18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (4220)

53. mál, opinber ákærandi

Gunnar Thoroddsen:

Þetta frv. fer fram á, að ákæruvaldið sé tekið úr höndum dómsmrh. og fengið opinberum ákæranda, sem standi utan við stjórnmáladeilurnar. Ég þarf ekki að fjölyrða um efni frv., því að gerð hefir verið grein fyrir því áður, enda virðast allir sammála um, að frv. fari í rétta átt og að þetta sé gagnleg og nauðsynleg umbót á löggjöfinni. Hv. frsm. meiri hl. hefir fallizt á þetta, bæði nú og við 1. umr. Ágreiningurinn er aðeins um það, hvort lögleiða beri þetta skipulag nú þegar eða láta það bíða unz farið hefir fram heildarendurskoðun á réttarfarslöggjöfinni. Meiri hl. n. vill, að málinu verði frestað, en minni hl. vill, að frv. verði samþ. nú þegar. Ég þarf ekki að fara mikið út í rökstuðning hv. frsm. meiri hl. fyrir því að láta málið bíða, því að hv. frsm. minni hl. hefir þegar gert það rækilega og stutt skoðun sína m. a. við álit prófessoranna við lagadeild háskólans. Ég skal aðeins taka það fram, að ég sé ekki minnstu ástæðu til að ætla, að heildarendurskoðun réttarfarslöggjafarinnar verði lokið fyrir næsta þing. Það kemur ekki til nokkurra mála, að nefndin geti lokið störfum sínum fyrir 15. marz næstk., en þá er gert ráð fyrir, að þing komi saman. Þeir, sem þekkja til í nágrannalöndunum, vita, að slíkur undirbúningur hefir tekið þar mörg ár. Með dagskrá meiri hl. er farið fram á, að því sé slegið föstu, að þetta mál bíði endurskoðunar löggjafarinnar í heild, og er ekkert líklegra en að sú bið mundi þá vara um nokkur ár ennþá. Ég tel ekki neina nauðsyn á slíkum fresti og get ekki fallizt á rökstuðning hv. frsm. meiri hl. um það efni. Hv. frsm. minni hl. færði rök fyrir því, og sömuleiðis er það álit prófessoranna við lagadeild háskólans, að þessi breyt. geti vel fallið inn í núgildandi löggjöf, og er því engin ástæða til að fresta málinu vegna þess, að það samrýmist ekki þeim lögum, sem fyrir eru.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta að þessu sinni. Ég legg ríka áherzlu á, að þetta sé tekið í lög sem fyrst, því að ég tel mjög vafasamt að láta ákæruvaldið, þetta þýðingarmikla vald yfir æru og mannorði einstaklinganna, vera lengur í hömlum pólitísks ráðherra.

Ég vil þakka hv. minni hl. n. fyrir afgreiðslu hans á þessu máli, og ég get lýst því yfir, að ég er samþykkur brtt. hans, nema þeirri fyrstu, um skipun í stöðuna. Er þar lagt til, að konungur skipi í þetta embætti án þess að leitað sé tillagna hæstaréttar. Ég lít svo á, að til tryggingar því, að skipaður verði í þetta embætti óhlutdrægur maður, en ekki t. d. ákveðinn flokksmaður pólitísks ráðherra, sé nauðsynlegt, að tillögur um val mannsins komi frá hlutlausri stofnun, annaðhvort hæstarétti eða lagadeild háskólans, og að ráðh. sé bundinn við þær till. Ef skipun þessa embættismanns væri alveg lögð á vald pólitísks ráðh., þá gæti stofnun embættisins í raun og veru orðið gagnslítil. Minni hl. n. heldur því fram, að ekki sé ráðlegt að fela hæstarétti slík störf utan hans verkahrings, en ég sé ekki, að sú mótbára sé, að því er þetta atriði snertir, á verulegum rökum byggð, enda hefir hæstiréttur nú með höndum nokkur störf, sem ekki eru dómstörf, án þess að það komi að sök.

Ég vænti, að hv. d. fallist á það af þeim rökum, sem fram eru komin, að ekki sé rétt að fresta málinu, og felli því hina rökst. dagskrá meiri hl. nefndarinnar.