26.10.1934
Neðri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (4225)

95. mál, fátækralög

Jakob Möller [óyfirl.]:

Þessi dásamlegu rök í grg. frv., að menn eiga ekki að geta unnið sér sveitfesti með 2 ára dvöl í sveitarfélagi, þau mæla á móti frv., en ekki með því. Ef menn geta ekki unnið sér sveitfesti með 2 ára dvöl á sama stað, þá geta þeir það enn síður með fárra daga setu. Þessi rök hv. flm. falla því alveg um sjálf sig.

Hinu mótmæli ég alveg, að ef fólk flyzt úr einu héraði af því að það getur ekki haldizt þar við, og í annað, og verður svo að fá hjálp þar innan tveggja ára, að þá sé það sanngirnismál, að sveitarfélagið, sem það flutti í, ali önn fyrir því. Ég þverneita því alveg, að það sé sanngirnis- og réttlætismál, að ef sú sveit, sem fólkið hefir haft sveitfesti í áður, hefir ekki skyldur við það, þá hvíli sú skylda á því sveitarfélagi, sem fólkið hefir dvalið styttri tíma í. Að kalla slíkt réttlætismál er hreinasta vitleysa og hefir ekki við nein rök að styðjast. Hitt er annað, hvað er hagkvæmt, en mér finnst þessi tveggja ára sveitfestistími svo stuttur, að þessir málsvarar hinna dreifðu byggða geti fullkomlega sætt sig við hann. Hann er ekki nema varnagli, sem er sleginn við því, að lögin séu misbrúkuð, sem sé að því sé ekki komið í framkvæmd, sem ég benti á áðan, að gerðar verði ráðstafanir til þess að flytja fólk úr einu sveitarfélagi í annað, sem búast má við, að verði hjálparþurfa. Með þessu ákvæði um tveggja ára sveitfestitíma er settur dálítill þröskuldur í veginn fyrir misbrúkun á lögunum.