26.10.1934
Neðri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (4245)

100. mál, framfærslulög

Flm. (Jónas Guðmundsson):

Ég þarf ekki að svara miklu, sem fram kom í umr.; þó vildi ég segja, út af orðum hæstv. atvmrh., að ég hefi aldrei haldið því fram, að ekkert samband væri á milli fátækramála og tryggingarmála. En ég sagði, að það væri mestmegnis fjárhagslegt samband, sem verkaði þannig, að þegar tryggingarl. kæmu til framkvæmda, léttu þau byrði sveitarfélaganna með því að taka við einstöku póstum af framfærslukostnaðinum. Annars erum við hæstv. ráðh. vafalaust sammála um þetta atriði, og því óþarft að eyða tíma hv. d. í deilur um það.

Hv. þm. A.-Sk. hefir fundizt ég sveigja að sér, þegar ég nefndi gagnsleysi kákbreytinganna. En ég verð að kalla það svo, að ekki sé meira sagt, þegar tekið er svo mikilvægt atriði sem sveitfestitíminn út úr og farið að afnema hann, án þess að sjá jafnframt til þess, að sveitarfélög, sem þarna fá kannske stórum aukinn fjölda sinna framfærenda, fái nauðsynlegar tekjur til þess að standa straum af því. Þetta kalla ég kákbreytingar, og svo munu fleiri gera. Annars talaði þessi hv. þm. um lágmarksgjaldið, sem hann taldi sett of hátt í þessu frv. Ef horfið verður að því ráði að hafa annað meðaltal framfærslugjalds fyrir sveitir en kaupstaði, liggur það í hlutarins eðli, að þetta lágmark breytist hlutfallslega eftir því. En þetta er á valdi hv. d. að breyta, og vona ég, að n. taki þetta rækilega til athugunar. Kaupstaðirnir eru margir hverjir að sligast undir því vitlausa skipulagi, sem nú er á fátækramálunum, svo að ég tel algerlega óforsvaranlegt að draga lausn þess lengur en orðið er. Ég fæ ekki heldur séð, að málinu væri betur borgið með því að fyrirskipa 4— 5 mönnum að fara að hugsa um það fram í marz-apríl í vor, og það kannske mönnum, sem enga praktiska reynslu hefðu í þessum málum. Ég efast ekki um, að þetta þing, sem nú situr, getur afgr. fyrirmyndar framfærslul., ef það leggur sig fram. Þetta mál er ekkert flokksmál. Ég veit, að t. d. hv. þm. Vestm. hefir eins fundið til erfiðleika þessa skipulags eins og við hv. þm. Hafnf. Og ég þykist vita, að bæði hann og hv. þm. Ak. muni líta með sanngirni á þörf kaupstaðanna til þess að koma fram breyt. á þessum málum, Að mínu áliti ættu allir flokkar þingsins að taka höndum saman um að leysa þetta mál sem bezt, og leysa það nú.