20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (4235)

157. mál, lýðskóli með skylduvinnu nemenda

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Menntmn. hefir nú athugað þetta frv. og orðið ásátt um afgreiðslu þess. Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um efni þess, því að flestum hv. þdm. mun það kunnugt. Ég skal aðeins geta þess, að frv. felur í sér heimild fyrir bæjar- og sveitarfélög til að starfrækja lýðskóla með því móti, að ungir menn í héraðinu fái þar skólavist gegn nokkurri skylduvinnu. Þetta er því a. n. l. gamla hugmyndin um þegnskylduvinnuna, sem að mörgu leyti var góð og gagnleg. Í sambandi við skylduvinnuna mætti koma að vinnukennslu, sem mörgum unglingum gæti komið vel. — Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um efni frv. Menntmn. hefir orðið sammála um að leggja til, að málinu verði vísað til stj. til athugunar fyrir næsta þing, þar sem nú er orðið svo áliðið þings, að ekki er hægt að koma því í gegn á þessu þingi. N. leggur því til, að málið verði að þessu sinni afgr. með rökst. dagskrá, sem prentuð er á þskj. 906. Vænti ég þess, að hv. þdm. fallist á þessa afgreiðslu, þar sem menntmn. stendur óskipt að henni.