26.10.1934
Neðri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (4237)

100. mál, framfærslulög

Flm. (Jónas Guðmundsson):

Þetta frv. er hið þriðja í röðinni um sama efni hér í þessari hv. d. í dag. Af þeim stuttu umr., sem orðið hafa um frv., sem var til umr. hér næst á undan, geta menn glögglega séð, að slíkar breyt., sem þar er farið fram á, eru bornar fram út í loftið. Það er algerlega rangt að ætla sér að taka eitt atriði út úr svo umfangsmikilli löggjöf og breyta því. En hitt sjá allir af þeim frv. og till., sem fram koma um þetta efni hér á Alþ. nú, að einmitt þetta mál, framfærslulöggjöfin í landinu, er eitt af þeim stærstu málum, sem liggja fyrir þessu þingi og næstu þingum að leysa. Ósamræmið í þessari löggjöf er orðið svo mikið, að það er farið að sýna sig í hinum einkennilegustu myndum í ýmsum sveitarfélögum.

Árið 1932 var gerð kákbreyting á þessum l., með því að láta ríkissjóð borga nokkurn hluta fátækraframfærisins þar, sem það var að verða sveitarfélögunum um megn. Þessi styrkur úr ríkissjóði hefir farið 71 þús. kr. fram úr 100 þús. kr., sem áætlaðar voru í þessu skyni, og er sýnilegt, að þetta mál færist óðfluga í það horf, að sveitarfélögin verða að fá hjálp til þess að standast byrðar fátækraframfærslunnar. Í grg. frv. eru nokkrar tölur, sem eru miðaðar við árið 1932. Þá hefir fátækraframfærsla á öllu landinu kostað 1800000 kr. Af þessu hafa kaupstaðir og kauptún með 500 íbúa og þar yfir greitt 1400000 kr., en sveitarfélögin tæpar 400000 kr. Það sést á þessum tölum, hvar fátækraframfærslan hvílir þyngst á. Hún hvílir mestmegnis á kaupstöðum og kauptúnum.

Nú eiga kaupstaðirnir samkv. l. heimting á að fá endurgreitt svo eða svo mikið af því, sem þeir leggja fram, en vegna þess hve fjárhagur sveitanna er slæmur, geta þær alls ekki greitt það, sem þeim ber. Kaupstaðirnir verða því að leggja út þetta fé, vitandi það, að þeir fá aldrei nema sáralítinn hluta þess aftur.

Hlutföllin í fátækraframfærslunni í landinu eru þau, að í kaupstöðum og kauptúnum er hún kr. 25.00 á hvern íbúa, en í sveitunum kr. 7.00 á hvern íbúa. Þetta greinilega misræmi í fátækraframfærslunni bendir á það, að sveitirnar mundu geta framfært það fólk, sem í þeim er, ef þær hefðu ekki samskonar skyldur að inna af hendi annarsstaðar. Þó eru til undantekningar frá þessum hlutföllum. Hjá þeim sveitarfélögum, sem hafa t. d. marga sjúklinga á framfæri sínu, getur hlutfallstalan farið langt fram úr þessu, og gerir það líka í ýmsum tilfellum. En samt sem áður eru það kaupstaðir landsins og kauptún, sem leggja mest fé út í þessu skyni, og eru líka blátt áfram að sligast undir þessum útgjöldum, að undanskilinni Reykjavík einni.

Það, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er, eins og tekið er fram í grg. þess, að framfærslusveit hvers manns verði hér eftir sá hreppur eða kaupstaður, sem hann er búsettur í. Þannig losna sveitirnar að öllu leyti við að framfæra þá, sem eru utan þeirra vébanda. Það er ætlazt til, að þær framfæri þá, sem eru þar heimilisfastir, en þurfi ekki að svara neinum kröfum annarsstaðar frá. Kaupstöðum og kauptúnum er svo aftur ætlað það hlutverk, að framfæra alla, sem þar eru búsettir og verða búsettir, en svo er ríkissjóði ætlað að jafna þann mismun, sem verður á fátækraframfærslunni um land allt.

Það verður ekki á nokkurn hátt varið frá sjónarmiði réttlætis, að ætla kaupstöðum og kauptúnum að leggja til fátækraframfærslu 25 kr. á mann á móts við sveitirnar, sem leggja fram í því skyni 7 kr. á mann. Og hverjir eru það svo, sem verið er að framfæra í raun og veru? Það eru þeir þegnar þjóðfélagsins, sem sökum fátæktar, vanheilsu, atvinnuskorts eða af einhverjum öðrum ástæðum geta ekki séð sér farborða sjálfir, en sem þjóðin sem heild á að sjá farborða. Þess vegna má ekki leggja allt of mikið af þessari byrði, sem ríkið í heild sinni á að bera, á einstök byggðarlög. Skynsamlegasta leiðin er vitanlega sú, að láta ríkissjóð, hinn sameiginlega sjóð allrar þjóðarinnar, jafna þennan mismun, ekki með útreikningi og bollaleggingum, eins og gert er með l. frá 1932, heldur blátt áfram á þeim grundvelli, að þau sveitarfélög, sem hafa yfir meðalframfærsluþunga, fái endurgreitt það af kostnaðinum, sem sanngjarnt er, en hin ekki, sem þar eru fyrir neðan.

Nú er svo komið, að sveitirnar eru að sligast undir framfærsluþyngslum sínum, þrátt fyrir það, þó að kaupstaðirnir framfæri mikið fyrir þær án þess að fá það borgað. Og hvers vegna á þá að draga að breyta þessu, svo að hlutföllin verði réttari og sanngjarnari? Það má ekki dragast lengur, að hlaupið verði undir bagga með kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa orðið að inna þetta þunga hlutverk af hendi að mestu leyti.

Við flm. þessa frv. berum það ekki fram í nafni Alþfl., heldur sem fulltrúar tveggja kaupstaða, sem hafa áreiðanlega lagt fram sinn hluta til þess að framfæra þurfamenn fyrir aðra. Við skiljum það því betur en margir aðrir, hvaða þýðingu þetta hefir fyrir kaupstaðina, bæði fjárhagslega og menningarlega. Þegar kaupstaðirnir hafa borgað tugi þús. fyrir að framfæra fólk, sem að l. á annarsstaðar heimtingu á framfærslu, þá hljóta allir að sjá, að afleiðingin verður sú, að þeir, sem hafa mjög takmarkaða tekjumöguleika, hljóta að lenda í öngþveiti með fjármál sín. Þeir hljóta að lenda í vanskilum annarsstaðar. Og hvernig fer þá? Þegar bæjarfélögin geta ekki greitt það, sem þau verða að taka út í verzlunum handa þeim mönnum, sem þau framfæra, þá komast þau þar í skuldir. Upp í þessar skuldir eru svo útsvörin látin ganga fyrst og fremst. En þá lendir annað í vanskilum, t. d. lán í bönkum, greiðslur í sýslusjóði og greiðslur til ríkissjóðs. Úr þessu verður svo sú vanskilakeðja, að ekki er mögulegt fyrir nokkurt sveitarfélag að segja: Ég hefi hreina reikninga; ég borga allt, sem mér ber að borga. — Þetta stafar fyrst og fremst af því, að á þessi byggðarlög hafa verið lögð þessi ógurlegu útgjöld.

Þetta er áreiðanlega eitt mikilvægasta málið, sem fyrir þinginu liggur, og ég tel ekki rétt að fresta lausn þess, þó ekki sé nema til næsta árs. En vinnubrögðin hér á þingi eru þannig, að það þarf að velta hverju máli fyrir sér tímunum saman þar til allt er komið í óefni, og þá eru gerðar einhverjar kákbreytingar í flýti. Ég sé ekki, að fátækralöggjöfin þurfi að vera svo rígbundin við tryggingarlöggjöfina, að ekki megi afgreiða hvorn lagaflokkinn út af fyrir sig. Sjúkra- og ellitryggingar, sem hér eru mest aðkallandi, grípa inn í fátækral. mestmegnis á þann hátt, að útgjöldin þeirra vegna verða minni, þar sem styrkur til sjúklinga og gamalmenna færist yfir á annan lið. Þannig grípa tryggingarl. aðeins inn í fjárhagshlið fátækral., og á þann hátt, að útgjöld sveitar- og bæjarfélaga þeirra vegna verða minni. — En svo ég víki að frv. sjálfu, þá má segja, að 1. kafli þess sé nákvæmlega óbreyttur frá því, sem er í núgildandi l., en hann er um framfærsluskyldu, skyldu sveitarfélaga og einstaklinga til að framfleyta fátæklingum. Í 2. kafla er aftur mikilvæg breyt. frá núgildandi l., þar sem gert er ráð fyrir því, að ríkið verði allt eitt framfærsluhérað, þó með þeim takmörkunum, sem annars eru um það sett í frv. — 3. og 4. kafli mega heita óbreyttir frá núgildandi l.; þar er aðeins að ræða um orða- en ekki efnisbreytingar. — Þá kemur að 5. kaflanum. Þar er skrefið stigið heilt, landið skal gert að einu framfærsluhéraði, og ríkissjóður endurgreiðir sveitar- og bæjarfélögunum hluta kostnaðarins við fátækraframfærsluna, — til Reykjavíkurkaupstaðar 1/3 hluta þess, sem fram yfir er meðaltalsframfærslukostnað landsins, margfaldað með íbúatölu Reykjavíkur, og til annara kaupstaða og sveitarfélaga 2/3 hluta þess, sem fram yfir er meðaltalsframfærslukostnað landsins, margfaldað með íbúatölu viðkomandi kaupstaðar eða sveitarfélags. — Ég skal taka það fram, að fyrir okkur flm. er það ekkert aðalatriði, að þessum hlutföllum sé haldið, og gætum við gengið inn á breyt. í því efni, ef hv. allshn. eða öðrum hv. þm. þættu þær nauðsynlegar til þess að frv. gæti orðið að l. En við leggjum þetta til sem sæmilegan umræðugrundvöll. Það gæti t. d. verið spursmál, hvort ekki á að gera ráð fyrir endurgreiðslu til sveitanna, þó að framfærslukostnaður þeirra fari ekki fram úr meðaltalsframfærslukostnaði landsins, eða setja markið lægra fyrir sveitarfélögin en kaupstaðina. Í frv. er tekið slíkt tillit hvað Reykjavík snertir; henni er ætlað að greiða meira en öðrum kaupstöðum og sveitarfélögum áður en endurgreiðsla fæst. Þetta er meðfram vegna þess, hve Reykjavík hefir betri skilyrði til fjáröflunar en önnur bæjarfélög. Það er svo alkunnugt, að um það þarf ekki að deila.

Ég held þá, að ég hafi tekið það helzta fram um þetta frv. okkar, sem máli skiptir, og vildi ég mælast til þess, að því verði vísað til allshn. að aflokinni þessari umr. Ég vil þó að lokum undirstrika það, að allur dráttur á lausn þessa máls er mjög tilfinnanlegur fyrir mörg sveitar- og bæjarfélög, sem nú eru að sligast undir byrðum framfærslukostnaðarins, og skora á hv. dm. að stuðla til þess, að frv. þetta nái fram að ganga nú á þessu þingi.