12.10.1934
Neðri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (4199)

53. mál, opinber ákærandi

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég þykist vita, að hæstv. dómsmrh. sé það ljóst, að því að þessi mál komi undir hið sameiginlega nafn réttarfarslöggjöf, þá eru þessi mál svo aðgreind og aðgreinileg, að auðvelt er að semja bálka um einstaka hluti án þess að taka þau öll til meðferðar. Það má semja bæði frv. um meðferð einkamála og sakamála án þess að breytingar séu um leið gerðar á hegningarlöggjöfinni.

Ég veit, að hæstv. dómsmrh. er það ljóst, að sá maður, sem hann á við, hefir unnið að breytingu á hegningarlöggjöfinni, en lítið að sjálfu réttarfarinu í sakamálum. Sá undirbúningur hefir aðeins verið gerður vegna breytinga á hegningarlöggjöfinni. Það er ekkert því til fyrirstöðu að koma með frv. um meðferð einkamála og sakamála án þess að koma með breytingu á hegningarlöggjöfinni. Ef hæstv. dómsmrh. vill endilega í inna þetta allt saman, þá verður það ekki lagfært á næstunni. Það þarf auðvitað lengstan tíma til þess að undirbúa refsilöggjöfina.

Þó að í frv. sé gert ráð fyrir, að starf hins opinbera ákæranda sé eingöngu gagnvart hæstarétti, þá get ég ekki séð, að það útiloki það, að löggjöfin geti gert einhverjar breytingar á þessum l. þannig, að starf hins opinbera ákæranda verði gert víðtækara.

Það má vel vera, að þessi frv. eigi að ganga til annara til umsagnar. t. d. Félags málfærslumanna. En ég sé þó ekkert því til fyrirstöðu, að stj. beri fram frv. um meðferð einkamála, sem er undirbúið af hinum langhæfasta manni til að semja svona frv. Ég geri ráð fyrir, að þó að málið væri látið ganga til Fél. málfl.manna til athugunar, þá yrði það ekki lengur að athuga það en n. í þinginu. Það er ekki ástæða til að senda öllum hlutaðeigendum frv. áður en það kemur til Alþ.

Ég veit, að hæstv. dómsmrh. viðurkennir, að þó að sá maður, sem nú vinnur að hegningarlöggjöfinni, vinni með atorku og dugnaði til næsta þings, þá verður sú löggjöf ekki fyllilega undirbúin. Það er ekki rétt að halda því fram, að breytingar á hegningarlöggjöfinni og breytingar á meðferð einkamála og sakamála þurfi endilega að fara saman. Ég veit, að þó að margir óski þess, að hæstv. núv. dómsmrh. verði sem lengst í ráðherrastóli, þá muni honum kannske auðnast að fá samþ. l. um breytingar á löggjöfinni um meðferð einkamála og sakamála, en l. um breytingar á hegningarlöggjöfinni er stærra mál en svo, að honum muni auðnast að fá það samþ. svo viðunandi sé. Ég veit, að ef hæstv. dómsmrh. vill láta mig njóta sannmælis, þá verður hann að viðurkenna, að ég fari hér með rétt mál, en hann rangt.