12.10.1934
Neðri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (4201)

53. mál, opinber ákærandi

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Aðalástæðan gegn því, að fresta þessu máli, er sú, að endurskoðun réttarfarsmálanna tekur svo langan tíma. Ég hefi getið þess, að reynsla annara þjóða bendir í þá átt. Hæstv. dómsmrh. viðurkennir, að frv. Einars Arnórssonar þurfi að leggja fyrir ýmsa menn til athugunar, áður en það verður lagt fyrir þingið. Ég vil benda hæstv. dómsmrh. á það, að sú n., sem hefir unnið að undirbúningi hegningarlöggjafarinnar, hefir nú starfað í 4 ár, og enn ekki skilað áliti sínu. Þó að núv. stj. þykist stórvirk, þá mun hún samt ekki geta framkvæmt endurskoðun þessara mála á skömmum tíma.

Ein ástæða hæstv. dómsmrh. fyrir því að draga málið á langinn er sú, að ekki megi taka það út úr réttarfarslöggjöfinni í heild. Í því sambandi má henda á, að í vændum mun vera ný löggjöf um fátækramálin. Samt sem áður flytur hæstv. ríkisstj. á þessu þingi frv. um afnám fátækraflutnings og tekur þannig þetta eina atriði út úr heildarlöggjöfinni. Stj. sjálf fylgir því ekki þessu lögmáli, sem hæstv. forsrh. vill láta gilda hér.