstur tekið upp þetta mál. Því var 1931 lýst sem einu stefnuskráratriði ungra sjálfstæðismanna, en ekki tekið upp af Alþfl. fyrr en í vor. Ég vil hér nota tækifærið til að leiðrétta þessa villu.

Hæstv. forsrh. sagði, að önnur atriði réttarfarslöggjafarinnar væru meira aðkallandi en þetta, en það getur ekki verið frambærileg ástæða fyrir því, að frestað sé þessu nauðsynjamáli, sem allir virðast sammála um. Ég veit ekki, hvort skilja ber ummæli þessara tveggja hv. þm. þannig, að málinu skuli fresta, af því að þeirra flokkar hafa nú dómsmálin í sínum höndum, þar sem þeim var þetta svo mikið áhugamál áður, á meðan andstæðingar þeirra höfðu þau til meðferðar. Mér þykir einkennilegt, ef fara á að svæfa málið á þessu þingi, meira að segja án þess að fram komi aths. við frv. Hinsvegar get ég lýst yfir því, að ef fram koma till., sem horfa til bóta á frv., þá mun ég þegar fallast á þær.