26.10.1934
Neðri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (4228)

95. mál, fátækralög

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Ég skal ekki deila um málið á þessu stigi þess, meðan það á eftir að fara til n., en það var eitt atriði í ræðu hv. 3. þm. Reykv., sem ég get ekki látið ómótmælt, og einmitt sem málsvari hinna dreifðu byggða. Hann var með þær aðdróttanir að sveitamönnum, að þeir mundu hefja fólksflutninga, ef þetta yrði að l., þannig, að þeir mundu flytja fólkið úr sveitunum áður en það yrði þurfandi sveitarstyrks. Að þessi hv. þm., sem ekkert þekkir til sveitamanna, skuli koma fram með annað eins og þetta, tel ég sprottið af illvilja í garð sveitamanna, og vildi ráða hv. þm. til að tala ekki um það, sem hann ber ekkert skyn á. Ég vil biðja hann að gera svo vel og standa við þessi orð sín og benda á, að slíkur fólksflutningur milli hreppa eigi sér stað.

Það má vera, að hann úr sínum eigin herbúðum þekki þann hugsunarhátt, sem hér liggur á bak við, en hjá sveitamönnum er hugsunarháttur sem þessi ekki til, og ég vísa þessu því algerlega heim til hans aftur sem staðlausum stöfum.