26.10.1934
Neðri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (4250)

100. mál, framfærslulög

Emil Jónsson:

Ég hefi litlu við það að bæta, sem hv. 6. landsk. sagði í framsöguræðu sinni og fram hefir komið í umr. Mig langar þó til að árétta það, sem hann sagði um hina brýnu nauðsyn á því, að þetta mál nái afgreiðslu á þessu þingi. Hæstv. fjmrh. hélt fram, að skynsamleg lausn þessa máls fengist vart nema með því að leysa tryggingarmálin samtímis. Ég held nú, að framfærslulöggjöfin hafi verið það mikið rædd á Alþingi, þar sem varla hefir verið lokið svo nokkru þingi, að ekki hafi komið fram einhverjar till. til breyt. á henni, að flestir hv. þm. hafi haft aðstöðu til að kynna sér þetta mál og leggja sig eftir, hvaða ráð væru helzt til bóta, og því sé síður nauðsyn á að láta afgreiðslu þess bíða eitt ár enn, eftir afgreiðslu tryggingarmálanna, sem miklu minna hafa verið rannsökuð.

Svo er annað, sem alveg sérstaklega rekur á eftir afgreiðslu þessa máls. Með hverju ári fara vaxandi hinar gífurlegu skuldasúpur, sem sveitarfélög stofna sér í hjá kaupstöðunum vegna þurfalinga, sem þau þurfa að gefa með þangað. Meiri og meiri verða líka fjárhagsörðugleikarnir, sem kaupstaðirnir komast í vegna þess, hve mikið fé situr fast í skuldakröfum á sveitarfélögin vegna framfærslukostnaðar. Þetta er frá mínu sjónarmiði svo stórt atriði í þessu máli, að ég vildi ekki láta hjá líða að benda á það. Það eru til tiltölulega smáir bæir úti um land, sem eiga jafnvel svo skiptir hundruðum þúsunda útistandandi hjá öðrum sveitarfélögum. Þetta er meira heldur en bæjarfél. geta risið undir, og þau mega ekki við því, að þessar skuldir aukist enn.

Hæstv. fjmrh. taldi góða lausn á þessu máli, að það bíði næsta þings og yrði leyst þar samtímis tryggingarmálunum. Það má vera, að það reynist eina mögulega leiðin, en neyðarlausn er það, algert neyðarúrræði. Vænti ég því, að sú n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, geri sitt til, að það geti orðið afgr. einmitt á þessu þingi; það þolir svo illa bið.

Annars er það fátt, sem ég þarf að taka fram. Hæstv. atvmrh. óskaði sérstaklega eftir því, að sínar till. til breyt. á framfærslulögunum yrðu afgr., því þær þyldu enga bið. Það er rétt hjá honum, en þetta atriði, sem ég minntist á, þolir heldur enga bið og er jafnvel ennþá nauðsynlegra að ráða fljótt fram úr því, eins og nú er högum háttað.

Þá minntist hv. þm. V.-Húnv. á, að það væri athugandi, hvort ekki ætti að skipta framfærsluhéruðunum í a. m. k. tvo flokka, hafa kaupstaðina í öðrum og sveitarfélögin í hinum, og láta þá hafa sína grundvallartöluna hvorn við úthlutun á endurgreiðslu ríkissjóðs til fátækraframfæris. Ég er honum samdóma um, að þetta gæti komið til mála. Við flm. frv. tókum það líka til athugunar í fyrstu, en eftir að við höfðum velt málinu fyrir okkur, töldum við það ekki rétta leið. Ef til vill er það rétt, að sumir kaupstaðirnir hafi meiri gjaldgetu heldur en mörg sveitarfélaganna, en ég efast um, að svo sé almennt. Aftur hafa sveitirnar betri aðstöðu til að koma sínum ómögum fyrir á ódýran hátt og skaffa þeim nauðsynjar sínar í framleiðsluvörum, sem þeir þurfa að nota, þar sem kaupstaðirnir þurfa að kaupa framfærsluna dýru verði. Það álítum við, að mundi vega á móti, þó að ég hinsvegar hafi ekkert á móti, að athuguð sé uppástunga hv. þm. V.-Húnv.

Ég hefi átt skipti við fjölda marga oddvita víðsvegar um land, sjálfsagt yfir hundrað. Og þeir hafa margir haft orð á því, að þeir myndu ekki verða í vandræðum með að sjá fyrir þurfalingum sínum heima í héraði; það, sem væri alveg að sliga hreppsfélögin, væru greiðslurnar til kaupstaðanna. Og þetta held ég, að sé alveg rétt. Ef sveitarfélögin slyppu við að sjá um þá þurfalinga, sem dvelja utan sveitar, og mættu eingöngu nota innan sveitar það fé, sem þau verja til fátækraframfæris, þá held ég þau myndu vel við una, og mættu líka vel við una.

Að lokum vil ég enn leggja áherzlu á það, að þetta mál fái einmitt afgreiðslu á þessu þingi, en verði ekki látið bíða næsta þings. Verði dregið til næsta þings að afgr. það, má alveg eins búast við, að það verði dregið til þess þarnæsta, eða hver veit hvað. Allt þetta endurgreiðslufargan milli sveitarfélaga er komið í slíkt óefni, að það er með öllu óviðunandi. Kaupstaðirnir eru orðnir einskonar bankar sveitarfélaganna, þeir verða að leggja út stórar upphæðir árlega án þess að fá nokkuð endurgreitt. Sveitarfélögunum leiðist aftur á móti að geta ekki staðið í skilum, en fá ekki að gert, þar sem hið almenna ástand skapar þetta.