12.10.1934
Neðri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (4202)

53. mál, opinber ákærandi

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að tefja umr. lengi. Ég vildi leiðrétt, þann misskilning, sem kom fram hjá hv. 8. landsk., að ég hafi sett það í samband hvað við annað, að réttarfarslöggjöfinni og hegningarlöggjöfinni mætti ekki ljúka hvorri út af fyrir sig. Það sagði ég aldrei. En ég sagði, að frv. um meðferð einkamála og meðferð opinberra mála yrði að taka í einni heild. Hv. 8. landsk. álítur, að það þurfi sérstaklega langan tíma til þess að undirbúa hegningarlöggjöfina, en miklu minni tíma til þess að undirbúa réttarfarslöggjöfina. En þetta er á misskilningi byggt. Það er nær sanni, sem hv. 11. landsk. hélt fram, að það þyrfti langan tíma til þess að undirbúa löggjöfina um meðferð einkamála. Þetta skal ég rökstyðja nánar. Allar nágrannaþjóðirnar hafa, þegar varið miklum tíma til þess að rannsaka hegningarlöggjöfina. Það er því gefið mál, að þeir, sem hafa það mál til meðferðar, þurfa ekki annað en fara í gegnum þær rannsóknir. Við stöndum á svipuðu menningarstigi og þessar þjóðir, og er okkur því í lófa lagið að taka upp þessa löggjöf' eftir þeim.

Það er rétt hjá hv. 11. landsk., að meðferð opinberra mála og einkamála er mikið vandaverk. En það stangast aftur alveg við álit hv. 8. landsk., að frv. um það mál megi fleygja inn í þingið án undirbúnings. Sannleikurinn er sá, að með góðri vinnu má ljúka málinu á næsta þingi. Þetta frv. getur því vel beðið eftir því.

Það er eitt atriði, sem þarf að athuga m. a., og það er, hvort lögmaðurinn eigi að vera dómari í opinberum málum eða lögreglustjórinn.

Ég vil leiðrétta þann misskilning, sem kom fram hjá hv. 11. landsk. að ég hafi sagt, að hinn opinberi ákærandi hjá öðrum þjóðum sækti ekki mál fyrir hæstarétti. Ég sagði, að hann sækti bæði mál fyrir undirrétti og hæstarétti. Hann fylgist með rannsókninni frá upphafi. Frv., sem hér liggur fyrir, kemur að sáralitlu gagni, því það hefir e. t. v. mesta þýðingu að fylgjast með málinu frá upphafi. Í undirrétti er grundvöllurinn lagður, og það hefir því afarmikla þýðing að fylgjast með rannsókn málsins þar. Þetta er stórvægilegt atriði, sem þarf að athuga vel.