15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (4261)

115. mál, niðurlagning prestlaunasjóðs

Frsm. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Eins og í nál. stendur, hefir allshn. lagt til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Þetta var borið fram sem stjfrv. árið 1933, en sofnaði þá í nefnd. (PHalld: Hvers vegna?). Ég veit það ekki. Frv. kom fram í n. sem stjfrv. frá hæstv. þáv. atvmrh. Það er líklega svipað um það að segja og önnur frv., sem sofna í nefnd. Ef til vill hafa einhverjir svæft það. Ég veit ekkert um það.

Ég get ekki séð því neitt til fyrirstöðu, að prestlaunasjóður sé lagður niður. Eins og kunnugt er, hefir þessi sjóður ekki verið til nema á pappírnum, og þess vegna er eðlilegt, að fé það, sem í hann fer, renni í ríkissjóð, þar sem hann verður að greiða það, sem er umfram tekjur sjóðsins, til presta. Mér skilst ekki hafa orðið neinn ágreiningur um þetta atriði hér í hv. deild.

Hv. þm. V.-Sk. og hv. þm. Ak. hafa borið fram brtt. þess efnis, að sóknarnefndir haldi áfram að annast innheimtu þessara gjalda, í stað þess að sýslumenn og tollstjórar geri það, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég fyrir mitt leyti sé enga ástæðu til þess að amast við því, að sýslumenn fái þessi störf í hendur, enda þótt ég sé sjálfur sýslumaður. Þar sem sýslumenn hafa margskonar innheimtu með höndum, þá ætti þessi innheimta, sem hér um ræðir, ekki að auka störf þeirra til mikilla muna. Þeir geta látið hreppstjórana hjálpa til við þetta starf. Ég álít í rauninni meiri ástæðu til þess að losa sýslumenn við ýms önnur innheimtustörf. T. d. er það svo um ellistyrkinn, sem er hreppsstyrkur. Er þess vegna meiri ástæða til að losa sýslumenn við innheimtu ellistyrksins. Þess vegna tel ég ekki ástæðu til þess að ganga inn á þessa brtt.