26.10.1934
Neðri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (4194)

90. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Jón Pálmason):

Fyrir hönd landbn., sem flytur frv. þetta, vil ég leyfa mér að segja nokkur orð. Lögin um lax- og silungsveiði, sem sett voru 1932, höfðu haft langan undirbúning, enda var þar um mikið þrætumál að ræða. Það var þegar ljóst, að á lögum þessum myndu verða ýmsir annmarkar gagnvart takmörkunum á atvinnuveginum, og fyrir því var borið fram frv. á aukaþinginu í fyrra um breyt. á lögunum, og er aðalefni þess tekið upp hér. Frv. dagaði þá uppi í hv. Ed., án þess þó að séð yrði, að um það væri nokkur verulegur ágreiningur.

Aðalbreytingarnar, sem frv. gerir ráð fyrir á l. frá 1932, eru í þremur fyrstu greinum þess og ganga í þá átt að rýmka um veiðileyfið, svo betra verði að fá að veiða í klak.

Þá eru í 4. og 5. gr. ákvæði um að minnka möskvastærðina úr 4,5 cm. í 3,5 cm., og er það miðað við blautan möskvann. Þessa breyt. á möskvastærðinni hefir n. þótt rétt að taka upp, og hefir hún borið hana undir höfund laganna, sem hefir tjáð sig samþykkan henni. Að þessi breyt. er gerð, er sökum þess, að það hefir þótt koma í ljós, að silungsveiði rýrni að miklum mun með því að hafa netin svona möskvavið.

Þá er og ákvæði um það, hvernig með skuli fara þegar styttra verður milli lagna tveggja veiðieigenda en svo, að leyfilegt sé, en hvorugur vill víkja.

Í 7. gr. frv. eru ákvæði, sem vel má vera, að ágreiningur geti orðið um. Það er um aukna skaðabótaskyldu til þeirra, sem verða fyrir barðinu á lögunum. Að þeir skuli eiga rétt til skaðabóta eftir mati, og að kröfur fyrir bætur skuli sendar ráðh., og ennfremur að bæturnar greiðist að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu úr sýslusjóði, eða sýslusjóðum, þegar tvær sýslur eiga hlut að máli.

Ég vænti nú, að hv. dm. viðurkenni, að hér sé um nauðsynlegar breyt. að ræða, og greiði fyrir frv., svo að það megi ganga sem fljótast gegnum þingið. Vil ég svo f. h. n. óska þess, að það gangi til 2. umr., en til nefndar mun það ekki þurfa að fara, þar sem það kemur frá nefnd.