18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (4216)

53. mál, opinber ákærandi

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Eins og nál. á þskj. 156 ber með sér, þá hefir meiri hl. allshn. lagt það til, að þetta mál verði afgr. með rökst. dagskrá, með tilvitnun til þess, að með samningi þeim, sem meiri hl. núv. alþm. hafa gert sín á milli, er gert ráð fyrir því, að fyrir þingið 1935 skuli leggja gagngerða endurskoðun á réttarfarslöggjöfinni, bæði í einkamálum og opinberum málum. Meiri hl. n. treystir því, að stj. muni þegar á næsta þingi, ef unnt er, leggja fram slíka nákvæma endurskoðun réttarfarslöggjafarinnar, og sér því ekki ástæðu til þess að afgreiða þetta frv.

Eftir að lagt var til, að málið yrði afgr. á þessa lund, sem felst í hinni rökstuddu dagskrá, hefir það þar að auki gerzt á þinginu, að það hefir verið afgr. þáltill. í Sþ. um að skipa 3 lögfræðinga í n., er hafi með höndum að starfa að endurskoðun réttarfarslöggjafarinnar, en árangur þeirrar starfsemi á svo að leggja fyrir þingið. Það er einnig upplýst, að talsverð vinna hefir nú þegar verið lögð í þessa endurskoðun, og hæstaréttardómari Einar Arnórsson hefir þegar samið frv. til l. um meðferð einkamála í héraði, sem liggur hjá stj. Og má gera ráð fyrir, að þetta muni allmikið létta undir með þeim mönnum, sem hafa það með höndum að starfa að endurskoðun réttarfarslöggjafarinnnr. Og þeim mun meiri líkur eru til þess að n. fái, áður en langt um líður, skilað því starfi, sem henni er ætlað að vinna, og geti komið með till., sem miða til gagngerðra endurbóta á réttarfarslöggjöfinni, jafnt í einka- sem opinberum málum.

Nú er það lagt til með þessu frv., sem hér liggur fyrir, að tekinn sé út úr einn þáttur þess hluta réttarfarslöggjafarinnar, er fjallar um opinber mál, og að það nýmæli verði lögfest, að skipaður verði opinber ákærandi. Eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, þá er sú hugmynd, sem felst í frv., mjög góð, og það eru líkur til þess, að allir flokkar hér á Alþ. geti verið sammála um það, að eitt af mörgu, sem þarf að endurbæta í réttarfarslöggjöfinni, ekki hvað sízt í hinni opinberu réttarfarslöggjöf, það sé að skipa opinberan ákærenda. Hinsvegar virðist mér, og okkur í meiri hl. allshn., ekki vera nein knýjandi nauðsyn til þess, að þessi eini þáttur sé nú tekinn út úr á þessu þingi og afgreiddur, þar sem til þess er ætlazt, að háðir höfuðþættir réttarfarslöggjafarinnar verði endurskoðaðir og endurbættir nú á næsta ári. Þó að segja mætti, að það væri framkvæmanlegt að taka þennan eina þátt út úr, þá má að sjálfsögðu segja það sama um marga aðra einstaka þætti, bæði hinnar opinberu réttarfarslöggjafar og einkaréttarfarslöggjafarinnar, að það mætti taka þá út úr og afgreiða þá nú á þessu þingi. En það eru engin sérstök vinnuvísindi í því fólgin að taka svona örlítinn þátt út úr því stóra máli, sem hér um ræðir.

Hv. minni hl. allshn., sem hefir lagt það til, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt. og vitnar í ummæli lagadeilda háskólans, þar sem mælt er með frv., með þeim breyt., sem minni hl. leggur til að á því verði gerðar. Ég skal um leið geta þess, út af þeim breyt., sem minni hl. allshn. vill gera á frv., að ég álít þær alveg nauðsynlegar, ef málið yrði samþ., því að engin ástæða er til þess frá mínu sjónarmiði að gera sérstaka undanþágu um skipun þessara embættismanna, frekar en annara. En auk þess, að minni hl. n. leggur það til, að þessu sé breytt, þá leggur hann það til, að frv. verði samþ. nú á þessu þingi, og eins og ég hefi áður sagt, vitnar til ummæla lagadeildar háskólans. Þó að lagadeildin taki það fram, að það þurfi ekki að fresta stofnun þessa embættis vegna þess, að allsherjarendurbætur séu bráðlega væntanlegar, þá er það út af fyrir sig engin röksemd fyrir því, að það sé knýjandi ástæða til þess að taka þennan eina þátt út úr, því að eins og ég hefi áður tekið fram, þá má segja það sama um marga aðra þætti réttarfarslöggjafarinnar, sem ákaflega brýn þörf er á að endurbæta. Og þó að málið sé þannig, sem í frv. felst, að það sé til bóta, þá finnst okkur, sem erum í meiri hl. í allshn., af þeim ástæðum, sem ég hefi lýst, engin sérstök né knýjandi ástæða til þess að taka það eitt út úr og afgr. á þessu þingi. Við leggjum þess vegna til, að þetta mál verði afgr. með þeirri rökst. dagskrá, sem ég minntist á, þar sem gert er ráð fyrir, að á Alþ. 1935 muni fram koma frv. til l. um allsherjarendurbætur á íslenzkri réttarfarslöggjöf.